föstudagur, nóvember 02, 2007

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi nú rétt nýlega að vera boðið að gerast meðlimur í Rótarý klúbbnum í Breiðholti. Fór á fyrsta fundinn í síðustu viku þar sem formleg inntökuathöfn fór fram. Þetta verður vafalaust bæði gaman og gagnlegt. Það er alltaf fróðlegt að kynnast nýju fólki og nýjum hlutum. Ég hef einu sinni komið á fund í þessum klúbb áður. Það var rétt fyrir jólin 2005 þegar ég sagði frá þátttöku minni í Western States. Á fundi í svona klúbbum koma einstaklingar úr hinni og þessari áttinni að segja frá ýmsu sem þeir þekkja eða hafa reynt. Ég hef vafalaust verið fenginn til að halda erindið undir formerkinu: „Einkennilegir menn“!!

Ég hef stundum fengið að heyra það að ég sé að vasast í of mörgu og kunni mér ekki hóf í áhugamálum og taki þátt í of mörgu af því sem er að gerast fyrir utan heimilið. Ekki skal ég segja til um hvort þetta tvennt hangir saman en alla vega þá sagði ég mig úr Framsóknarflokknum fyrir nokkru. Það eru nokkur ár síðan ég gekk formlega í hann. Ég ætla ekki að rekja ástæður þess nánar að leiðir skildu. Ég hef kynnst mörgu fínu fólki innan flokksins en engu að síður þá var það niðurstaða mín að ég ætti ekki heima í þessum selskap lengur. Þá er það bara þannig.

Ég vil vekja athygli áhugasamra á linkunum á myndiasíðuna earthshots.org sem er hægra megin á síðunni. Þetta er myndasíða þar sem er valin inn ein mynd á dag hvaðanæva úr heiminum. Þeir sem senda inn myndir setja einnig inn upplýsingar um myndasíðurnar sínar. Ef maður klikkar á einhverja mynd þá sér maður textann Photo details í hægra horninu neðst. Ef maður klikkar á það fær maður ýmsar upplýsingar um viðkomandi og meðal annnars link á myndasíðuna hans. Bendi til dæmis á mynd frá 25. október sem er frá Landmannalaugum, tekin af pólskum ljósmyndara. Á síðunni hans eru rúmlega 100 ofboðslega fallegar myndir frá Íslandi. Mér sýnist þetta vera allt að því óendanlegur sjóður í að ganga fyrir áhugasama.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er komið efni í undirdeild í UMFR36. Fyrrverandi félagar í Framsóknarflokknum.

Nafnlaus sagði...

Og það er náttúrulega bara einn sem er í framboði til ritara!!!