Fyrir margt löngu sat ég í Ferðamálanefnd Reykjavíkur og náttúrulega í minnihluta. Samstarfsmaður minn í minnihlutanum var Hrafn Jökulsson. Við sátum þarna fyrir stjórnmálasamtök sem bæði heyra sögunni til, ég fyrir Alþýðubandalagið og Hrafn fyrir Nýjan Vettvang. Það var ágætur vinnuandi í nefndinni sem starfaði undir forystu Júlíusar Hafstein. Við gátum þó ekki setið á okkur að gera svolítið at í meirihlutanum þegar möguleiki var á sem meðal annars fólst í því að gagnrýna með köpuryrðum ráðstöfun peninga þegar okkur þótti með þá farið á annan veg en við töldum rétt. Náðum við meir að segja einu sinni á forsíður blaða og urðu ólíklegustu menn okkur dálítið reiðir fyrir vikið. Ég hef fylgst með Hrafni úr fjarlægð síðan þessu kjörtímabili lauk en við heilsumst ætíð með virktum þegar fundum okkar ber saman. Hrafn er ekki einhamur þegar sá gállinn er á honum og má nefna sögu Hróksins í því sambandi. Í annan stað má nefna það þrekvirki sem hann hefur unnið á Austur Grænlandi meðal barna og unglinga þar með því að kynna skáklistina fyrir þeim. Frásagnir af afrekum hans þar er ekki í neinum Garðars Hólms stíl heldur veit ég það frá fyrstu hendi því heimafólk í Tassilaq sagði mér í sumar sem leið að þangaðkoma Hrafns og félaga hans væri eitt af því besta sem hefði gerst þar um slóðir á seinni árum. Það hefur gefið á bátinn hjá Hrafni gegnum árin eins og gengur en það eru svona skvettur sem menn keyra sig upp úr eins og öflugra drengja er háttur. Það hefur verið gaman að sjá hvað Árneshreppur á Ströndum skipar stórt pláss í huga hans en þar var hann í sveit sem lítill drengur og fékk þá meðal annars það hlutverk að verja Grænlandssteininn fyrir ágangi erlendra ferðamanna. Það gerði hann af mikilli skyldurækni og dugðu bogi og örvar best í þeirri baráttu. Nú hefur Hrafn slegið sér niður í vetur ásamt konu sinni í skólanum á Finnbogastöðum en þar kenna þau við minnsta skóla landsins þar sem tvær litlar stúlkur stunda nám. Hrafn hefur nýlega skrifað dágóða bók sem ber nafnið Þar sem vegurinn endar. Hann skrifar þar um sjálfan sig, upplifanir sínar héðan og þaðan og síðan kjölfestuna, fólkið og sveitina á Ströndum norður. Ég renndi yfir bókina um daginn og fékk á tilfinninguna eftir lesturinn að þetta væri ein læsilegasta og einlægasta bók af þessum toga sem ég hef lesið lengi. Mæli með henni.
Það var karlakvöld í Víkinni í gærkvöldi. Gott kvöld. Guðni Ágústsson var heiðursgestur kvöldsins og mættu þeir Sigmundur allmóðir eftir viðtöl út og suður en bók þes síðarnefnda um þann fyrrnefnda kom út í gær. Guðni hélt mikla ræðu og fór á kostum. Hann vóg stundum salt á brúninni en tókst aðdáunarlega að halda sig réttu megin við strikið. Hann hélt ræðu á Selaveislunni um daginn en það var jafnskemmtilegt að heyra kallinn tala aftur því hann nær svo vel að tala út frá aðstæðum kvöldsins en er ekki bara með einhvern bunka af bröndurum sem farið er í gegnum. Freyr Eyjólfsson skemmti á eftir með eftirhermum og söng. Hann nær hvers manns kjafti en þegar hann hermir eftir Megasi er bara eins og sá gamli sé mættur.
Sótti Neil snemma í morgun og við lögðum af stað um kl. 7.00. Við fórum hefðbundna leið upp Poweradehringinn og síðan vestur á Eiðistorg. Losaði 30 km en Neil ætlaði að klára dagsskammtinn sem er maraþon.
laugardagur, nóvember 24, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli