Ég er hættur að skila hvaða sess þessi svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna hafa skapað sér. Ég er ekki einn um þessa skoðun. Þarna eru einn eða tveir menn sem rekja mjög harðsvíraða hagsmunabaráttu fyrir eigin skinn. Það er allt í lagi og mjög eðlilegt að gera það en það er ekki jafn sjálfgefið að fjölmiðlafólk kokgleypi allt hrátt sem frá þeim kemur. Það er ekki nóg að það sé fullyrt út og suður um stöðu gengistryggðra lána og að það hafi engin áhrif fyrir skattgreiðendur enda þótt gengistryggð lán verði afskrifuð að miklu leyti heldur er einnig ráðist á fyrrverandi forstöðukonu ráðgjafastofu heimilanna og núverandi umboðsmann skuldara með dylgjum og rógburði. Sagt er að "Nokkur hópur fólks" hafði komið að tali við Hagsmunasamtök heimilanna að sögn þeirra og lýst yfir óánægju sinni með störf forstöðumannsins fyrrverandi. Engin dæmi voru nefnd, enginn kom fram undir nafni og ekkert tiltekið um hvað betur hefði mátt fara. Ef þetta er ekki persónulegur rógburður þá veit ég ekki hvar hann er að finna. Ég er mest hissa að fjölmiðlaliðið skuli birta svona lagað ótuggið og eins og það kom fyrir af skepnunni. Fjölmiðlafólk með sjálfsvirðingu hefði hent þessu beint í ruslið.
Ég man í þessu sambandi eftir atviki sem kom upp fyrir um tuttugu árum rúmum þegar ég sat í stjórn ákveðinna samtaka. Ósætti kom upp milli stjórnarformanns og starfandi framkvæmdastjóra annars vegar og eins stjórnarmanns hins vegar. Það jókst stig af stigi og varð mjög hatrammt. Það var ekki þyngra pundið í stjórnarmanninum en svo að hann lagði fram kæru á stjórnarformanninn til lögreglunnar þar sem hann var sakaður um fjárdrátt. Síðan var rúnturinn tekinn á alla fjölmiðla þar sem dreift var fréttatilkynningu um að stjórnarformaðurinn hefði verið kærður fyrir fjárdrátt. Það átti að níða æruna af honum í gegnum fjölmiðlana áður en lögreglan hefði haft möguleika á að skoða málið. Fjölmiðlafólk þess tíma var svo burðugt að það hentu allri þessum pappír í körfuna og lögreglan vísaði málinu frá við fyrstu skoðun. Í stað þess að æran hafði verið reitt af stjórnarformanninum sat stjórnarmaðurinn óheiðarlegi uppi með skömm og svívirðu fyrir framkomu sína í hugum allra sem málið þekktu. Nú er rógburði dreift athugasemdalaust að því virðist.
Í gær var kertafleyting á Tjörninni í minningu fjöldamorðanna í Nagasaki og Hirosima. Það eru liðin hátt í tuttugu ár síðan ég var síðast viðstaddur þennan atburð og geri ekki ráð fyrir að vera nærstaddur kertafleytinguna nokkurn tíma aftur. Það er gömul saga og ný að almenningur í stríðshrjáðum löndum fer alltaf verst út úr stríðsátökum. Sama hvaða land það er. Það var til dæmis sýnd mynd í sjónvarpinu í vetur þar sem því var lýst hvernig japanir fóru með íbúa kínverskrar borgar í seinni heimsstyrjöldinni. Mig minnir að það sé talið að þeir hafi drepið um 200 þúsund einstaklinga á meðan á hernáminu stóð fyrir utan allt annað. Það var ekki sérstaklega upplífgandi að sjá aldraða japanska hermenn lýsa því hálfglottandi hvernig þeir stóðu að hópnauðgunum á kínverskum stelpum á hernámstímanum. Það er engum kertum fleytt fyrir þetta fólk. Það er erfitt að segja til um hve margir tugir milljóna saklauss fólks hefur látið lífið vegna ógnarstjórnar kommúnista víða um heim. Ógnarstjórn Pol Pots í Kambódíu lét drepa um 2/5 hluta þjóðarinnar. Þar átti að innfæra kommúnismann tæran og hreinan eftir bókinni. Stalín lét drepa milljónir á milljónir ofan í stjórnartíð sinni. Það er hins vegar ekki fleytt kertum fyrir fórnarlömb Pol Pots eða önnur fórnarlömb kommúnismans. Það skiptir mig ekki máli þótt fólk komi saman og fleyti kertum ef því langar til þess. Mér finnst hins vegar skipta töluverðu máli að það sé horft á alla myndina en ekki einungis agnarlítinn hluta hennar.
Ég er farinn að hlaupa aftur á morgnana. Það er mjög gott. Júlí var heldur tíðindalítill enda ágætt að hvíla sig af og til. Nú er allt að fara í samt far aftur.
Fréttin í kvöld frá Djúpavogi um fóðurkálið sem óx upp af ætluðu grasfræi var smá fyndin. Á þeim tíma sem ég þekkti til í landbúnaði þá villtist enginn bóndi á grasfræi og fóðurkálsfræi. Grasfræ er aflangt og fislétt en fóðurkálsfræ var eins og hnöttóttar smákúlur. Á hinn bóginn afgreiddu fræsölufyrirtækin stundum sumarrepju í staðinn fyrir vetrarrepju. Þá sátu bændur uppi með fagurgula akra sem gáfu ekki sérstakt fóður.
þriðjudagur, ágúst 10, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Svona samtök eru varhugaverð. Ég gekk svo langt með alla vega ein samtök í fréttastjóratíð minni að ég bannaði blaðamönnum að skrifa fleiri fréttir upp úr viðtölum við formanninn eða leita álits formannsins fyrr en þeir hefðu sannreynt að það væru alla vega tvær manneskjur í samtökunum, formaðurinn og einn að auki. Eftir það birtust ekki fleiri fréttir þar sem þessi samtök komu við sögu.
Einhvern tíma átti að breyta lögum eða reglugerðum þannig að taka þyrfti allar myndir í passa á lögreglustöðum. Þá urðu ýmsir ljósmyndarar sárir og einhver talsmaður þeirra, sem ég man ekki hver var, talaði um að ekki aðeins yrðu ljósmyndarar fyrir miklu tekjutapi heldur ætluðu einhverjir að hætta af þessum sökum. Ég lét athuga þetta og fá dæmi. Eftir mikið japl, jaml og fuður fengum við tvo nöfn. Annar kannaðist ekkert við að ætla að hætta og hinn var að ég held að hætta vegna aldurs - alla vega einhvers sem tengdist breytingunni ekki neitt.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Skrifa ummæli