Fór í kvöld á tónleika í Vodafon höllinni á Hlíðarenda með Kim Larsen. Ég hef ekki komið þar inn fyrr og gefur vissulega á að líta. Þetta er langflottasta íþróttahús á Reykjavíkursvæðinu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Valmenn hafa byggt upp Hlíðarenda complett og verður aðstaðan þarna geysiflott þegar hún er öll komin í gagnið. Félagið fékk gríðarlega fjármuni eftir landssölu til borgarinnar og einnig hafa þeir verið skynsamir í því að láta peningana vinna.
Tónleikarnir með gamla Larsen voru gríðarlega skemmtilegir. Karlinn er eldsprækur og með geysifína og þétta hljómsveit með. Hann keyrði í gang á fullu blasti og hélt fínum dampi út alla tónleikana sem stóðu í einn og hálfan tíma. Höllin var því sem næst full af fólki. Skemmtileg tilviljun að ég fékk sæti við hliðina á nágrönnum mínum hér í Rauðagerðinu. Við höfum greinilega keypt miðana á sama tíma sama morguninn í ágúst þegar opnað var fyrir miðasöluna. Það munaði miklu að sitja rétt upp við sviðið samanborðið við að vera lengst í burtu. Ég sá Kim í Parken í Köben fyrir rúmum 20 árum. Þá var hann svona farinn að dala eitthvað eftir mislukkað Bandaríkjaævintýri en hann hefur sannarlega gengið í endurnýjun lífdaga. Hörkugott kvöld.
jafnréttismálin eru nokkuð fyrirferðarmikil hér og er það furða sé miðað við þau ósköp sem nuddað er framan í mann af misgáfulegum niðurstöðum úr misfaglegum s.k. rannsóknum sem allar eiga það sameiginlegt að það er verið að færa rök að því að karlmenn haldi konum kerfisbundið niðri og séu yfirleitt eins og andskotinn við þær. Í blöðunum í dag voru hvorki meir eða minna en þrjár slíkar niðurstöður birtar. Hvorki meir eða minna. Á Mbl í dag var sagt frá niðurstöðum rannsóknar frá háskólanum í Svavanger (reyndar er þessi frétt horfin af Mbl nú) þar sem var verið að skoða hlutdeild karla í heimilisstörfum. Spurt var um þann tíma sem fer í matseld, taka til, þvotta, innkaup og samneyti við börnin. Karlar lögðu færri tíma í þessi störf en konur, misjafnt þó eftir löndum. Það stóð ekki á því að feministakórinn hóf upp raust sína á bloggsíðunum undir formerkjunum "Þetta vissi ég..." En eru þetta einu heimilisstörfin sem unnin eru á heimilinu? Alla vega ekki á mínu heimili. Hvað með viðhald hússins utan húss og innan. Hvað með umhirðu og viðhald bíls? Hvað með garðvinnu og þannig mætti áfram telja. Að mínu mati er þeim heimilisstörfum kerfisbundið sleppt sem ætla má að karlar sinni frekar en konur. Það þarf meira að gera en að elda mat og ryksuga. Ég er hræddur um að það yrði upplit á tengdamömmu ef ég sendi konuna upp á þak í frosti á jólaföstunni að setja upp jólaseríuna en væri sjálfur inni að ryksuga eða ef hún væri úti að smíða en ég væri inni að brjóta saman þvott.
Önnur rannsóknin var birt undir yfirskriftinni: Verður launajafnrétti náð árið 2072? Þekktur jafnréttisfrömuður hefur lagst yfir skattframtöl og reiknað út heildaratvinnutekjur karla og kvenna. Heildaratvinnutekjur en ekki launataxta eða sömu laun fyrir sömu vinnu. Íslensir karlar vinna langan vinnudag, lengri en konur vilja almennt vinna. Af hverju ætli konur sæki ekki í sjómennsku, byggingariðnað, dekkjaverkstæði, vinnuvélastjórnun og aðra þá vinnu sem er oft kuldaleg, óhreinleg, erfið með löngum vinnudegi en vonandi stundum vel borguð þegar heildarlaun eru reiknuð út. Svari því annar en ég. Það er tómt bull að tala um að jafna heildaratvinnulaun kynjanna þegar ásókn kynjanna er svo misjöfn í mismunandi störf og þegar tekið er tillit til þeirrar staðreyndar að konur vilja almennt vinna styttri vinnudag heldur en karlar jafnt þótt heimilið sé barnlaust. Síðan er bætt um betur og farið að reikna út mismuninn eftir póstnúmerum. Hvað segir það mér? Nákvæmlega ekki neitt. Það er hægt að reikna sig ráðlausan án þess að útkoman úr dæminu færi mann neitt fram á veginn ef það er ekkert vit í því sem reiknað er. Sú niðurstaða að slá því fram að meintu launajafnrétti verði náð árið 2072 ef hraði þróunarinnar verður sá sami hér eftir sem hingað til þegar miðað er við heildarlaun er vægast sagt léttvæg umræða. Til að algeru jafnrétti verði náð hvað varðar heildarlaun verða bæði kynin að vera alveg eins, að hugsa eins, haga sér eins, vilja leggja jafnt á sig og svo framvegis. Vonandi verður slíkt samfélag aldrei til.
Fyrirsögn þriðju fréttarinnar var: "Íslenskir karlar gera minna - konur meira" Það er bara svona, niðurstaðan liggur fyrir í fullyrðingastíl. Síðan er haldið áfram og fyrsta málsgrein fréttarinanr byrjar svo: "Íslenskir karlar verja minni tíma í heimilisstörf en karlar annarsstaðar á Norðurlöndunum". Bölvaðir drjólarnir, nenna ekkert að gera heima hjá sér og láta konurnar um allt saman. Þetta vissi ég eða hvað? Þegar lesið er áfram kemur fram að íslenskir karlar vinna 9 - 12 stundum meira utan heimilis en aðrir norrænir karlar. Ó er það svo? Karlagreyin á Íslandi eru alltað að puða fyrir heimilinu en eiga engu að síður að skila jafnmiklum tíma í heimilisstörf og norrænu karlarnir sem vinna miklu minna utan heimilis og hafa þar af leiðandi miklu meiri tíma heimahjá sér en þeir íslensku. Þó gæri verið að karlaskrattarnir á Íslandi vinni svona mikið utan heimilis í þeirri von að þeir sleppi við að ryksuga þegar heim er komið. Það er ekki laust við að sá andi svífi yfir fréttinni. En skoðum þetta áfram. Samkvæmt könnunni vinna karlagreyin íslensku þó 7,4 klst á viku við heimilisstörf en meðvituðu karlarnir í Danmörku og Svíþjóð ekki nema 12 klst enda þótt þeir vinni 9 - 12 stundum minna utan heimilis en þeir íslensku. Fyrirsögnin er því kolröng. Hún gæti hljóða sem svo: Íslenskir karlar vinna mest allra á norðurlöndum og íslenskar konur næstmest. Í s.k. djúpviðtölum greinarhöfundar er einnig einungis fjallað um hin hefðbundnu heimilisstörf en ekki vikið að viðhaldi og umhirðu húss utanhúss sem innan og annað álíka frekar en fyrri daginn. Það fellur að mínu mati undir það að halda venjulegu heimili gangandi alveg jaft og að þrífa gólf og höndla þvott. Líklega telst það ekki vinna í augum hreinlínumanna.
Þegar er verið að bera saman svona tölur á milli Íslands og Svíþjóðar ættu menn einnig að bera samfélögin saman í heild sinni. Í Svíþjóð vinnur um helmingur vinnufærra manna hjá hinu opinbera. Atvinnuleusi þar er miklu meira en hér, líklega um 8% á almennum vinnumarkaði og miklu hærra hjá ungu fólki. Vinnufælni er orðið þjóðarmein í Svíþjóð. Það munar svo litlu fjárhagslega fyrir meðal Svensson að stunda launavinnu eða að fá bætur frá hinu opinbera þannig að það reynir hver sem betur getur að hætta að vinna eins snemma og hægt er til að komast á bætur. Þar hætta menn almennt að vinna 55 ára gamlir. Þetta gríðarlega þéttriðna öryggisnet hefur leitt það af sér að hagvöxtur er mjög lítill í Svíþjóð, þjóðarframleiðni með því minnsta sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við og almenn hagsæld á niðurleið. Er það furða að menn hafi tíma til að ryksuga heimahjá sér og brjóta saman þvottinn við þessar aðstæður? Ég held að það fólk sem er að bera saman örlítinn hluta af þessum samfélögum og leggja niðurstöðuna út íslenskum körlum til hnjóðs ætti að svara þeirri spurningu hvort það vildi skipta á sænsku og íslensku samfélagi þegar heildarmyndin er skoðuð. Ég get svarað fyrir mig að það vildi ég ekki.
Það væri gaman að gera ítarlega úttekt á jafnréttisiðnaðinum hérlendis, hvernig hann er uppbyggður, hvað hann kostar og við hvað hann er að fást. Niðurstöður slíkrar könnunar væru án efa fróðlegar.
Í Mogganum sem var að koma inn úr dyrunum er minnst á frumvarp það sem liggur fyrir Alþingi og felur það í sér að það eigi að leita að öðru orði í stað orðsins ráðherra. Í fréttinni segir að margir hafi tekið undir þetta sjónarmið m.a. á bloggsíðum. Ég hef rennt yfir margar bloggsíður þar sem fjallað er um þetta efni og séð að það eru einnig mjög margir andsnúnir þessari tillögu. Af hverju ætli Mogginn segi ekki frá því? Spyr sá sem eki veit.
laugardagur, nóvember 24, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli