þriðjudagur, desember 01, 2009

Það var upplestur á Súfistanum í Máli og Menningu í kvöld. Auk mín lásu Anna Ólafsdóttir Björnsson og Elías Snæland Jónsson úr nýútkomnum bókum sínum. Þetta var svolítið sérstök upplifun að bera sig svona á torg. Það venst hinsvegar örugglega eins og margt annað. Ég verð að segja eins og er að ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég rifja upp skemmtiskokkið góða fyrir einum 15 árum. Hvað hefði gerst ef maður hefði sagt Jóa að vera ekki að þessari vitleysu að vera að suða um að hlaupa? Það veit maður auðvitað aldrei en þetta er dæmi um krossgötur þar sem maður velur leið, vitandi eða óafvitandi. Eins gleymi ég aldrei þegar ég sá maraþonhlauparana í Lækjargötunni árið eftir. Maraþonhlauparar, það voru alveg sérstakir menn. Maður veit aldrei hverskonar mola maður fær úr kassanum eins og Forest Gump sagði.

Ég hlustaði á frásögn hjónanna í Kastljósi í gærkvöldi. Þar var eitthvað sem stemmdi ekki. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem þau eru í, það er auðvitað ekki hægt. Sama er, þegar menn ganga fram fyrir skjöldu þá verða öll kurl að vera til grafar dregin.

Ég vona að allt verði í lagi á laugardaginn. Það er alla vega ekkert sem gerir það að verkum að svo verði ekki. Það náðist ekki að safna saman ákveðnum hópi sem skipti kerfisbundið á milli sín 100 km. Fólki virðist vaxa það svolítið í augum að hlaupa 10 km. Fólk getur mikllu meir en það heldur, það bara veit ekki af því. Hlauparasamfélagið er hins vegar farið að melda áhuga á að taka lengri eða skemmri legg við hliðina á mér. Það er bara fínt og verður gaman. Ég þarf að ræða útfærsluna á því við Björn og Dísu í World Class.

Jói og félagar hans fóru suður í Hafnarfjörð og spiluðu við kollega sína í Haukum í
2. flokki í handbolta. Víkingar áttu stórleik og komust mest í 12 marka forystu og sigruðu örugglega að lokum. Þeir eru allir að koma til. Vonandi er hungrið í árangur farið að segja til sín. Það dregur menn ansi langt áfram.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Henær er best að hlaupi með þér á laugardag?

Trausti s 896 8775