Heyrði dálítið sérke3nnilega fréttaskýringu í útvarpinu í dag. Það var verið að ræða um hækkandi húsaleigu í Reykjavík. Þessi þróun hefur valdið ýmsu fólki erfiðleikum, svo miklum sagði fréttamaður að fólk er farið að flytja úr Reykjavík, og heyrst hefur að tveir hafi orðið að flytja alla leið til Bolungarvíkur. Þá hlýtur ástandið að vera orðið alvarlegt. Síðan var rætt við öryrka sem er af erlendu bergi brotinn. Leigan var há og hann átti í ákveðnum erfiðleikum með að láta enda ná saman. eftir að fréttamaðurinn var búinn að velta sér upp úr aðstæðum mannsins nokkra stund spurði hann að lokum: "Og hvernig finnst þér svo kerfið vera hérna?" og átti greinilega von á fyrirlestri um hvað allt væri ómögulegt og ríkisstjóninni alfarið um að kenna. En það var ekki alveg svoleiðis. "Þetta er fínt", sagði viðmælandinn, "að vísu má laga eitt og annað smávegis en í það heila tekið er þetta bara gott". Greinilega þekkti hann til aðstæðna þar sem þær voru ekki alveg eins góðar og hérlendis enda þótt alltaf megi gera betur. Síðan var rætt við formann Öryrkjabandalagsins. Hann lagði það til málanna að stjórnvöld ættu að gera betur en nokkurs staðar hefði verið gert í heiminum og leggja það mikla peninga til málaflokksins að hreinlega væri hægt að útrýma fátæktinni. Síðan fór hann um það nokkrum orðum og klykkti út með því að segja að það væru um 10% þjóðarinnar fátæk. Ég geri ráð fyrir því að í þeim tölum sé eldri strákurinn minn sem er orðinn rúmlega 20 ára gamall og hafði minna en eina milljón króna í tekjur í fyrra. Það skiptir varla máli í því sambandi að hann stundar nám í HÍ og vann einungis í rúma tvo mánuði og hefur síðan unnið með skólanum.
Það erekki hægt að kalla þetta annað en lýðskrum að svona lagað. Gera betur en nokkursstaðar hefur verið gert í heiminum. Annað hvort vita menn ekki betur eða fara vísvitandi með rangt mál. Það er ekki hægt að útrýma fátækt. Það er svo einfalt mál.Það er hins vegar hægt að gera alla jafn fátæka með vitlausum ákvörðunum. Það er hægt að lágmarka fátækt með því að hafa öflugt atvinnulíf þar sem atvinnuleysi er lítið eins og það er til dæmis hérlendis. Auðvitað má alltaf bæta ríkjandi kerfi en það gilda ákveðin lögmál á atvinnumarkaði. Ef örorkubætur hækka töluvert umfram lágmarkslaun þá mun annað tveggja gerast, þrýstingur á að fara yfir á örorkubætur mun aukast gríðarlega eða krafa um að lágmarkslaun hækki upp fyrir örorkubæturnar fara vaxandi. Annar áþekkur frasi er að það eigi að útrýma lægstu laununum. Það er eins líklegt að það takist eins og að hægt sé að klippa vinstri endann alveg burt af einhverjum bandspotta. Ef lægstu launin hækka upp fyrir þau laun sem eru skilgreind sem næstlægstu launin þá kemur eðlilega fram krafa um að þau laun hækki upp fyrir þau sem voru áður lægstu launin og svo koll af kolli. Aukið peningamagn í umferð án þess að framleiðniaukning hafi átt sér stað þýðir aðein eitt, verðfall krónunnar og aukna verðbólgu. Það mun síðan éta upp þann kaupmáttarauka sem þeir fengu sem fengu fyrstu hækkunina og hringekjan er farin af stað. Bein ávísun á óðaverðbólgu. Þetta eru hin einföldu sannindi. Mér finnst það ekki fallegur leikur að fullyrða hluti í fjölmiðlum sem menn eiga að vita að eru ómögulegir en einhverjir þeirra sem á hlýða vita ekki annað en að þarna sé farið með rétt mál.
föstudagur, mars 30, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli