föstudagur, maí 25, 2007

Heyrði í fréttum nýlega að það voru birtar niðurstöður könnunar frá hinu virta rannsóknasetri í jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Háskólinn á Bifröst hefur helst getið sér orð í jafnréttisumræðunni þegar fyrrverandi rekstor skólans upplýsti þjóðina á sínum tíma um það að kvennemendur frá skólanum væru einungis hálfdrættingar í launum miðað við karlnemendur frá honum eftir að út á atvinnumarkaðinn var komið. Að mínu viti segir þessi fullyrðing meir um skólastarfið en samfélagið en svo kom reyndar í ljós að fullyrðing rektorsins byggði á einhverri könnun sem var meir og minna bull, en niðurstöðurnar þóttu falla að ákveðinni umræðu og því voru þær látnar flakka.
Nú hafa vísindamenn við rannsóknastofnunina á Bifröst setið yfir ársreikningum 100 stærstu fyrirtækja landsins og talið karla og konur í stjórnum þessara fyrirtækja. Niðurstaðan var að hlutfall kvenna í stjórnum þessara fyrirtækja var miklu lægra en hlutfall þeirra af þjóðinni. Þetta fellur vel að kenningum ýmissa róttækra feminista sem sjá fyrir sér alheimssamsæri karla við að kúga konur. Þeim er til dæmis ekki hleypt í neimum mæli að stjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins. Hjá þessum fyrirtækjum gildir reyndar sú einfalda regla gildir að eigendur fyrirtækjanna skipa í stjórnir þeirra. Þeir velja væntanlega þá sem þeir vilja helst starfa með og telja að standi best vörð um hagsmuni sína.

Þessi niðurstaða vísindamannanna vekur hjá mér allt aðrar spurningar. Hvers vegna eru fleiri karlar í fyrirtækjarekstri en konur? Hafa konur til dæmis ekki eins mikinn áhuga á rekstri fyrirtækja eins og karlar? Eru konur ekki eins áhættusæknar og karlar? Kjósa konur störf þar sem skipulag starfstímans er vitað fyrirfram en ekki eins óreglulegt og við rekstur fyrirtækja. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að þetta séu álitnar valid spurningar í huga þeirra sem eru sífellt að henda sprekum á þann eld sem kyndir undir þeirri umræðu í samfélaginu að konur séu kúgaðar af körlum.

Síðan getur maður farið að spyrja sig spurninga hvaða gagn það gerir samfélaginu að fjöldi mannvikna fer í að liggja yfir ársreikningum fyrirtækja og telja út kynjahlutföllin sí stjórnum þeirra. Af því að ég aðhyllist jafnrétti og jafnstöðu kynjanna í samfélaginu þá held ég að að gerði samfélaginu meira gagn að það yrði lagst yfir það hvers vegna sjálfsmorðstíðni er miklu hærri hjá ungum strákum en ungum stúlkum? Af hverju detta hlutfallslega miklu fleiri strákar út úr skólum en stúlkur? Ég tel eðlilegt að reynt sé að ná jafnstöðu kynjanna á þessum sviðum með því að greina og komast fyrir þann vanda sem leiðir til þess að lífið sé svo erfitt hjá ákveðnum hluta ungra stráka að það hafi fyrrgreindar afleiðingar.

Það fellur hins vegar betur að þjóðfélagsumræðunni eins og hún er í dag að einhverjir dundi sér við að telja út hlutfall kynjanna í fyrirtækjum. Síðan er á næsta ári hægt að telja aftur og setja þá upp línurit um þær breytingar sem hafa orðið í nefndum hlutföllum. Árið þar á eftir er hægt að lengja línuritið um enn einn punkt og sv koll af kolli. Framtíðin er tryggð.

Er að fara til Spánar síðar í dag með hóp af strákum úr Víking sem ætla að taka þátt í handboltamóti yfir hvítasunnuna í litlum bæ skammt frá Barcelona. Þetta er vikuferð og eftir mótið verður hægt að túrista svolítið. Verður vafalaust skemmtilegt.

Engin ummæli: