Var að tala við Eið. Hann var á leið heim á hótel í lest eftir hlaupið í Amsterdam þar sem hann kláraði 100 km með sóma. Það var hlaupið á braut sem var 1.8 km löng, eingöngu malarstígar. Það var mjög heitt um miðbik dagsins eða frá kl. 12.00 til um. 16.00. Þá fór hitinn vel yfir 25 oC. Í kringum 60 km sagðist hann hafa verið mjög dasaður vegna hitans og hugsað stíft um að hætta við en þrælaðist áfram. Þegar sól fór að lækka á lofti fór hins vegar allt að ganga betur og síðustu 10 - 15 km voru bestir. Hann var mjög kátur og vel á sig kominn að hlaupi loknu og sagðist vel hafa getað haldið áfram. Hann lét að öllu öðru leyti en hitanum vel af aðstæðum og sagðist vel geta hugsað sér að fara þangað aftur í svona hlaup. Tími Eiðs var í kringum 13 klst. Hlaupið var fámennt, 10 fóru af stað og sjö komu í mark.
Það væri kannski umhugsunarvert að halda 100 km hlaup á svona hring hérlendis. Best væri að hafa hann heldur sléttari en hringinn við Nauthól. Þetta er svo einfalt, bara ein drykkjarstöð þar sem allt er til staðar.
Hitti Jóa í Fossvoginum í morgun. Fórum hefðbundna leið út á Eiðistorg og síðan til baka gegnum Laugar. 20 km. Mættum Jörundi á Ægissíðunni og hann sneri við til að halda okkur selskap. Jörundur var nýbúinn að klára London maraþon í miklum hita. Hann sagðist hafa skokkað alla leið fram að 35 km. Þá hætti hann að komast áfram fyrir gangandi fólki. Tókum uppbyggjandi umræðu í Lækjargötunni um brunarústirnar og hvernig hús ætti að byggja á lóðinni. Vorum ekki sammála.
Ég sat eitt ár í stjórn SÍNE með tveimur öðrum. Á þessum árum voru nokkur átök milli námsmanna í USA og námsmanna á Norðurlöndum. Ég og formaður SÍNE þetta tímabil vorum Norðurlandanámsmenn en sá þriðji var USA námsmaður. Einhverra hluta vegna æxluðust mál þannig að það byggðist upp stigvaxandi óvinátta milli formannsins og þriðja stjórnarmannsins sem endaði í mikilli heift af hálfu USA fulltrúans út í formanninn. Lauk svo að sá fór með kæru til ríkislögreglustjóra og kærði formanninn fyrir óvandaða meðferð fjármuna. Í sömu ferð fór viðkomandi á allar fréttastofur fjölmiðla með fréttatilkynningu um að formaður SÍNE hefði verið kærður fyrir fjárdrátt. Afdrif kærunnar urðu þau að henni var vísað frá sem ómálaefnalegri og órökstuddri og afdrif fréttatilkynninganna voru þau að þær enduðu allar í ruslafötum viðkomandi fréttastofa. Markmiðið með kærunni var ekki að fá formanninn sakfelldan fyrir fjárdrátt heldur að rýja hann ærunni með fréttaflutningi um að hann hefði verið kærður fyrir fjárdrátt. Let the bastard deny it. Fjölmiðlum þess tíma til mikils hróss sáu þeir í gegnum svo svivirðilega fyrirætlan og bitu ekki á agnið.
Mér datt þessi gamla minning í hug þegar ég horfði á kastljósið frá því í gærkvöldi þar sem Helgi Seljan ætlaði að þjarma að Jónínu Bjartmars fyrir meinta misbeitingu á aðstöðu sinni en varð sér heldur betur til skammar, sjálfur stjörnufréttamaðurinn svokallaði. Hann hafði ekkert til að þjarma að Jónínu með, komst ekkert áleiðis gegn málefnalegum svörum hennar en reyndi á mjög átakanlegan hátt að ná undirtökunum með ruddalegu frammígjammi en án árangurs. Þegar ég horfði á þáttinn á netinu í morgun var hann þar í heilu lagi en mér var sagt í dag að fyrst þegar hann var settur á netið var síðasti hlutinn ekki með eða sá þar sem getuleysi Helga í þættinum opinberaðist hvað best. Jónína átti ekkert erindi í svona þátt. Ef einhver átti að vera þar var það formaður allsherjarnefndar Alþingis. Hann er ábyrgur fyrir störfum nefndarinnar. Það eina sem hann hafði á Jónínu var að hún hefði bent stúlkunni á þennan möguleika. Hver hefði ekki gert það í sömu sporum?
Ég var á fundi í dag þar sem mjög flokkspólitískt fólk var saman komið. Þar var fólk úr öllum flokkum. Þegar þetta mál barst í tal sat ég lengst af og hlustaði. Það voru allir sammála um að Helgi hefði orðið sér til skammar í þessum þætti. Það er síðan svolítið einkennilegt að hann sjálfur "stjörnufréttamaðurinn" skuli ekki hafa áttað sig á því að það er ekki sérstaklega heppilegt að hann vinni svona fréttir sem fyrrverandi kosningastjóri stjórnmálaflokks þar sem reynt er að taka ráðherra úr öðrum flokki pólitískt af lífi. Það eykur ekki trúverðugleika umfjöllunarinnar. RÚV var mikið niðri fyrir í þessu máli, líklega jafn mikið og þegar fréttastjóri á Stöð 2 stóð fyrir utan stjórnarráðið, veifandi dókumentum og sakaði forsætisráðherra um lygar. Fréttamaðurinn hafði hins vegar klikkað á því að muna eftir tímamismun milli USA og Íslands. RÚV hefur þegar fellt dóm í málinu því undir Kastljósi á fimmtudaginn stendur "Óeðlilega veittur ríkisborgararéttur" Dómur hefur verið felldur af hálfu RÚV.
sunnudagur, apríl 29, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Til hamingju Eiður. Þetta var flott hjá þér ekki síst í þessum aðstæðum.
Sæll Gunnlaugur.. verðum að fá botn í þetta :-)
Þú skautar framhjá því sem ég segi í mínum kommentum efnislega. Finnst þér óeðlilegt að bera saman kosningaloforðin og efndirnar 4 árum síðar? Það var það sem blaðamaðurinn gerði.
*******
Horfði í tvígang á Kastljós þáttinn frá því á föstudaginn í gærkvöldi. Ég verð nú bara að segja að mér finnst svolítið langt gengið að segja að hann hafi með „ruddalegu frammígjammi reynt að ná undirtökunum“. Mér finnst miklu frekar hægt að saka Helga Seljan um að hafa látið viðmælanda sinn algjörlega stjórna umræðunni með endalausu eintali. Ég ætla ekki að ásaka Jónínu um neitt, hún hafði sinn málstað að verja og gerði það með sínum hætti, eins og henni fannst árangursríkast. Með því að neita að svara og með því að ráðast endurtekið á Helga, eins og hann sæti fyrir svörum.
Hann náði að bera fram 3 spurningar í þættinum. Hvað var sérstakt við umsókn stúlkunnar – ekkert svar. Aðstoðaðir þú stúlkuna við umsóknina – já bara eins hvern annan af götunni (hún hlýtur að hafa sett umsóknina saman fyrir hana, annað væri stórkostlega undarlegt). Er óeðlilegt að þú sért spurð út í þetta mál – ekkert svar.
Það er síðan skandall ef allsherjarnefnd kemst upp með að svara eins og þau hafa gert. Annaðhvort hafa þau sýnt af sér ótrúlega slaka fagmennsku eða tala gegn sér betri vitund – veit ekki hvort er betra. Það getur ekki verið neitt leyndarmál hvernig komist var að niðurstöðu í málinu, en dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu ef þau komast upp með að skýla sér á bakvið „tjáum okkur ekki um einstök mál“.
*********
Glæsilegt hjá Eiði Húsvíking, vona að Húsvíkingar fari að gefa afrekum hans gaum og jafnvel tilnefna hann Íþróttamann Húsavíkur, fáir væru betur af því komnir en hann.
Kveðja Halli
Sæl Halli
Mér fannst Helgi hafa tekið rangan viðmælenda í þáttinn. Einnig fannst mér (og mörgum öðrum) hann fara offari í tilraunum til að slá viðmælendann út af laginu. Að mínu mati átti Jónína ekkert erindi í svona yfirheyrslu. Vitaskuld benti hún væntanlegri tengdadóttur sinni á þennan möguleika, skárra hefði að nú verið. Það voru hins vegar allt aðrir sem komu að því borði hvað varðar ákvarðanatöku og við þá á að tala en mönnum finnst þetta mál eitthvað dúbíus. Ég verð síðan að segja að ég er ekki alveg dús við að það þykji eitthvað sjálfsagt að íþróttamenn séu afgreiddir á einhverri harðbraut fram hjá öðrum umsækjendum, bara ef menn halda að þeir geti flikkað upp á viðkomandi landslið. Síðan eru þeir yfirleitt horfnir niður til Evrópu tilannarra liða.
Tek undir orð þín um Eið. Hann er svona grand old man í þessum kredsum og frumherji í ultrahlaupum. Virkilega gaman að hann skuli vera orðinn formlegur félagi í 100 km félaginu. Hvenær er von á þér??
Skrifa ummæli