mánudagur, maí 14, 2007

Kosningar eru búnar og nú hefst seinni kapítulinn sem er stjórnarmyndun. Eins og spilin lögðust þá er ekkert klárt hvað kemur út úr þeim kapli.

Var ásamt fleirum að telja í Hagaskólanum á laugardaginn og fram á nótt. Þetta er í annað sinn sem ég er að telja og það er heldur skemmtilegt. Þetta gekk rífandi vel enda skipulag allt með ágætum og fólkið vann af dugnaði. Það sem helst kom til kasta fulltrúa flokkanna var að úrskurða um vafaatkvæði. Það má segja að það hafi svifið jákvæður andi yfir því vatni og öll atkvæði úrskurðuð gild sem mögulegt var en ákveðnar reglur gilda um hvað má setja á kjörseðil.

Ég vakti fram til kl. 3.00 um nóttina og vaknaði síðan nægilega snemma til að sjá síðustu tölur lesnar upp úr NV kjördæmi. Eins og kerfið er hjá okkur þá má litlu muna hvar síðustu jöfnunarþingmenn lenda og í raun getur það oltið á einu atkvæði.

Forsíða Fréttablaðsins orðaði heldur sérkenninlega á mann á sunnudagsmorguninn. Stjórnin fallin þegar maður var nýbúinn að hlusta á fréttir þess efnis að hún hefði haldið velli. Um miðnættið lá fyrir að það ríkti mikil óvissa um hvort stjórnin héldi velli eða hvort hún félli að það var út í hött að lesa það út úr stöðunni sem hægt væri að byggja svona fyrirsögn á. Það kom á daginn enda var óvissa fram á síðustu tölur. Það getur svo sem verið að einhverja hafi langað svo til að skrifa svona forsíðu að henni hafi verið skellt inn upp á von og óvon. Nú ræður forsætisráðherra aftur á móti ferðinni.Hann hefur flest bestu spilin í hendi sér og veit þar að auki hvaða spil aðrir hafa. Það getur ekki verið betra.

Það ar magnað að fylgjast með Man Utd og West Han í gær. Það er ekki heglum hent að sækja stig á Old Trafford en það gerðu Hamrarnir í gær með mikilli baráttu. Líklega eina liðið sem tekur sex stig af MU í vetur. Trúi að Eggert sé glaður.

Víkingar spiluðu við HK í gær og lauk leiknum með jafntefli. Baráttuleikur sem bæði lið hefðu getað unnið. Hengdi nokkrar myndir frá því í fyrra upp í Berserkjakjallaranum áður en hann var opnaður fyrir fyrsta leik. Kom vel út.

2 ummæli:

Björn Friðgeir sagði...

Myndirnar í kjallaranum koma frábærlega út! Takk kærlega

Nafnlaus sagði...

Myndirnar setja sterkan svip á kjallaran. Virkilega flott hjá þér.