Mér finnst ekkert skrítið að það skuli hafa verið kölluð til lögregla við Héraðsdóm í dag. Þegar fólk af götunni er ítrekað búið að gera tilraun til að hleypa upp réttarhaldinu yfir skrílnum sem ruddist inn í Alþingishúsið í fyrra og slasaði þar fólk meðal annars þá er brugðist við því á viðeigandi hátt. Það er æpt í fjölmiðlum að einhver hafi séð lögregluna berja í bakið á einhverjum. Það átti að vera dæmi um ruddaskap löggunnar. Sér er nú hvað. Í öllum nálægum löndum væri svona mannsöfnuður hreinsaður burt með alvöru valdi og vatnsbyssum ef öðru væri ekki til að dreifa. Að reyna að hleypa upp réttarhaldi er tilraun til að vega að réttarríkinu. Fréttamenn voru samir við sig. Í hádegisfréttunum á RUV var skrílslátunum og öskrunum útvarpað eins og það ætti eitthvað erindi til okkar hinna. Nei, ég held ekki.
Dagskrá RUV er stundum kapituli út af fyrir sig. Ég hef gaman að fara á fótboltaleiki. Engu að síður er ég orðinn svo leiður á þessu endalausa blaðri um fótbolta í sjónvarpinu að ég er hættur að hlutsta á þessa svoköluðu spekinga. Það má of mikið af öllu gera. Í íþróttafréttum ríkisútvarpsins í kvöld voru þrjár íþróttafréttir. Þær voru allar um erlenda fótboltamenn. Það var ekki minnst orði á að í kvöld fór fram heil umferð í fyrstu deildinni í fótbolta. Það er grjóthörð barátta um hvaða lið munu ganga upp um deild í haust. Mér stendur slíkt fréttaefni nær en að einhver leikmaður Man. City hafi verið leigður til Cardiff. Það væri gaman að vita hvað þessi gríðarlega umgjörð um fótboltann í sumar hefur kostað RUV. Bæði umgjörðin um HM og endalaus umfjöllun um íslandsmótið í fótbolta (efstu deild). Á sama tíma þurfa aðrar íþróttir að kaupa sig inn í dagskrá RUV s.s. eins og eina alþjóðlega frjálsíþróttamótið innanhúss sem haldið er hérlendis. Menntamálaráðherra tók þau ósköp upp á ríkisstjórnarfundi að það þyrfti að hafa útsendingar frá HM í handbolta í ólæstri dagskrá. Það dugði ekki minna. Það verður sýnt frá bikarkeppni FRÍ, sem haldin var á síðustu helgi, kl. 13:00 á laugardaginn kemur í ríkissjónvarpinu. Bikarkeppni FRÍ er önnur stærsta frjálsíþróttakeppni ársins hérlendis. Hver horfir á sjónvarp kl. 13:00 á laugardögum á sumrin á vikugamlan viðburð?
Það var athyglisverður pistill sem Gísli Kristjánsson, fréttaritari RUV í Noregi, flutti í morgunútvarpinu í morgun. Hann sagði að áhugi norðmanna fyrir fótbolta og frjálsum færi stórlega minnkandi en áhugi fyrir hinu svokallaða jaðarsporti eða ofurþrautum af ýmsu tagi færi stórlega vaxandi. Þar væru hetjurnar. Hér er slóðin: http://dagskra.ruv.is/ras2/4520934/2010/08/17/
Pistillinn byrjar þegar bendillinn er fyrir neðan "R" í Rás 2. Ég á disk með þessum Månsen sem Gísli minnist á. Þar er sýnt frá því þegar hann fer út í óbyggðir í norður Skandinavíu seint í september og heldur þar úti í eitt ár. Diskurinn er mjög skemmtilegur, merkilegt nokk.
Nú á að leggja niður þáttinn "Orð skulu standa" á Rás 1. Ég hlusta stundum á hann en veit að það er hlustað mjög mikið á hann. Það er hættulegt ef framkvæmd niðurskurðar er handahófskennd. Niðurskurður hjá stofnun eins og RUV þarf að fara eftir ákveðinni strategíu. Fyrir hverju á RUV að standa og hverju ekki. Það þarf að forgangsraða og ákveða RUV ákveðinn sess í fjölmiðlaflórunni þegar ekki er til nóg af peningum. Er ekki nóg að hafa bara eina fréttastofu fyrir útvarp og sjónvarp? Loksins var hætt sl. vetur að hafa þulur í sjónvarpinu en þann spandals hef ég hvergi séð erlendis. Hættulegast er að skera flatt niður. Þá eyðileggst allt.
Í nálægum löndum hafa stjórnvöld orðið að bregðast við þaulskipulagðri og þjóðhættulegri glæpastarfsemi með öðrum aðferðum en áður dugðu. Ísland er ekki eyland. Við verðum að vinna eftir sömu nótum og nágrannalönd okkar.
Það var flottur hópur sem lauk Ironman í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Góðar bætingar litu dagsins ljós og allmargir nýliðar voru vígðir. Trausti, Stefán V. og Ásgeir, félagar mínir úr Grænlandsferðinni, voru allir þarna meðal þátttakenda. Ásgeir þurfti þvi miður að hætta vegna vandræða með hjólið en hann var t.d. innan við klukkutíma á sundsprettinum og fyrstur íslendinga. Trausti bætti sig og Stefán V. kláraði þrautina á góðum tíma. Nú hafa nær þrjátíu manns lokið Ironman hérlendis. Þetta harmonerar allt við það sem Gísli var að segja frá Osló. Við erum bara aðeins seinna á ferðinni en frændur vorir norðmenn.
þriðjudagur, ágúst 17, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Það var mikið rætt um þetta í fyrra hér í blöðunum að fótboltinn væri orðinn númer 2 eða þrjú. Norðmenn eiga tvo fantagóða hjólamenn sem eru í fremstu röð í Tour du France og svo má ekki gleyma skíðunum.
Það er nefnilega málið Börkur. Það er fleira matur en feitt kjöt. Hér tröllríður umræða um fótbolta og golf allri íþróttaumfjöllun. Mér þykir gaman að fótbolta en það má of mikið af öllu gera. Ég sé t.d. ekki að það hafi verið minnst á það í fjölmiðlum að Karen Axelsdóttir hafi orðið 3ja á breska meistaramótinu í ólympískri þríþraut. (Það hefur þá alveg farið fram hjá mér). Ég hef þó ákveðna von um að þetta sé aðeins að breytast en það er þungur róður.
Skrifa ummæli