Það verður æ oftar sem maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Nú síðast eru þeir meðvituðu á toppi yfir að veitingahúseigandi á Akureyri útilokaði hóp pólskra rudda frá því að koma á pöbbinn. Þessi hópur hafði verið til sífelldra vandræða um langt skeið með ótrúlegum ruddaskap við konur á staðnum og því ekki annað að gera en að láta þá naga þröskuldinn. Það mátti ekki orða það í hugum ýmissa að þarna væru pólverjar á ferð því þá væri farið að leiða þetta orðspor út yfir alla pólverja. Fólk var meir að segja leitt fram í fréttatímum sjónvarpsins til að fordæma þetta. Þvílíkt rugl. Sama var uppi á borðinu þegar þjófagengi frá Litháen hafði herjað hér um nokkurra vikna skeið og náðist loksins að þá varð það óskaplega viðkvæmt að segja að þeir voru frá Litháen. Það var búið að segja all oft frá því í fréttum að konu hefði verið nauðgað af tveimur mönnum í miðbænum um síðustu helgi þar til það kom fram að nauðgararnir væru frá Litháen. Mér finnst það bara skipta máli að fá að vita hvaðan svona dólgar koma og einnig ef þeir koma sérstaklega frá einu landi frekar en öðru.
Það er svo merkilegt að einstaklingar sem ganga harðast fram í öfgafullu kvenréttindatali eru strax komnir upp á tærnar og háa Céið með að verja pólverjahópinn á Akureyri. Það sé fullt af öðrum svona ruddum til á Íslandi og að þessir ákveðnu pólverjar komi úr öðrum menningarheimi og því verði að taka á svona lagaðri hegðan með umburðarlyndi því þeir hafi ekki aðlagast aðstæðum hér enn og svo framvegis.
Málflutningur af þessu tagi er vel þekktur og ekki síst þar sem öfgafullir íslamistar eru til vandræða. Hann gengur undir nafninu "Litla Svarta Sambó heilkennið" og felur það í sér að ekki þyki viðeigandi að gera sömu kröfur til fólks af framandi uppruna eins og gerðar eru til þess fólks sem alið er upp í viðkomandi landi. Samkvæmt þessu heilkenni er ekki hægt að gera það ábyrgt enda er hegðanin ekki því að kenna því þeir komi úr öðrum menningarheimi. Það er dvalarlandsins að taka á sig ábyrgðina og taka á sig sökina ef illa gengur. Menn vilja ekki líta á þá sem haga sér svona sem fullorðið ábyrgt fólk heldur reyna að finna ýmsar afsakanir og ástæður fyrir svona hegðan. Þessi málflutningur á eftir að heyrast oftar hérlendis á komandi mánuðum og misserum.
Setti hjólið á nagladekk í gærkvöldi. Dekk, ljós og fleira smálegt kostaði eins og ein fylling á jeppann. Nú verður hjólað í vinnuna eins oft og mögulegt er. Það þýðir lítið að kaupa sér rándýrt hjól og láta það svo standa inni í bílskúr alla tíð.
Nú er síðasta serían af Sopranos á skjánum. Það virðist allt heldur vera farið að verða mótdrægt hjá Tony og þeim af köppum hans sem ennþá tóra. Vandamál og vesen á hverju horni. Í síðasta þætti var einhver samkoma hjá þeim og Nancy Sinatra var fengin til að syngja. Af því Geir Ólafs hefur verið að tala um að fá Nancy til Íslands þá tók maður aðeins meir eftir henni. Ég held að hún eigi bara að vera heima hjá sér. Það sýnir kannski á hvaða stigi standardinn er orðinn hjá þeim Sopranóum. Velti stundum fyrir mér hvort Sopranós serían flokkist ekki undir rasisma. Þarna eru þessi hópur ameríkuítala sýndir sem drullusokkar, morðingjar, dópsalar, þjófar og allt hvað hægt er að nefna á verri enda skalans. Svo má ekki segja upphátt að það hafi verið dólgar frá Póllandi sem voru gerðir útlægir af barnum á Akureyri.
Ég var ekki sáttur við horfa á náungann sem nauðgaði strákunum á Patró í Kastljósi í fyrradag og þylja þar upp sína hlið á málunum. Mér finnst að svona náungar eigi sér fáar málsbætur og eigi í fyrsta lagi að sitja í steininum allan tímann sem þeir voru dæmdir til en ekki að fá einhver afsláttarkjör á dómnum. Hvernig virkar þetta underground dómskerfi sem náðunarnefnd er eiginlega? Í öðru lagi ætti hann byrja á því að gera upp reikningana við fórnarlömbin með þvi að greiða þær skaðabætur sem hann var dæmdur til að greiða áður en hann fer að segjast vera orðinn nýr og betri maður. Í þriðja lagi þarf hann að sýna fram á að hann geti fúnkerað normalt úti í samfélaginu. Það er ekki sjálfgefið. Það sýnir sagan.
föstudagur, nóvember 16, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Það eru nokkrar hliðar á þessu máli. Ég ætla að byrja á að taka fram að ég tek ofan fyrir þessum veitingamanni á Akureyri fyrir að hafa tekið af skarið í því að útiloka menn af skemmtistaðnum sínum fyrir dónaskap við konur.
Hins vegar get ég ekki sætt mig við fréttaflutning sem leggur áherslu á þjóðerni dónanna vegna þess að það var, jú, skýrt tekið fram að þeim var ekki úthýst fyrir það. Þar réði framkoma við aðra gesti úrslitum. Menn eru margslungnir og hvers vegna skyldi kastljósið vera á þjóðerni frekar en öðrum bakgrunni s.s. menntun, atvinnu, aldri eða háralit. Svo nærtækt dæmi sé tekið, þá hef ég sjálfur tekið þátt í því að henda fimmtugum hagfræðingi út af skemmtistað í Snæfellsbæ einmitt vegna dónaskaps við konur. Það sem var fréttnæmt við þann atburð var að hann gerðist sekur um óþolandi dónaskap. Ekki að hann var hagfræðingur eða fimmtugur. Þess ber að geta að hann var íslenskur. Eins og allir hinir mennirnir sem hent var út af skemmtistaðnum fyrir þessar sakir á þeim árum. Sumir voru settir í straff.
Það eru nokkur ár síðan ég tilheyrði hópi sem sífellt sat undir fréttaflutiningi af þessu tagi. En af einhverjum sökum hafa útlendingar tekið við af sjómönnum og utanbæjarmönnum á Akureyri. Hvað skyldi valda því að fjölmiðlamenn þurfi að draga athyglina að einhverjum eiginleikum manna, öðrum fremur, þegar slæmar fréttir eru fluttar?
Fréttin hljómaði þannig, þegar ég heyrði hana, að "hópi Pólverja" hafi verið úthýst af skemmtistað á Akureyri. Þegar hópi er úthýst má auðveldlega álykta að þar innan um sé að finna saklausa menn. Þannig að okkur "meðvitaða liðinu" er vorkun að hafa (sjálfrátt eða ósjálfrátt) tekið upp hanskann fyrir þá saklausu í hópnum.
Grímur
Sæll Grímur og takk fyrir innleggið. Í upphafi er ég alveg viss um það að ef að ég og félagar mínir hefðu hagað okkur eins og vitleysingar þegar ég bjó í Uppsölum á sínum tíma og verið útilokaðir af einherjum skemmtistöðum vegna ribbaldaháttar þá hefði því verið slegið upp í blöðum bæjarins að í bæinn væri mættur óaldarflokkur frá Íslandi sem hefði uppskorið eins og hann hefði sáð til. Það hefði kannski valdið saklausum löndum okkar einherjum óþægindum en þannig hefði það bara verið og ekkert við því að gera. Það var danskri stúlku misþyrmt af fyrrverandi kærasta sínum í níu daga samfleytt í skúr í Kaupmannahöfn nýlega. Dönsku blöðin sögðu frá því skilmerkilega af hvaða þjóðerni náunginn var enda þótt hann væri danskur ríkisborgari. Áttu dönsku blðin að þegja kyrfilega yfir því á sínum tíma þegar upp komu ítrekuð tilfelli þar sem 3ju kynslóðar innflytjendur raðnauðguðu dönskum stelpum í Danmörku fyrir nokkrum árum og segja bara "hópur danskra stráka" raðnauðgaði stelpu í gærkvöldi? Ef upp kemur vandamál verða menn að skilgreina það og einangra til að geta tekið á því. Það pirrar mig verulega þegar sjálfskipaðir gæslumenn stökkva ætíð upp til handa og fóta ef fram kemur í fréttum að um útlendinga sé að ræða þegar upp koma einhver vandamál. Sú aðferðafræði skapar miklu meiri vandamál til lengri tíma litið heldur en að tala opinskátt um hlutina.
Fyrst vil ég nefna að akureyrsku Pólverjunum var ekki úthýst af skemmtistaðnum fyrir nauðganir heldur dónaskap eða kynferðislega áreitni eins og það heitir líka. En umræðan um þann atburð fer af einhverjum ástæðum að snúast um nauðganir og annað ofbeldi innflytjenda.
Við erum sammála Gunnlaugur, um að eitt af því sem fjölmiðlar gætu gert fyrir okkur er að tiltaka mikilvægar staðreyndir mála til að hjálpa okkur að greina. Hins vegar erum við ósammála um hvort aðferðirnar sem þeir nota séu boðlegar. Ég er sannfærður um að með því að tiltaka þjóðerni, eða jafnvel uppruna, brotamanna séu fjölmiðlar að leiða til falskra ályktana. Þjóðerni sé ekki ráðandi um afbrotahneigð. Hvorki þegar um er að ræða klassísk ofbeldisbrot, né kynferðisbrot. Grunnfærar greiningar eru verri en engar. Geðsjúkllingurinn sem læsti kærustuna sína inni og pyntaði hana gerði það t.d. ekki af því að hann er óhóflega Sýrlenskur eða Líbanskur. Ekki frekar en Freddy West gerði það sem hann gerði vegna óhóflegrar Bresku. Það er einhver harmleikur þarna á bakvið. Svo mikið er víst. Sjálfur fór ég að hugsa þegar ég heyrði fréttirnar: "Skyldi hann hafa verið lengi í innflytjendabúðum? En þær eru víst gróðrarstía geðsjúkdóma hjá börnum og unglingum." Það kom ekki fram í fréttinni. Það kom heldur ekki fram í fréttinni hvernig honum hefur vegnað í skóla. Eða hvort lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af heimili hans vegna heimilisofbeldis. Svo einhverjar staðreyndir, sem skipt geta máli, séu nefndar. Ég er ekki að bera blak af gerandanum, heldur gagnrýna grunna umjöllun fjölmiðla.
Ef marka má fjölda kærðra kynferðisafbrota þá er tæplega níu sinnum líklegra að kona verði fyrir nauðgun af hendi Íslendings en útlendings á Íslandi. Einar og sér segja þessar tölur sitt, en menn leggja gjarnan út frá þeim og gleyma staðreyndum eins og:
Einungis lítill hluti nauðgana er kærður, en skv. erlendum rannsóknum er líklegra að konur kæri nauðgun af hendi útlendings.
Á hverri helgi eru álíka margir útlendir karlmenn staddir hér sem ferðamenn eins og þeir sem búsettir eru hér.
Líklega er ekki gerður greinarmunur á íslenskum ríkisborgurum af erlendum uppruna og innfæddum í þessum tölum.
Það er hugsanlegt að hver nauðgari nauðgi oftar en einu sinni.
o.s.frv.
Sumir túlkendur þessara talna leggja áherslu á að fjöldi nauðgana útlendinga haldist hlutfallslega í hendur við fjölda útlendinga með búsetu á Íslandi. Það má eins vel draga þá ályktun af þessum tölum að íslenskir karlmenn séu líklegri til að nauðga en erlendir. Hlutfallslegur fjöldi nauðgana frömdum af íslendingum er meiri en íslenskra karlmanna á Íslandi skv. tölunum.
Þegar ég er að skrifa þetta, þá rennur upp fyrir mér, að líklega sé það eina sem "Eystrasaltslendir" byggingaverkamenn á Íslandi og múslimir í Danmörku eigi sameiginlegt að innfæddir líta á þá sem nauðgara upp til hópa. Við gætum kannske hjálpast að við að komast að niðurstöðu um hverju það sætir. Mín tilgáta er sú að óeðlilega mikið sé gert úr þjóðerni í fréttaflutningi af afbrotum sem þeir fremja þegar áherslan ætti frekar að vera á annann bakgrunn.
Grímur
Skrifa ummæli