þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Komum frá Höfn í gærkvöldi. Það var fínt á Hornafirði um helgina. Maður var undir það búinn að það myndi rigna eldi og brennisteini svo allir voru vel birgir af regngöllum en það fór svo að þeir láu lá kyrrir í umbúðunum alla helgina. Við keyrðum austur á fimmtudaginn í blíðu veðri eins og það getur best verið. Stoppuðum við Skógafoss, Klaustur, Dverghamra og Jökulsárlónið því okkur lá ekkert á. Tjölduðum í góðviðri á Höfn um kvöldið. Um nóttina rigndi svolítið en það varð ekki meir úr því. Nágrannar okkar komu austur á föstudagsmorgun og keyrðu í gegnum hvert óveðrabeltið á fætur öðru og hið síðasta við brýrnar yfir Hornafjarðarfljótið. Niðri í bænum var hins vegar hið besta veður svo allar óveðraspár fóru fyrir ofan garð og neðan. Ágætis veður var síðan á laugardag og sunnudag, dálítill blástur en annars í lagi svo allt fór hið besta fram. Hornfirðingar stóðu að mótinu með miklum ágætum og verða ný og glæsileg mannvirki vonandi lyftistöng fyrir íþróttalíf í þorpinu. Það er þó ekki sjálfgefið og sagði kunningi minn úr Borgarfirðinum t.d. að það væri enginn þátttakandi frá Borgarnesi þrátt fyrir hin glæsilegu íþróttamannvirki sem byggð voru fyrir landsmót UMFÍ sem haldið var þar árið 1998.
María stóð sig vel eins og hennar er von og vísa svo og tvíburarnir við hliðina á okkur og var mikil ánægja með að allar komust á verðlaunapall um helgina. Svona mót eru einnig nokkurssonar kunningjasamkomur því maður er farinn að þekkja marga foreldra sem hafa verði manni samtíða á hliðarlínunni árum saman og er gaman að sjá hvað stelpunum fer fram sem voru litlar píslir fyrir ekki svo mörgum árum.

Andinn á mótinu var þannig að það var ekki á betra kosið, hvort sem var á hefðbundinni dagskrá eða á tjaldstæðum á kvöldin.

Umferðin í bæinn var róleg í gærkvöldi og er að sjá að þessi helgi er ekki lengur nein afgerandi ferðahelgi ársins. Líklega verður þróunin sú að það hættir allt þjóðlífið að snúast um þessa helgi frekar en aðrar. Það er til dæmis með ólíkindum að íslandsmótinu í knattspyrnu skuli slegið á frest vegna verslunarmannahelgarinnar. ´Það er slæmt fyrir þá að missa dampinn svo langan tíma sem raun ber vitni því það verður til þess að los kemst á liðið. Það er liðin tið að borgin tæmist af fólki um þessa helgi.

Mér finnst virðingarvert af bæjarstjórn Akureyrar að reyna að koma böndum á það ófremdarástand sem ríkt hefur í bænum undanfarin ár um þessa helgi þegar stjórnlaus lýður hélt bæjarbúum í herkví. Fólk þorði jafnvel ekki úr bænum því það þurfti að verja eigur sínar. Ég verð að segja það að eins og ástandið var á Akureyri um verslunarmannahelgina undanfarin ár þá var það sá staður sem maður vildi síst af öllu að krakkarnir manns dveldu þessa helgi. Veðurguðirnir gengu einnig í lið með bæjaryfirvöldum svo allt varð miklu dempaðra en undanfarin ár. Sjoppueigendur eru vafalaust fúlir en hverjir eiga að stjórna ferðinni í svona málum, yfirvöld sem bera hina endanlegu ábyrgð eða þeir sem sjá tækifæri um aukin viðskipti felast í ástandinu. Vitaskuld er það eins og alltaf að það er minnihlutinn sem hagar sér illa en þegar hópurinn er stór þá getur minnihlutinn verið ansi fjölmennur og lýst sér í uppivöðslusömum skríl sem ber ekki virðingu fyrir einu eða neinu eins og hefur verið á Akureyri. Hornfirðingar sögðu mér að það væri nokkur umræða í samfélaginu um hvort Humarhátíðin ætti lengur rétt á sér. Það er fyrst og fremst vegna utanaðkomandi lýðs sem flykkist inn í samfélagið á svona bæjarhátíðir og er öllum til vandræða og leiðinda. Ólafsvíkingar felldu niður færeyska daga í sumar af sömu ástæðu. Því finnst mér viðleitni bæjarstjórnar Akureyrar virðingarverð en tuð sjoppueigenda skiptir mig litlu.

Engin ummæli: