Tók gott hlaup með miklum fjölda af Vinum Gullu í morgun. Vegna strekkingsins tókum við skemmtilegar leiðir um allskonar króka og kima í miðbænum þar sem Úlfar leiddi hópinn. Náði að klára skammtinn áður en veður fór að versna. Losaði 20 km og hljóp síðast með Orwell. Hann er að ná sér á strik aftur eftir nokkurra mánaða hlé í sumar vegna vinnu. Hann ber sig illa undan því að hafa sett á sig 7 kíló á þessu tímabili sem erfitt er að ná af sér en það kemur svona í rólegheitunum.
Ég hef alltaf drukkið mikið á hlaupum og talið það vera sjálfsagðan hlut. Ég þyrfti bara meira að drekka en aðrir. Nú upp á síðkastið hef ég séð að það gengur miklu minna á brúsana en áður. Ég fór að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessu. Ástæðan er frekar einföld. Ég tek Herbalive hristing áður en ég fer af stað á morgnana í stað grautardisks eða skyrs eins og áður. Með Herbalifinu erfiðar maginn miklu minna en áður og það segir til sín á skrokknum. Maður svitnar minna og þarf minna að drekka. Kerfið er í betra jafnvægi. Ég fæ mér annan hristing þegar ég kem inn af hlaupunum og þetta dugar mér langt fram á dag þrátt fyrir að hafa verið í nokkurra klukkutíma áreynslu. Magnað.
Áróðurinn fyrir jafnréttislögreglufrumvarpinu heldur áfram. Í hádeginu var rætt við forstöðumann jafnréttisstofu sem fær lögreglu- og dómsvald samkvæmt frumvarpinu. Forstöðumaðurinn mælti náttúrulega með samþykkt frumvarpsins með öllum tiltækum ráðum því ef það verður samþykkt stækkar stofnunin og þenst út eins og stofnana er háttur. Allir forstöðumenn vilja verða mikilvægari og stækka stofnun þá sem þeir eru í forsvari. Forstöðumaðurinn lét þau orð falla að jafnréttisreglur væru miklu harðari í mörgum öðrum löndum. Meðal annars hefðu víða verið settar kvótareglur um kynjahlutföll í stjórnir stofnana og fyrirtækja svo sem í Noregi. Af hverju láta fréttamenn svona lagaðan sniðgöngu um sannleikann yfir sig ganga? Noregur er EINA landið í heiminum þar sem slíkar reglur hafa verið settar. Meir að segja Svíar hafa ekki treyst sér til að ganga svo langt. Af hverju er verið að reyna að telja íslendingum trú um að þessar reglur hafi verið settar víða um heim þegar það er ekki satt? Er málstaðurinn svo veikur að sannleikurinn dugar ekki til heldur þurfi að grípa til annarra meðala?
Það er alltaf jafn gaman að hlusta á Ingólf Margeirsson flytja þættina um Byltingu Bítlanna á sunnudagskvöldum. Þættirnir eru eins og frískandi sunnanvindur á góðum sumardegi. Ingólfur höndlar efnið meistaralega og síðan er músíkin eins og allir vita, alltaf jafn frábær. Það besta við þættina er að það rifjast svo mörg lög upp sem maður er jafnvel búinn að gleyma en standa þeim þekktari ekkert að baki. Sagan bak við lögin og tilurð þeirra fyllir síðan fullkomlega út í rammann.
Skrapp í dag upp í Kringlu en þar er fólk frá Newfoundland og Labrador að kynna land sitt og menningu. Þar var sölusýning á ýmsu handverki sem gaman var að skoða enda þótt maður kaupi ekki mikið. Engu að síður gaman að spjalla við fólkið. Ánægjulegt að þessar þjóðir eru farnar að leita til okkar í auknum mæli með það að markmiði að skapa aukin tengsl þjóðanna á milli. Héröðin þrjú, Newfoundland og Labrador, Prins Edward Island og Nowa Scotia eru jaðarsvæði á austurströnd Kanada. Þau misstu efnahagslegt sjálfstæði skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina og gengu þá til liðs við Kanada. Þar fækkar fólki og þau eiga á margan hátt töluvert erfitt. Ólæsi er almennt og er talið að það sé einungis um 50% íbúa á Newfoundland og Labrador sem les almennan texta sér til gagns. Það er ljóst að fólk sem ekki kann að lesa er ekki þátttakendur í nútima þróun í þjóðfélaginu. Þeir líta nokkuð hingað til lands og vilja átta sig á hvað það er sem gerir þann gríðarlega uppgang mögulegan sem hefur átt sér stað hérlendis á undanförnum árum á meðan þar ríkir kyrrstaða á ýmsan hátt. Við eigum að hafa eins gott samband við þessar þjóðir og mögulegt er og styðja við þær það sem við getum.
Ég var staddur á Newfoundland haustið 2000 þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Sidney og Vala Flosa vann bronsið. Við vorum dálítið montin af þessu afreki Völu. Heimafólki fannst yfir höfuð gríðarlega merkilegt að við, þessi örsmáa þjóð, skyldi ganga inn á Ólympíuleikana undir eigin fána og hvað þá að vinna til verðlauna. Það var fyrir utan og ofan þeirra skilning. Að sumu leyti voru þessi samfélög stödd á áþekku róli eins og við vorum fyrir nokkuð mörgum áratugum þegar Albert Guðmundsson spilaði atvinnufótbolta erlendis einn íslendinga. Einungis örfáir leikmenn frá Newfoundland höfðu þá náð svo langt að komast í lið í NHL deildinni. Það þótti gríðarlegt afrek. Okkur þykir ekki svomikið tiltökumál lengur að eiga fótboltamenn í helstu deildum Evrópu enda þótt landsliðið sökki nú um stundir. Þetta er kannski spurningin um að menn stökkva ekki lengra en þeir hugsa eins og vinnukonan sagði hér um árið.
sunnudagur, nóvember 25, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli