Árið 2009 er senn liðið til loka. Það er ekki úr vegi að líta um öxl og rifja upp hvernig mál hafa gengið fyrir sig á árinu. Um áramót var stefnan tekin á 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi í maí. Það var nokkur ferð út í óvissuna því það er dálítið meira að taka tvo sólarhringa í Borgundarhólmshringnum en einn. Það hafði ég séð árið áður. Ég lagði því nokkuð meir að mér en áður. Meðal annars var sett upp áætlun um að taka eitt maraþonhlaup í viku hverri frá áramótum fram til vors. Áætlunin gekk fullkomlega eftir án nokkurra áfalla eða erfiðleika. Hlaupið sjálft gekk vel þrátt fyrir að blöðrur á fótunum hafi nokkuð sett mark sitt á seinni sólarhringinn. Annað var allt í lagi. Árangurinn var síðan framar björtustu vonum en maður sér alltaf að það væri hægt að gera enn betur. Að þessu verkefni loknu tók annað við. Ég hafði fengið þá hugmynd að hlaupa norður til Akureyrar og þegar ljóst var að allt var í lagi eftir Borgundarhólm þá hafði ég samband við Eddu Heiðrúnu Backmann og UMFÍ og lagði hugmyndina fyrir þau. Mér var tekið tveimur höndum og allt sett á fullt með undirbúning. Ég lagði svo af stað sunnudaginn 5. júlí og lauk hlaupinu á setningarhátíð UMFÍ föstudagskvöldið eftir. Að jafnaði hljóp ég 65 - 70 km á hverjum degi. Ingimundur Grétarsson úr Borgarnesi fylgdi mér norður og var sá besti ferðafélagi sem mögulegt var að fá. Veðrið lék við okkur sem aldrei fyrr, sól og rúmlega 20°C upp á hvern dag. Allt gekk eins og best var á kosið og er mörgum fluttar þakkir fyrir að þessi litla hugmynd yrði svo eftirminnilega að raunveruleika. Síðan tók ég þátt í skemmtilegu maraþonhlaupi UMFÍ laugardaginn eftir. Laugavegurinn var viku síðar og nú var látið staðar numið í Þórsmörk og dvalið í góðum félagsskap að hlaupi loknu. Næst á dagskránni var London - Brighton hlaupið í lok september og til að undirbúa það meðal annars þá tók ég tvöfalt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. London - Brighton hlaupið gekk vel að mestu leyti en það var flóknara í framkvæmd en flest önnur álíka hlaup þar sem rötunin vóg nokkuð þungt. Það er um 90 km langt og lá um engi, tún, skóga og þéttbýli og leiðin hvergi merkt. Stórverkefnum ársins lauk svo laugardaginn 5. desember þar sem ég tók 100 km á hlaupabretti í World Class, fyrstur Íslendinga. Það gekk allt ljómandi vel og var auðveldara en ég hafði haldið fyrirfram.
Ég skrifaði dálitla bók snemma vetrar sem Vestfirska forlagið var svo vinsamlegt að gefa út. Í henni rek ég hlaupasögu mína frá skemmtiskokkinu eftirminnilega sem ég tók þátt í fyrir algera tilviljun fram til að ég snerti fótinn á styttu Leonídasar í Spörtu eftir að hafa lokið erfiðasta og lengsta ofurhlaupi í heimi. Ég veit ekkert um sölutölur en hún hefur reist út. Þetta var skemmtilegt verkefni sem mér fannst betur gert en ógert, sérstaklega það gæti orðið einhverjum til stuðnings eða hvatningar.
Samtals er ég búinn að pjakka vel yfir 5.000 km á árinu og er það nær 15% lengra en á síðasta ári sem var langlengsta ár fram til þessa. Þar áður hafði ég hlaupið nálægt 3.000 km árlega. Ég er ekki í vafa um að breytt mataræði skiptir miklu máli í því sambandi að geta aukið álag á líkamann án þess að það hafi eftirköst. Mér likar mjög vel við þá rútínu semég er búinn að koma mér upp og hef enga ástæðu til að breyta henni. Burt með allan sykur, hvítt hveiti í algeru lágmarki og allt draslfæði hreinsað út. Það er ekki mjög flókið. Síðan er ég viss um að Herbalifepróteinið er mjög gagnlegt í löngum hlaupum. Ég er búinn að láta það oft reyna á það að ég tel mig geta fullyrt nokkuð í þeim efnum. Ég er ekki að segja að það sé það besta sem til er, um það hef ég ekki möguleika að dæma en sama er, það dugar mér vel.
Á næsta ári bíða mörg skemmtileg verkefni. Fyrst skal telja að ég er skráður í Comrades hlaupið í Suður Afríku í lok maí. Með því að ljúka því þá hef ég lokið öllum fjórum klassísku ofurhlaupunum í heiminum. Síðan langar mig til að takast aftur á við 48 klst hlaup á Borgundarhólmi og sjá hvort ég hafi eitthvað lært af hlaupinu frá því í fyrra sem betur megi fara. Nú hefur kostnaður hins vegar vaxið svo mikið við að fara erlendis svo maður verður að vanda valið. Ég er skráður í Trans Gaul hlaupið þvert yfir Frakkland en veit ekki hvort ég geti fjármagnað það. Það kemur í ljós. Það eru þrjú slík hlaup sem eru áhugaverð. Þvert yfir Þýskaland og Frakkland og síðan langs eftir Englandi. Öll eru þau um 1100 km og er lokið á 16-18 dögum. Það er alltaf gaman að láta sig dreyma. Síðan er ég farinn að spökulera í áhugaverðu verkefni hér heima á sumri komanda. Það kemur í ljós hvort af því verður. Það er ýmislegt hægt ef skrokkurinn er í lagi.
Maður getur ekki verið annað er ánægður með að allt þetta sem upp er talið hafi gengið upp án áfalla og í raun hefur hvert verkefnið verið öðru skemmtilegra. Það er ekki sjálfgefið. Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en forréttindi sem maður á að vera þakklátur fyrir að geta leyft sér.
Árið hefur að öðru leyti verið mjög ánægjulegt. Fín ferð norður í Austurdal í Skagafirði, Kjalvegshlaupið í júní, styttri og lengri ljósmyndatúrar og námskeið, landsmót UMFÍ á Akureyri og ULUMFÍ á Sauðárkróki, ánægjulegir endurfundir með Neil í september, o.s.frv.o.s.frv.
Á morgun bíður Gamlárshlaupið. Það spáir vel, bjart, logn en smá frost. Betra gæti það varla verið. Það er nú einu sinni vetur.
Bestu nýárskveðjur.
miðvikudagur, desember 30, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Minn kæri frændi,
Ég verð nú að segja að ég er stolt af þér og þínum afrekum. Hef fylgst með þér gegnum síðuna þína. Þú ert ekki bara ættarstolt okkar heldur einfaldlega þjóðarstoltið líka. Hvað er hægt annað en að fyllast stolti og gleði vegna framgöngu þinnar? Sýnir og sannar að aldurinn er afstætt hugtak - það er sjálft hugarfarið sem gildir. Kverið þitt litla er ekki bara hlaupakver - ég tel það nýtast við hverja þá áskorun sem hver og einn tekur....bara yfirfærð þangað.
Megi nýja árið með flotta ártalinu færa þér og þínum gleði og farsæld og þér sjálfum mikið og gott hlaupaár. Kærar þakkir fyrir allt það sem liðið er.
Bestu kveðjur,
Sólveig frænka.
Sæll Gunnlaugur.
Frábært ár hjá þér Gunnlaugur það er ljóst að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Afrekasaga þín er bara rétt að byrja. Mér finnst athyglisvert hvað mataræðið skiptir miklu máli. Maður þarf greinilega að taka til þar og huga að nýjum siðum hvað það varðar. Annars er þetta alltaf spurning um aga. Ég er annars búinn að lesa bókina þína og líkaði vel. Bíð spenntur eftir næstu bók : )
Óska þér góðs gengis á næsta ári og þakka fyrir árið sem er að líða.
kv. Steinn járnkarl
Skrifa ummæli