föstudagur, ágúst 17, 2007

Það verður farið rólega á morgun. Ætla að hlaupa heilt maraþon og býst við að klára það á kringum 4 klst. Þetta verður eitt skref í æfingaplaninu fram í miðjan sept. Maður verður siðan að vefja eitthvað inn í það síðar s.s. að hlaupa inn í nóttina til að byggja sig upp fyrir Grikkland.

Ungmennafélagið R36 verður með tvær sveitir í heilu þoni og möguleiki er á tveimur sveitum í hálfu. Þetta bendir á töluverða grósku í félagsstarfinu. Engu að síður hefur hefur ÍBR ekki opnað dyr sínar fyrir okkur enn en það eru nú nær þrjú og hálft ár síðan við sóttum fyrst að aðild að bandalaginu. Reyndar var sótt um aðild að UMFÍ á sama tíma en þeir bentu okkur á að einfaldara væri að sækja einungis um aðild að ÍBR. Við sem erum félagar í UMFR36 teljum okkur ekki vera minni íþróttamenn en marga aðra. Við hlaupum maraþon þegar okkur langar til. Sumir á mjög góðum tímum og eru þeir meðal fremstu manna í sínum aldursflokkum í stórhlaupum heimsins s.s. London maraþoni, Berlín og Boston. Laugavegurinn líður árlega hjá undir fótum félagsmanna sem og fleiri. Félagar í UMFR36 hlaupa 100 km hlaup í vaxandi mæli. Tveir okkar hafa hlaupið 100 mílur. Aðrar viðlíka þrekraunir hafa verið lagðar undir fót. Tveir af fjórum Ironmönnum landsins eru innan okkar raða þar af fyrsta járnkonan. Fyrsta 100 km kona Íslands er félagi í UMFR36. Verðlaun fengust í 24 tíma hlaupi í Borgundarhólmi í vor. Félagið verðlaunar sinn fremsta íþróttamann ár hvert. Félagið braut ísinn hérlendis með því að halda sex tíma hlaup sl. haust og er þannig í takt við þá þróun ultrahlaupa sem er að gerast í nágrannalöndum okkar. Útlit er fyrir verulegan fjölda í hlaupinu í haust. Lög félagsins voru samþykkt formlega á stofnfundi og hefur ekki verið gerð efnisleg athugasemd við þau. Aðalfundur er haldinn ár hvert og þar að auki félagsfundir eftir þörfum. Stjórn er til staðar og virkir félagsmenn bæði félagslega og íþróttalega eins og rakið hefur verið hér að framan. Þrátt fyrir allt þetta sem samkvæmt minni skoðun gerir okkur ekki að minni íþróttamönnum og félagsverum en marga aðra þá fær félagið ekki inngöngu í Íþróttabandalag Reykjavíkur. Maður veltir fyrir sér hvað þurfi til viðbótar framansögðu til að komast þar formlega inn fyrir dyrnar.

Pétur Helga kom til mín í gærkvöldi með myndir en við eigum að vera með rabb um Grænlandsferðina á fræðslufundi á vegum Reykjavíkurmaraþons í kvöld í Frjálsíþróttahúsinu. Hann verður haldinn milli kl. 18.00 og 21.00. Við sátum fram undir miðnætti við að gramsa í myndunum og síðan var ég að til klukkan fjögur viðað setja saman myndaseríu. Hún verður vafalaust of löng en það verður að taka með í reikninginn að það er frá miklu að segja af ævintýrum tveggja sveita á fimm dögum. Við verðum síðastir svo það verða vafalaust allir farnir að hlusta á Nylon sem verður að syngja á Laugardalsvellinum á áþekkum tíma. Ég fer ekki á konsert með Nylon en á hinn bóginn hlakka ég til að hlusta á Megas og marga aðra meistara á Klambratúninu á laugardagskvöldið.

Ég minntist nýlega á einkennilegt fréttamat sjónvarpsins í málefnum dæmdrar manneskju og viðhorfi gagnvart lögreglunni. Annað álíkaviðhorf kom fram hjá formanni hernaðarandstæðinga. Hann var að kynna fræðslugöngu um miðborgina og taldi það verða bestan bónus á gönguna ef lögreglan myndi berja göngumenn og dæla á þá táragasi. Það er bara svona. Ef það er viðhorf forsvarsmanna samtakanna sem mynduð voru úr gömlu samtökum herstöðvaandstæðinga að helsta kryddið í tilveru þeirra og félagsstarf sé að snapa fæting við lögguna og vonast jafnvel eftir því að lögreglan ráðist á þá óumbeðið þá er ég feginn því að leiðir mínar og þessara samtaka skildu fyrir allnokkrum árum.

Engin ummæli: