fimmtudagur, apríl 26, 2007

Hef verið heldur rólegur í vikunni, en ekki ætti veðrið að plaga mann. Fyrir svona fimmtán árum snjóaði oft mest á veturna upp úr miðjum apríl en það er orðið breytt eins og margt fleira. Spáin fyrr helgina er góð, vægast sagt. Það minnir mann á Þingvallavatnshlaupið. Það á samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma að vera nú á laugardaginn. Ég hef hlaupið þetta hlaup þrjú síðustu árin og alltaf haft gaman af því en nú hleyp ég ekki í ár. Það væri gaman að heyra hvort einhverjir ætli að láta slag standa, það væri slæmt ef þetta ágæta félagshlaup félli niður. Veðrið verður með eindæmum gott í ár eftir spánni að dæma. Í fyrra hlupum við í skjóli við bíl Eiðs Sigmars í ausandi roki og rigningu frá þjónustumiðstöðinni og langleiðina niður á Írafossstöð. Það verður ekkislæmt að fara út í stuttbuxum a helginni.
Nú stendur til hjá Eiði að fara í 100 km hlaup í Holllandi á helginni. Þarf að hringja í hann og heyra hvernig staðan er. Hann var svolítið stressaður yfir smá meiðslum fyrir hálfum mánuði síðan. Vonandi hefur það allt gengið vel upp.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur, langar að koma með athugasemd varðandi pistil þinn um daginn. Þar kemur fram:

"Hann vitnaði í fyrsta lagi í umfjöllun Fréttablaðsins þar sem blaðið gerði úttekt á svokölluðum kosningaloforðum flokkanna og endurtók umsögn blaðsins að stjórnarflokkarnir hefðu ekki staðið við loforð sín. Nú gerði Fréttablaðið þann regin fingurbrjót í þessari umfjöllun að það setti samasem merki á milli ályktana landsfunda flokkanna og stjórnarsáttmála. Samþykktir landsfunda eru stefnumörkun en ekki sáttmálí."

Frétt Fréttablaðsins var algjörlega rétt, vegna þess að hún fjallaði um hvað flokkarnir hefðu lofað í kosningabaráttunni og síðan staðið við, en ekki hvað sett hefði verið í stjórnarsáttmála. Svo ýmsir geta fingurbrjótjarnir verið :)

Veit annars ekkert í hvaða pistil þú ert að vísa, en það gildir einu.

Kveðja Halli

Nafnlaus sagði...

Sæll Halli.

Ég gáði á Fréttablaðið til að vera viss því vissulega getur manni misminnt. Í blaðinu þann 7. apríl er sú frétt sem vitnað er í. Það stendur skýrum stöfum að það er verið að skoða landsfundarsamþykktir viðkomandi flokka. Landsfundarsamþykkt er eitt, stjórnarsáttmáli er annað. Landsfundarsamþykkt er ekki kosningaloforð, hvað þá stjórnarsáttmáli. Landsfundarsamþykkt er stefnumörkun viðkomandi flokka sem er grunnur að frekari útfærslu. Það er því út í hött að fara yfir landsfundarsamþykktir flokka og leggja þær til jafns við stjórnarsáttmála. Það skiptir ekki máli hvað viðokmandi frambjóðandi heitir sem ég var að vísa til, ég reyni að tala um principatriði en ekki einstakar persónur.
Mbk

Gulli

Nafnlaus sagði...

mmmmm.. sko, átta mig nú ekki alveg á pointinu hjá þér. Allir flokkar halda flokksþing rétt fyrir kosningar til að samþykkja stefnuskrá fyrir komandi kosningar og með þær er farið í kosningabaráttuna. Fyrir þeim er síðan talað í kosningabaráttunni. Þessar samþykktir ríkisstjórnarflokkanna voru bornar saman við efndir. Er það ekki eins á að gera þetta?

Ef ég færi í framboð og samþykkti heima hjá mér að það yrði meðvindur í öllum hlaupum og inni síðan kosningarnar, væri þá ekki eðlilegt að athugað væri að 4 árum liðnum hvort ég hefði staðið við það? Dyggði þá fyrir mig að segja að í stjórnarsáttmálanum stæði að aðeins yrði meðvindur í öðruhvoru hlaupi?

:) Halli

Nafnlaus sagði...

Það sem ég er að reyna að segja svo skiljist er að landsfundarsamþykkt er stefnuskrá viðkomandi flokka en stjórnarsáttmáli er samkomulag um að koma ákveðnum vel skilgreindum atriðum í framkvæmd á næsta kjörtímabili. Í samsteypustjórnum ná flokkar aldrei öllum stefnumiðum sínum inn í stjórnarsáttmála. Það er eðli samninga að báðir (allir) flokkar verða að gefa eitthvað eftir í stjórnarmyndunarviðræðum. Þegar lagt er mat á hve vel ríkisstjórn hafi tekist til með að uppfylla gefin loforð þá er það stjórnarsáttmálinn sem er tekinn út en ekki landsfundarsamþykktir þeirra flokka sem eiga aðild að ríkisstjórnum. Það finnst mér liggja í augum uppi því það geta aldrei allir flokkar sem eiga aðild að samsteypustjórnum náð öllu fram í stjórnarsamstarfi. Sama hvaða flokkar eiga í hlut.
G.