Vikan hefur verið heldur slök frá síðustu helgi. Utanlandsferðir og rigning er ekki til að kynda undir árangurinn. Tók 50 mín Ívar í gær. Gekk fínt og lengi það upp í klukkutíma næst. Svo fer ég að kynda upp hraðann. Fór Eiðistorgshringinn með Jóa og Neil í morgun. Var þungur og orkulítill. Hvort Ívar hefur setið í löppunum skal ég ekki segja um en það verður vonandi betra á morgun.
Ásgeir J. var með fyrirlestur í Heilsuhúsinu á fimmtudaginn. Kom því miður of seint en náði í lokakaflann hjá honum. Han var m.a. að fjalla um hve hugurinn og múrarnir fyrir árangri eru oft innibyggðir í manni sjálfum. Ef maður trúir því að maður geti hlutina ekki þá er það á hreinu að maður getur það ekki. Ef maður trúir því að eitt og annað sé hægt þá er fátt sem stendur í vegi fyrir manni. Þú stekkur ekki lengra en þú hugsar. ég get tekið undir hvert orð sem Ásgeir sagði þarna. Maður er sjálfur oft stærsta hindrunin fyrir því sem maður getur. Það var ekki fyrr en árið 2002 sem ég fór að trúa því að ég gæti verið annað en meðal lullari. Það var Sigurður P. sem kom mér á bragðið þegar við vorum að spjalla saman niðri í Ölveri þegar verið var að fylgjast með gengi þeirra sem tóku þátt í Boston Maraþoninu það árið. Árið eftir fór ég Laugaveginn og í bjartsýniskasti um haustið fór ég að velta því fyrir mér að hlaupa 100 km árið eftir. Þá höfðu Ágúst og Siggi Gunnsteins einir íslendinga hlaupið slíka vegalengd. Síðan var ekki til baka snúið. Maður komst að því að maður er sjálfur stærsta hindrunin fyrir því sem maður getur. Ef maður setur sér ákveðið markmið og undirbýr sig vel þá er fátt sem stöðvar mann. Með því að þekkja sál og líkama vel þá getur maður náð býsna langt. Þetta er ekki síður mikilvægt fyrir þá sem eru að byrja markvissa hreyfingu heldur en þá sem hafa verið lengur að. Það er oft erfiðast að byrja. Neil sagði okkur Jóa t.d. í morgun að þegar hann byrjaði að hlaupa fyrir átta árum (ef hægt er að nota svo virðulegt orð yfir fyrsta daginn) þá sagðis hann hafa haldið að hann myndi drepast strax eftir 50 metra. Nú er hann með öflugari ultramönnum í heiminum og stefnir á tífaldan Ironman í nóvember!!!
Það er vonandi að lögreglustjórinn í Reykjavík fari yfir vinnulag innandyra á Hverfisgötunni eftir að handrukkarahrottinn Annþór slapp út í gærmorgun. Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt. Sá í blöðunum í morgun að Litháarnir sem sitja inni á Hrauninu fyrir dópinnflutning eru bara ánægðir með sinn hag. Þeir taka ákveðinn séns og ef hann gengur upp á detta þeir í lukkupottinn. ef ekki þá búa þeir þarna í góðu yfirlæti í einhvern tíma, fá vinnu sem er betur launuð en það sem þeir hefðu haft möguleika á heima hjá sér, og þar fram eftir götunum. Hvað á lengi að gera grín að manni? Þarna er um að ræða einstaklinga sem koma hingað til lands í þeim tilgangi að eitra fyrir unglinga, sökkva fleirum í fen eiturlyfjanna og draga enn fleiri í þetta ógæfuferli. Sundra fleiri fjölskyldum, auka á innbrot, líkamsárásir og annað af slíkum toga. Þannig mætti áfram halda. Svo er þessu liði haldið uppi á fínu gistiheimili á góðum launum ef upp kemst. Hvenær verður farið að senda þá beint til sína heima í fangelsi ef þeir verða teknir? Í tengslum við þessa umræðu eru blaðamenn oft eins og einhver fífl og láta nota sig eins og hverja sakleysinga. Síðast varð það að blaðamáli að einhverjir fangar þurftu að vera tveir saman í herbergi um einhvern smátíma. Só. Svokölluð samtök fanga notuðu alla sína kontakta til að útmála hvílik meðferð væri á föngum á Hrauninu. Þarna er um að ræða hættulegustu glæpamenn þjóðarinnar, morðingja, barnanauðgara, dópsala og fanta af ýmsum öðrum gráðum og svo eru blaðamenn að nugga framan í mann svona væli.
Blogg les maður bara hjá einstaka manni. Þó kemur fyrir að maður leitar upp ákveðin blogg til að fylgjast með umræðunni. Ég geri það nýlega í sambandi við viðbrögð Bubba svokallaðs kóngs við dómi sem Dóri DNA skrifaði um þáttinn Bandið hans Bubba. Dóra þannst þetta ekki vera merkilegur þáttur. Hann væri fyrst og fremst umgjörð án innihalds. Ég hef ekki séð hann og get því ekki dæmt um réttmæti þessarar afstöðu. En viðbrögð hins umrædda Bubba voru afar athyglisverð. "Ég er góður og það sem ég geri er frábært og allir sem eru á annarri skoðun eru meiri andskotans fíflin." Þetta var inntakið í viðbrögðum Bubbans. Þetta skrifar maðurinn sem söng hér á árum áður um firringu poppstjörnunnar. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Ég held að ég hafi keypt mína síðustu Bubbaplötu og það breytir svo sem ekki miklu því það er nokkuð langt síðan það gerðist. Sjálfhverft lið má vera í friði í sinni sjálfhverfu.
laugardagur, febrúar 16, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já það var frábært að sjá þig Gunnlaugur, verst að þú mistir af því þegar ég fjallaði um Cliff Young, en ég er búinn að bæta úr því núna á síðunni minni:-)
Skrifa ummæli