Borgaryfirvöld hafa tekið ákvörðun um að láta rífa tvö hús sem standa á Laugavegi 4 og 6. Umræðan sem hefur sprottið upp í kjölfar þess er dálítið dæmigerð fyrir svona mál. Enginn talar um þessi hús á meðan þau malla áfram í tilverunni og grotna hægt og sígandi niður með tilheyrandi klastursviðhaldi. Það er lagt eins lítið og hægt er í viðhald þeirra því þau eru ónýt og best að hreyfa við sem minnstu. Það er erfitt að finna einhverja starfsemi sem hægt er að hafa í þeim því þau eru bæði lítil og óhentug til flestra hluta. Ekkert er í þeim sem minnir á einhverja sögu. En um leið og á að rífa þau sem er eðlilegur endapunktur í þróuninni þá rís allskonar fólk upp og hefur um það mörg og stór orð hvað þessi hús séu miklir gimsteinar og ómissandi í samfélagssögunni. Í augum flestra nema einhverra örfárra eru þessi hús leiðir og ljótir húsaræflar sem hafa gegnt sínu hlutverki og eiga að víkja fyrir öðru nýrra og burðugra húsnæði. Ég get verið sammála þeim sjónarmiðum að það er ekki rétt að reisa einhver stórhýsi í þeirra stað sem myndu skera sig úr götumyndinni nema að eigi að hreinsa almennilega til. Mér hefur t.d. alltaf fundist ráðhúsið passa illa í götumynd Tjarnargötunnar.
Það getur verið allt í lagi að friða hús sem eiga sér merka sögu. En þá verður að tengja húsið og söguna á einhvern þann hátt að úr því náist samfella. Það má t.d. minna á Nonnahúsið á Akureyri og Sigurhæðir. Þar er sagan samofin byggingunni og úr því verður ein samhangandi heild. Hvers virði væri Nonnahúsið í augum almennings ef í því væri ísbúð og súlustaður á Sigurhæðum?
Vitaskuld hefur eitthvað gerst í flestum gömlum húsum. Það er hins vegar mismerkilegt. Menn verða að hafa kjark til að velja og hafna í þeim efnum. Það á ekki að friða hús einvörðungu vegna þess að fjalirnar í þeim séu komnar yfir einhvar ákveðinn aldur heldur vegna þess að það sé einhvers virði að vernda húsið og þá verður einnig að sinna þeim almennilega.
Ég sé að menntaráð Reykjavíkur er að skerpa á agareglum í grunnskólum borgarinnar og setja upp ákveðið regluverk sem tekur á málum þegar nemendur haga sér á þann veg að þeir eru ekki hæfir í skólum með venjulegum krökkum. Skólastjórnendur og nemendur hafa oft verið settir í nokkursskonar herkví vegna þess að úrræði hefur skort til að taka á málum þeirra sem hafa hagað sér eins og vitleysingar. Ef skólastjórnendur fara út af sporinu í viðbrögðum þá er mætt með lögfræðing á staðinn. Sá í Mogganum frásögn frá Bretlandi þar sem skólastjórinn rak alla heim sem höguðu sér illa í skólanum og tók þá ekki til baka fyrr en þeir fóru að haga sér eins og menn. Það kom á daginn að árangur þeirra sem vildu læra stórbatnaði og allt skóla- og foreldrastarf tók miklum framförum. Staða þeirra sem vilja læra en geta það ekki vegna þeirra sem valada óróa og vandræðum vill nefnilega yfirleitt gleymast. Að mínu mati á réttur þeirra að vera hærra metinn en réttur þeirra sem trufla aðra og valda vandræðum í skólunum. Vitaskuld er það yfirleitt mikill minnihluti sem veldur vandræðum en hann tekur gríðarlegan tíma og orku sem yfirleitt væri betur nýtt á öðrum sviðum.
Í þessu sambandi má einnig huga að skipulagi skólastarfsins s.s. samspili kennslu og frímínútna. Ég minnist þess að mér blöskraði fyrir nokkrum árum þegar ég fór að skoða stundatöflu dóttur minnar og sá hvað krakkarnir fengu lítinn útivistartíma en þurftu yfirleitt að sitja 80 mínútur í kennslu. Enda þótt sagt sé að börnin standi upp og fái að hreyfa sig innandyra í þessum löngu kennsluskeiðum þá þýðir það bara að það er verið aðdulbúa frímínútur og taka þær af kennslutímanum. Það er í eðli barna að hreyfa sig og allir sem þekkja útiveru vita hvað hún frískar upp hugann. Finnar, sem alltaf er verið að vitna til hvað varðar góðan árangur í skólamálum, sögðu hreinlega að svona fyrirkomulag yrði hreinlega bannað þar í landi. Þeir nota enn gamla kerfið í samspili kennslu og frímínútna, kennsla í 45 mínútur og frímínútur í 15 mínútur nema þegar um er að ræða smíði, matreiðslu eða álíka greinar.
föstudagur, ágúst 24, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli