miðvikudagur, ágúst 01, 2007

Hef verið rólegur síðan ég kom frá Grænlandi. Það tók nokkurn tíma að ná bjúgnum úr fótunum. Maður drakk svo mikið dögum saman að líkaminn hafði ekki undan að vinna það út. Nú er allt orðið eins og það á að vera. Nú tekur næsta verkefni við.

Skattskráin lögð fram í gær. Það er magnað að skattakóngur Íslands greiði yfir 400 milljónir til samfélagsins. Ég minnist þess að menn tóku andköf fyrir 7 - 8 árum að fyrirtæki skiluðu yfir 500 milljónum í hagnað á árinu, nú eru þetta orðnar skattgreiðslur einstaklinga. Það er eins og vanalega að tuðaraliðið er farið að tjá sig um að þessir menn hafi tekið til sín svo og svo mikið af samfélagsauðnum. Það er fjarri lagi að mínu mati. Verðmætaaukning fyrirtækja á verðbréfaþingi hefur vaxið sem raun ber vitni vegna þess að það hafa verið teknar fleiri réttar ákvarðanir en rangar gegnum árin og starfsvettvangur fyrirtækjanna er ekki lengur bundinn við litla Ísland heldur við alheiminn. Fjölmargir landsmenn hafa auðgast samhliða þessari þróun. Það var ekki sjálfsagt að fyrirtækin myndi fóta sig á því hála svelli en með öfluga og framsýna menn við stjórnvölinn hefur þróunin orðið sem raun ber vitni. Ég þekki vel að það var víða settur upp hundshaus á Norðulöndum þegar íslensk fyrirtæki fóru að gera sig gildandi á þarlendum mörkuðum. Nú mætir maður virðingu með dálítilli undrun í bland þegar þessi þróun ber á góma.

Maður fékk verulegan bjánahroll við að hlusta á blaðamannafundinn þegar llögreglan skýrði frá staðreyndum í hinum hörmulega atburði sem átti sér stað á sunnudaginn. Spurningar hinna svokölluðu fréttamanna voru með slíkum endemum að það var ekki hægt að hlusta á þetta til enda. Þarna var á ferðinni óskapleg trakedía og allar staðreyndir málsins lágu fyrir mjög fljótt. Sem betur fer lokaði Mogginn fyrir að lýðurinn gæti farið að tjá sig um fre´ttirnar á moggavefnum. Slíkt á alls ekki við í tilvikum sem þessum.

Ég verð að segja að auglýsingar þær sem dynja á mann í útvarpinu nú dag hver finast mér verulega móðgandi. "Ætlar þú að nauðga á helginni?" Ég get svarað því fyrir mig prívat og persónulega að það ætla ég ekki að gera ef það skyldi skipta einhverjum máli. Eftir þessu lítur öfgaliðið á alla karla sem glæpamenn þar sem þeir hafa tólin og tækin til staðar. Þarna er enginn undanskilinn. Ég ætla ekki að gera lítið úr glæpnum nauðgun, hann er viðurstyggilegur eins og fleiri slíkir. En það er í þessu tilviki eins og oftar að harla ólíklegt er að svona auglýsingar hafi áhrif á þá örfáu sem á annaðborð eru á þessum nótum. Í fyrra eða hitteðfyrra var konu nauðgað á Hróarskelduhátíðinni. Það varð gríðarlegt mál og allt fór í uppnám. Hér lendis er þess getið í smáfréttum eftir verslunarmannahelgar að nauðganir hafi verið fáar.

Hér er eitthvað í þjóðarsálinni sem er öðruvísi en það ætti að vera. Ástandið í miðbænum um helgar er dæmi um hið sama. Það er á við ástandið í verstu slömmhverfum erlendis sem venjulegt fólk lætur sér ekki detta í hug að heimsækja eftir miðnætti um helgar. Veggjakrotið og krassið á hús og mannvirki er enn eitt dæmið um hið sama. Miðbærinn er eins og úthverfisslömmur að þessu leyti. Þetta verður ekki lagað með auglýsinum sem beinast að þeims em síst skyldi. Mér þótti viðtalið við Geir Jón, hinn ágæta lögregluþjón í Kastljósi í gærkvöldi, bera vott um vanmátt lögreglunnar. Hann svaraði spurninum með hálfgerðum útúrsnúningum. Staða lögreglunnar er svo sem ekki góð. Ef þeir taka á einhverjum fíflunummog stinga þeim inn þá er lýðurinn strax kominn og farinn að takast á við lögregluna og gera henni erfitt fyrir. Síðan birtast fréttir um meint harðræði lögreglunnar.

Það er ljóst að ef viðlíka ástand væri í stórborgum erlendis þá væri tekið á því með aðgerðum sem myndu duga. Ég var í Barcelona í vor. Barcelona var þekkt fyrir vasaþjófa og smáglæpamenn. Til að komast fyrir þann vanda var lögreglu fjölgað verulega í borginni um hábjartan dag. Skilyrði fyrir því ferðamenn vilji koma til borgarinnar er að þeir séu öruggir. Ég hef hvergi hvergi kynnst því í miðborgum stórborgun erlendis að maður geti ekki gengið þar öruggur um götur og torg að næturlagi jafnt sem í dagsbirtu.

Á morgun verður lagt af stað til Hafnar í Hornafirði á unglingalandsmót UMFÍ. Það lítur út fyrir rigninu, alla vega framan af.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Velkominn heim frá Grænlandi Gunnlaugur minn og til hamingju með afrekið.

Vona að þú mætir bráðum með vinum Gullu á sunnudagsmorgni, við söknum þess að hitta þig ekki.

Bestu kveðjur,

Bryndís og Úlfar