miðvikudagur, maí 23, 2007

Formaður Framsóknarflokksins sagði af sér í dag. Í sjálfu sér eðlileg ákvörðun í þeirri stöðu sem hann var í. Svona í forbífarten er varla hægt að segja að hann hafi rætt þessa ákvörðun sína í hópi trúnaðarmanna fyrirfram. Trúnaðarmennirnir voru nú ekki meiri trúnaðarmenn en svo að einhvern þeirra hljóp með þetta spjall beint í fjölmiðla. Það hlýtur að vera hreint óþolandi staða fyrir hvaða forystumann sem er að geta ekki rætt viðkvæm mál án þess að sjá þau komin í fjölmiðla um leið og dyrnar lokast á eftir mönnum út af fundinum.
Jón tók líklega við verra búi en hann hafði getað ímyndað sér fyrirfram þegar hann tók að sér formennsku í flokknum. Hann hafði því ekki mörg spil á hendi þegar gengið var til kosninga.

Brotið sverð og rofinn skjöld, sundraða hjörð og syndagjöld.

Ég hef minnst á það á samkomum Framsóknar að það sé mikil hætta á að óbreyttu að hann hljóti sömu örlög og Centern í Svíþjóð. Fyrir um 30 árum var Centern forystuflokkur í sænskum stjórnmálum með 25% fylgi. Nú lafir hann í 5 - 7% og virðist hafa skapað sér þau örlög að vera smáflokkur sem á mest fylgi á landsbyggðinni. Flokkur sem nær ekki fótfestu þar sem 60 % búanna búa verður aldrei sterkur. Það er ekki flóknara. Til að höfða til fólks verður flokkur að skapa sér sérstöðu, jákvæða sérstöðu en ekki neikvæða. Hann verður að hafa skýra stefnu, vita hvert hann vill fara. Að síðustu þarf hann á að halda öflugum formanni sem sameinar hjörðina en sundrar henni ekki. Það hefði verið gott að hafa Jón sem formann áfram þannig að hann hefði fengið alvörutækifæri til að efla flokkinn en svona er þetta.

Hjólaði 25 km í dag. Fínn túr.

Engin ummæli: