sunnudagur, ágúst 19, 2007

Það voru skemmtilegir fyrirlestrarnir sem settir voru upp niðri í Laugum á föstudagskvöldið. Aðsóknin var fín, yfirleitt fullur salur. Greta Waits var skemmtileg á að hlýða en því miður hefur heilsan gefið eftir hjá þessari miklu íþróttakonu. Vonandi að hún nái að sigra þann slag eins og svo marga aðra sem hún hefur staðið í. Manni sundlaði þegar Kenyastrákarnir og Baldini hinn ítalski voru að lýsa æfingamagninu. Baldini sagðist hlaupa svona 250 - 300 km á viku en þeir frá Kenya voru í svona 350 - 400 km. Maður skilur ekki hvernig skrokkurinn getur þolað þetta. Á meðan Baldini sagðist svo fara af og til í tækjasal þá sögðu Kenyastrákarnir að það væri nóg "hard work at home". Ætli þeir séu í heyskapnum eða byggingarvinnu með hlaupunum? Gaman að sjá Ítalana sem þarna voru staddir þegar þeir sáu þjóðhetjuna, mikið um myndatökur, allir á mynd með Baldini. Við Grænlandsfarar vorum síðastir, þá var farið að þynnast á bekkjunum en sama er, þetta var ágætt fyrir utan smá tækniproblem en það blessaðist.

Dagurinn í gær var eins og úr pöntunarlista fyrir hlaupadag, allt eins og best gat verið. Sannkallaður hátíðisdagur. Ég fór rólega, tók hlaupið inn í æfingaprógrammið og það gekk allt upp eins og upp var lagt með. mér finnast breytingarnar á leiðinni vera til bóta. Bæði er skemmtileg tilbreyting að hlaupa niður á kæjann hjá Eimskip og eins er fínt að fara í gegnum húsdýragarðinn. Það var mjög gaman að sjá hvað fagmennskan hefur farið vaxandi við framkvæmd hlaupsins. Nú er allt eins og það á að vera. Startið eins og það á að vera, umferðargæslan fín, merkingar góðar og stemming í markinu. Ég man ekki eftir eins miklum fólksfjölda í Lækjargötunni fyrr við hlaupalok. Vafalaust helgast það af því að þátttakendum hefur fjölgað gríðarlega. Þetta er orðið alvöru. Það er mikill munur að hafa fólk í kringum sig allann tímann í hlaupinu. Hitti Ágúst félaga frá Western States á Kleppsveginum og við fylgdumst að og spjölluðum saman alla leið út í Seltjarnarneshrepp. Hann er nýfluttur heim frá Kaliforníu með sína stóru fjölskyldu. Við drykkjarstöðina á Eiðistorgi hitti ég síðan konu sem ég hafði einu sinni áður hitt eða þegar við vorum að leggja upp í Vatnsneshlaupið fyrir allnokkrum árum. Hún var að fara sitt fyrsta maraþon og það var farið að linast aðeins í dekkjunum hjá henni. Við hlupum saman frá Eiðistorginu til loka. Henni fannst þægilegra að hafa eitthvað til að dreifa huganum þegar verkir og vanlíðan voru farnir að láta á sér kræla. Hún bölvaði hraustlega þegar öklarnir voru að kvarta og lét sig hvergi. Hún hafði sett sér það mark að fara undir fjórum tímum en var á fínu róli og kláraði á rúmum 3.48. (Innskot. Sé á úrslitunum að hún hefur orðið í 5. sæti íslenskra kvenna. Það er ekki dónalegt í sínu fyrsta maraþoni). Það er síðan gaman að hitta félagana eftir hlaup og spjalla. Veðrið var fínt og stemmingin góð.
Þegar ég kom heim gerði ég smá tilraun. Ég lét renna kalt vatn í baðkar og sat í því í fimm mínútur. Þetta á að slá á bólgur ef þær eru til staðar og minnka mjólkursýruna. Síðan fór ég í heitapottinn. Þetta var fín blanda og ég mæli með henni.

Um kvöldið fórum við svo niður á Miklatún. Ég held að ég hafi ekki séð annað eins mannhaf hérlendis fyrr. Ef það voru 40 þúsund á Laugardalsvelli á föstudagskvöld eins og sagt var þá voru 100 þúsund á Miklatúninu. Reyndar segja glöggir menn að það hafi verið rúmlega 20 þúsund á Laugardalsvelli og þá slakar maður á Miklatúnstölunum að sama skapi. Tónleikarnir voru fínir. Megas toppar allt eins og áður. Kallinn er góður með fína hljómsveit, orðinn rúmlega sextugur. Ég horfði á tónleikana frá Laugardalsvellinum í sjónvarpinu að hluta til þegar Nylon var örugglega búin. Bubbi var hálfflatur með græna húfu og rauða stjörnu á hausnum. Það hefði gengið fyrir tuttugu og fimm árum en Sovétríkin eru hrunin hafi hann ekki frétt af því. Stuðmenn voru leiðinlegir fannst mér í einhverjum misheppnuðum búningum með alltof mikið af hljóðgerflum. Það hnussaði í Jóa þegar hann heyrði introlagið með þeim. Ich bin Frei. Ég er frjáls með Falcon frá Bíldudal og Jóni Kr. var fyrsta lagið sem Beautifuls æfðu hér niðri í bílskúr. Síðar þegar þeir spiluðu í Réttarholtsskóla þá töldu þeir rétt að hressa upp á lagið og settu þýska, færeyska og enska version við textann. Hann taldi auðheyrt að flugumenn Stuðmanna hafi verið staddir þarna í Réttó og stolið hugmyndinni.

Ég skil ekki hvaða rugl það hefur verið að úthýsa Daníel Smára (og kannski fleirum) frá sölubásunum í Laugum á föstudaginn þegar hlauparar voru að sækja gögn. Ég hélt að það væri markmiðið að hafa sem flesta söluaðila til að mynda stemmingu og koma til móts við þarfir hlauparanna. Stærstu sponsörarnir fá bestu staðina og stærstu básana en þeir einoka ekki svæðið. Þannig er það alla vega erlendis. Það var greinilegt að grasrótinni var ekki sama því það var mikil stemming í Síðumúlanum síðdegis á föstudaginn. Ég keypti skó þó ég þyrfti ekki akkúrat á þeim að halda í augnablikinu. Sama er, maður stendur með þeim sem hafa stutt við bakið á manni sjálfum. Daníel var manna liðlegastur við að redda hlutum okkur til hægðarauka þegar við fórum til Grænlands og það gleymist ekki.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gulli minn þú ert nú meiri karlinn ertu ekki hlaupin upp að hnjám eða lengra. Er mjög stolt af frænda
kveðja
úr sveitinni
Erla frænka

Unknown sagði...

Sæll. Reyndi að setja inn comment áðan en það mistókst, reyni hér með aftur.

Vildi bara þakka kærlega fyrir samfylgdina þessa síðustu kílómetra sem án efa gerði gæfumuninn varðandi það að koma mér skikkanlega í mark. Það stóðst allt það sem þú sagðir á leiðinni... Magnað kikk að hlaupa inn Lækjargötuna og klára maraþonið í fyrsta sinn! Sársaukinn fljótur að falla í skuggann af stoltinu yfir að hafa klárað.

Ég var ánægð með að ég var ekki mjög þreytt eftir þetta, það voru bara lappirnar sem voru hálfónýtar og héldu því áfram í gær - í dag eru þær hins vegar miklu betri. Ég bjóst við að verða miklu þreyttari en eflaust hefur gelát mikið (við hverja drykkjarstöð) gert gæfumuninn þar. Snilldaruppfinning.

Bestu þakkir og kveðjur aftur
Guðfinna Halla.

Nafnlaus sagði...

Sæl Halla og takk fyrir síðast. Gaman að þetta gekk allt vel upp og um að gera að njóta þess. Þetta verður bara upphafið á öðru meira. Rétt að hvíla nokkra daga til að gefa fótunum tíma til að jafna sig. Þeir eiga það inni eftir vel unnið verk.
Mbk
Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Auðvitað segi ég til hamingju með hlaupið, þetta er alltaf afrek, þó mörg séu orðin.

Vildi þó fyrst og fremst taka undir með um Daniel Smára. Fór sjálfur og keypti mér bara eitthvað dót, sem mig vantaði ekkert til sýna stuðning.

Kveðja Halli Haraldar