miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Tók 40 mín. Ívar í gær á 6.3. hafði ekki tíma til að vera lengur en þetta verður léttara +i hvert skipti. Tíu km hraðaæfing í dag. Fór undir 42 mín og náði markmiðinu að klára 10 km áður en diskurinn Á Balli með Pöpunum kláraðist. Næsta markmið er að klára 10 km áður en síðasta lag byrjar. Magnús Gottfreðsson var að hlaupa við hliðina á mér í gær. Hann rúllaði áfram á 17.1. Það er verðugt markmið fyrir veturinn að stefna að því að geta hlaupið á rúmum 17 án þess að fjúka út af brettinu. Í fyrra var markmiðið að ná rúmum 15 fyrir vetrarlok og það tókst. Nú er ekkert mál að halda 15 í 5 - 10 mín en það var mikið mál í fyrra. Sjáum til í apríllok.

Fór í jarðarför Jóns frá Úthlíð í dag. Hallgrímskirkja var því sem næst full. Hjálmar Jónsson flutti góða ræðu enda uppalinn í Tungunum og þekkti Jón vel. Jón var mikið hörkutól í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.

Fór á Brúðgumann í gær. Þetta er ein besta íslensk mynd sem ég hef séð. Bæði vel gerð og þrælfyndin enda þótt alvarlegur undirtónn væri í henni. Snemma í myndinni birtist forseti 100 km félagsins eins og hann hafi ekki gert annað en að leika í kvikmyndum um æfina. Sterk innkoma en stutt!!

Í morgun var hálftíma innslag á Rás 1 um múslimska trú. Bæði var rætt við bandarískan múslíma sem var hér í áróðursherferð svo og formann múslímska félagsins hérlendis. Mér fannst það eftirtektarvert að fréttamanninum tókst að ræða við þessa áróðursfulltrúa í hálftíma án þess að koma með eina einustu gagnrýna spurningu. Eru menn virkilega svona hræddir við islamiska öfgahópa eða íslenska fjölmenningarvita að gagnrýnin hugsun er ekki inni í myndinni heldur bara kóað með. Í dag bárust t.d. fréttir af því að hollenskur banki hafi hætt við auglýsingaherferð um aukinn sparnað þar sem sparigrís bar fyrir augu af ótta við múslimska öfgahópa. Fólki hérlendis getur þótt þetta hlægilegt en þetta er ekki fyndið. Þetta er háalvarlegt mál hvernig svona öfgahópar ná að kúga samfélagið með ofsafengnum viðbrögðum við öllu því sem þeim er ekki þóknanlegt. Þegar viðhorfið er eins og kom fram hjá formanninum í viðtalinu í morgun þegar hann var spurður um hvernig þeim gengi að aðlagast íslensku þjóðfélagi, þá er ekki á góðu von. Svar hans var að þeir þyrftu ekkert að aðlaga, það væri ekkert að hjá þeim.

Það hafa verið fréttir í fjölmiðlum að undanförnu um hvernig fólk af erlendu bergi brotið er treyst fyrir ábyrgðar í auknum mæli. Fyrsta erlenda konan var ráðin leikskólastjóri og erlendur maður var kosinn í stjórn Einingar. Ég efa ekki að þetta sé ágætis fólk sem gegni þessum störfum af miklum sóma en hvaða fréttamennska er þetta? Hvað er fréttnæmt við þetta? Er fólk sem fætt er erlendis svo miklu síðra að upplagi en innfæddir íslendingar að það þyki sérstaklega fréttnæmt að það geti axlað meiri ábyrgð en sem felst í því að vinna almenna launavinnu? Auðvitað ekki. Það sem skiptir öllu máli í þessu sambandi er hvað hver einstaklingur sem býr utan heimalands leggi sig eftir því að læra mál þeirrar þjóðar þar sem þeir búa. Eru íslendingar ekki í ábyrgðarstöðum út um allan heim þar sem þeir verða að vinna á framandi tungumáli? Vitaskuld og þykir nekki fréttnæmt lengur. Þá er það ekkert meira mál fyrir fólk af erlendum uppruna að takast á við ábyrgðarstöður hérlendis ef það lærir málið. Sem dæmi má nefna að þegar ég bjó í Uppsölum fyrir rúmum aldarfjórðung þá hitti ég t.d. stundum Lárus Jónsson sem hafði búið í Uppsölum um langa hríð. Hann átti t.d. sæti í borgarstjórn Uppsala í nokkur kjörtímabil og þótti ekki vera sérstaklega fréttnæmt. Hann var bara dugnaðarmaður sem hafði aðlagast sænsku þjóðfélagi mjög vel og það þótti ekki tiltökumál að honum væri falin samfélagsleg ábyrgð. Að mínu mati virkar svona fréttaflutningur í andhverfu sína þegar verið er að tala um það sem sérstakt afreksverk ef fólk af erlendu bergi brotið axlar stjórnunarábyrgð hérlendis. Hálfgerð útnesjamennska í fréttavali. Eitt af því alvitlausasta í þessari umræðusem ég hef séð lengi bar fyrir augun í mogganum í morgun. Þar lagði einhver til að íslendingar færu að læra pólsku í stórum stil til að geta talað við þá pólverja sem flytjast hingað til lands. Það væri örugglega gaman að kunna pólsku til að geta tjáð sig á máli heimamanna þegar maður heimsækir Pólland, nú eða talað við Pólverja sem flytjast hingað á þeirra máli. Það er hins vegar grundvallaratriði að þegar fólk flyst milli landa að það læri tungumál þess lands sem það flyst til þannig að það geti aðlagast þjóðfélaginu ef það hefur þá áhuga á því á annað borð. Ef það gerir það ekki þá verður það ætíð utangarðs. Það er ekki flóknara.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur,

Ég leyfi mér að hnýta í athugasemdir þínar um fjölmenningu og þess háttar vegna þess að þú berð það með þér að vera skynsamur og íhugull og svarar kurteislega. Enda þótt þú eigir fá falleg orð um einn af þeim hópum sem ég tilheyri. Meðvitaða liðið. ;-)

Fyrst vil ég benda þér á heimasíðu Hollenska bankans Fortis http://www.fortis.nl/ sem er umræddur banki. Þar getur að líta sparigrís, hægra megin fyrir miðju. En það er rétt hjá þér, það er ekki hlægjandi að þessu. Við erum þó líklega ekki sammála um hvað það er sem gerir málið alvarlegt! En svo geturðu kíkt á þetta ef þú hefur húmor fyrir því: http://kaninka.net/stefan/2008/02/27/fjolmenning-og-politisk-retthugsun-skri%c3%b0a-fyrir-truarofst%c3%a6kismonnum/

Það er merkilegt hvað menn upplifa fréttirnar mismundandi. Þegar ég las um nýja leikskólastjórann hugsaði ég með mér: "Það var mikið!" Enda hefur það verið lengi í fréttum að ummönnunar- og menntastofnanir eru að stórum hluta mannaðar útlendingum. En það hefur ekki endurspeglast í efri lögunum.

Ég hef nefnilega verið að láta fara í taugarnar á mér fregnir af því hvað mannauðurinn sem býr í útlendingum á íslandi er illa nýttur. Nýjasta dæmið var á Rás 1 um daginn, en þá var viðtal við konu sem rekur sambýli fyrir geðfatlaða á Egilsstöðum. Hún var spurð út í starfsfólkið sitt, sem flest er erlent. Í þeim hópi voru verkfræðingar og fólk menntað í fjármálafræðum. Enginn var þó menntaður í fræðum sem viðkoma þessari starfsemi, enda hefðu starfsréttindin tæpast verið metin.

Hefði ég verið í þeim gírnum að láta fréttina fara í taugarnar á mér, þá hefði það verið að hún væri kattarþvottur. Vandamálið væri miklu stærra en svo að einn leikskólastjóri hefði neitt að segja.

Bágt á ég með að trúa því að því hafi ekki verið haldið til haga að íslendingur hafi átt sæti í sveitarstjórn í stóru sveitarfélagi í Skandinavíu fyrir 25 árum. Það þurfti ekki stór afrek erlendis til að rata í fréttirnar í denn…

Ég heyrði ekki viðtalið við Salman Tamimi, en mikið skil ég hann vel ef það er farið að fara í taugarnar á honum þetta eilífa aðlögunartal. Ég vona að ég sé að fara rétt með en er ekki sonur hans hæstaréttarlögmaður og prófessor við íslenskann háskóla, systir hans bæjarstjórnarmaður og hann sjálfur íslenskur ríkisstarfsmaður til fjölda ára. Nýtur þegn sem tekur virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni. Hvað þarf hann að gera meira til að teljast aðlagaður? Aðlagaður hverju? Á hann að vera eins og ég? Eins og þú?

Má ég gerast svo djarfur að spyrja hvað er svo átt við þegar talað er um aðlögun? Er til einhver mælikvarði á aðlögun sem útilokar ekki einhvern hluta innfæddra? Hvers virði eru þá þessir mælikvarðar? Er þetta ekki tilgangslaus orðaleppur?

M.a.o. hvernig var umferðarfundurinn í gær? Ég komst ekki vegna veikinda.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Sæll Grímur og takk fyrir athugasemdina. Ég tek ekki alveg undir það að ég eigi fá falleg orð um "meðvitaða liðið" en engu að síður þá þreyta sjónarmið nokkurs hluta fólks mig nokkuð. Meðal annars var ég ósáttur við að þessi hópur reyndi að berja niður alla umræðu um að því gætu fylgt erfiðleikar og árekstrar þegar slíkar breytingar á þjóðfélaginu eiga sér stað eins og hafa átt sér stað á síðustu árum í kjölfar hins mikla tilflutning erlends fólks. Með slíkri umræðu er ekki verið að draga menn í dilka fyrir gott fólk og slæmt fólk heldur að viðurkenna það sem allir vita sem vilja vita að slíkar breytingar ganga ekki árekstralaust fyrir sig. Við þurfum ekki að fara lengra en til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur til að finna samsvörunina. Ég aðstæður í Svíþjóð einna best. Ég sé ekki annað en það sé nákvæmlega sama þróunin að gerast hér eins og þar í landi nema við erum svona fjórum áratugum á eftir þeim. Ég á bækur þar sem farið er yfir þarlendar fréttir frá sjöunda áratugnum og þá var í öllum aðalatriðum nákvæmlega sami fréttaumfjöllun um innflytjendur í Svíþjóð og er hérlendis í dag. Fólk frá Júgóslavíu og Grikklandi (svo dæmi séu nefnd) var haugað inn til Svíþjóðar að vinna í Kokkums, Erikson og Volvo. Það var skýrt frá því í blöðum þegar einhver úr þeirra hópi náði að vinna sig upp í ábyrgðarstöður (eins og um undirmálsfólk væri að ræða) og allt var voða gaman. Svo sló í bakseglin og síðan snerist þetta í andhverfu sína. Ég er ekki að draga fólk í dilka, ég er að segja að svona þjóðfélagsbreytingar eru erfiðar og það á að viðurkenna það. Annars er hætt við að vandamálunum sé sópað undir teppið og þau brjótist út síðar og þá oft öllu erfiðari. Mér finnst það töluvert mál að fleiri hundruð krakkar og unglingar séu að skrá sig í einu vetfangi á bloggsíður þar sem verið er að hvetja til andúðar gegn erlendu fólki. Það er varasamt að afskrifa þetta sem eitthvað unglingabull. Hver er orsökin, hvað veldur? Ég veit vel að margt af því erlenda fólki sem hefur flust hingað til lands er vel menntað og því fylgir mikill mannauður. Það helgast hins vegar fyrst og fremst af hugsun þess og afstöðu hve vel því tekst að fóta sig í nýju þjóðfélagi. Hve mikið leggur það sig eftir að læra tungumálið? Það er það sem öllu máli skiptir. Þegar það er komið kemur hitt af sjálfu sér. Ég þekki þetta persónulega vegna þess að ég hef búið nær átta ár erlendis í þremur löndum. Enda þótt enska sé orðin starfsmál í ýmsum fjármálastofnunum þá er það ósköp eðlilegt að fólk sem flytur til einhvers lands geti ekki farið strax að vinna við sína sérfræði þegar það kann ekki málið. Því verða verkfræðingar t.d. að byrja að vinna á leikskóla án þess að í því felist einhver niðurlægjandi afstaða þess hjá íbúm lands sem viðkomandi flytur til. Það er einnig sagt að það sé besta leiðin að læra nýtt mál að vinna með börnum. Ég geri ekki ráð fyrir að fá vinnu sem hagfræðingur á fyrsta degi ef ég flytti til lands þar sem ég kynni ekkert í máli heimamanna og það er bara mjög eðlilegur hlutur að mínu mati.
Það er ósköp eðlilegt að þurfa að aðlaga sig að nokkuð að siðum, venjum og aðstæðum þess lands sem maður flytur til. Það þarf maður að gera í flestum tilvikum. Það er ekki þar með sagt að maður þurfi að þvo af sér persónuleikann eða leggja af allt það sem áður var. Með siðum, venjum og aðstæðum er t.d. hægt að nefna mataræði, frístundaiðkan, framkomu, hefðir á vinnustöðum, loftslag og áhugamál svo einhver dæmi séu nefnd. Kannski ekki endilega þau bestu. Í fæstum tilvikum býr maður sér til sitt litla þjóðfélag sem er eins og það var heima frá sér ef maður flytur til annars lands. Ef maður reynir þá er maður að dæma sig til einangrunar í því landi sem maður ætlar að búa í til frambúðar. Aðlögun að nýjum aðstæðum reynist fólki hins vegar mis erfið. Því er ekkert óeðlilegt við að spyrja hvernig aðlögun að nýju samfélagi hafi gengið. Aðlögun er ekki að laga sig (bæta sig) heldur að fella sig að nýjum aðstæðum. Það er bara mjög eðlilegur hlutur að fólk sem kemur erlendis frá axli aukna ábyrgð í samfélaginu eftir því sem færni þeirra í tungumálinu vex og menntun þeirra og reynsla fær að njóta sín. Það er hins vegar ekki fréttaefni að mínu mati. Þegar farið er að vekja sérstaka athygli á sjálfsögðum hlutum þá eru þeir ekki lengur sjálfsagðir. Hvað hafa ekki margir skólastjórar tónlistaskóla komið erlendis frá?

Umferðarfundurinn var fínn, það mættu tæplega 50 manns og fjörugar umræður stóðu í ca tvo tíma. Vinnan er rétt að byrja.