miðvikudagur, desember 09, 2009

Ég fór ásamt Svövu Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Reykjavíkurmaraþons, til Frankfurt á mánudagsmorguninn. FRÍ var boðið að senda tvo fulltrúa á mikla ráðstefnu um almenningshlaup sem IAAF, ALþjóða frjálsíþróttasambandið boðaði til. Sambandið hefur loks áttað sig á því að það eru að gerast gríðarlega magnaðir hlutir í almenningshlaupum út um alla Evrópu. Hlaupum fer fjölgandi og þáttakendur fjölgar ennþá meir. Á síðurstu árum hefur orðið sprenging í almenningshlaupum í okkar heimshluta. Á einum sólarhring sóttu 125000 manns um að taka þátt í Londonmaraþoni þegar opnað var fyrir skráningu fyrir hlaupið í vor. Sama má segja um mörg önnunr hlaup. það er orðið erfitt að komast inn í stærdtu og þekktustu hlaupin. Áhugavert er að sjá hvað er að gerast í landsáætlunum um að hvetja almenning til aukinnar hreyfingar s.s. í Skotlandi og Noregi. Frjálsíþróttasamböndin vilja gjarna tengjast þessari hreyfingu betur og meðal þess sem rætt var á ráðstefnunni var hvernig það gæti gerst. Hvar færu hagsmunir saman og hvar ekki. Vafalaust hafa frjálsíþróttasamböndin víða verið miðuð við hagsmuni afreksíþróttamanna og þá var í leiðinin hálfvegis litið niður á skokkarana. Þarna koma fjölmiðlarnir einnig til sögunnar. Við þurfum ekki að leita langt til að sjá viðhorf ýmissa svokallaðra íþróttafréttamanna hérlendis á þessu sviði. Fjölmiðlamenn nenntu ekki að fletta þvþí upp hverjir urðu í öðru og þriðja sæti á Laugaveginum í sumar. Það þykir meiri íþróttafrétt að launagreiðslum til Hermanns Hreiðarssonar seinkaði um einn dag heldur en að Laugavegsmetið væri bætt um 20 mínútur í sumar. Síðan standa menn frammi fyrir því að það er að gerast eitthvað alveg óvænt sem hvorki frjálsíþróttasamböndin né fjölmiðlar hafa komið nálægt eða sýnt nokkurn áhuga. Markaðurinn er hins vegar búinn að átta sig nokkuð á hvað er að gerast í þessum málum hvað varðar eftirspurn eftir ýmsum vörum sem tengjast hlaupum. Þetta var fróðleg ráðstefna sem vonandi skilar einhevrju inn í umræðuna og framkvæmd mála hérlendis.

Ég sá nýlega að tveir Svíar ætla að gera atlögu að sænsku metunum í 24 tíma hlaupi og 48 tíma hlaupi á bretti. Þeir hafa undirbúið sig nokkuð lengi en ætla að láta slag standa eftir áramótin. Sænska metið í 24 tíma brettishlaupi er 180 km og Johann Lindvall, sem varð annar í 48 tíma hlaupinu í Borgundarhólmi í vor, á metið í 48 klst hlaupi eða 291 km. Það kemur mér á óvart að sænksa metið í 24 tíma brettishlaupi skuli ekki vera meira en 180 km. Það hefðu verið 80 km á 13,5 klst til viðbótar við þá 100 sem ég hljóp um daginn. Það hefði ekki verið neitt stórmál.

Ég tek yfirleitt bækur með mér þegar ég fer í svona ferðir því það er yfirleitt nægur tími til að lesa. Ég greip með mér Fiskileysisguðinn eftir Ásgeir Jakobsson og las hana í flugvélinni á leiðinni heim. Ég hafði lesið hana áður en það er svona með sumar bækur að þær getur maður lesið aftur og aftur. Yfirleitt eru það gæðamerki. Ásgeir spáði á áttundaáratugnum fyrir um þróun mála í aflabrögðum á þorski þegar farið var að stjórna fiskveiðum hérlendis. Líklega hefur þróunin orðið verri en hann gat ímyndað sér. Um áratugaskeið gáfu Íslandsmið af sér um og yfir 400 þúsund tonn að þorski upp úr sjó. Eftir 25 ára stjórnun og vísindalega ráðgjöf taldi Hafrannsóknastofnun óhætt að veiða 130 þúsund tonn í ár. Það er einn þriðji af því sem hafið kringnum landið gaf af sér í áratugi hér á árum áður. Það er náttúrulega alveg stórmerkilegt að það skuli varla vera nein umræða um þessi mál. Lágmark væri að Hafró skýrði það út hvers vegna lækningin er alveg að drepa sjúklinginn. Á tímabili héldu sjálfskipaðir sérfræðingar því fram að sjávarútvegur heyrði sögunni til en fjármálamarkaðurinn væri framtíðin. Það má vel vera að svo sé en alla vega höfum við Íslendingar ekki vit eða þekkingu til að vera með í þeim leik. Það er hins vegar töluverður hópur Íslendinga sem kann sjósókn mjög vel. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að auka útflutingsverðmæti með öllum tiltækum ráðum. Það er eina leiðin til þjóðin geti greitt þær skuldbindingar sem hún verður að taka á sig. Ég er enginn sjávarútvegssérfræðingur en ég veit hinsvegar að 130 þúsund tonn er tæpur þriðjungur af 400 þúsund tonnum. Það er ekki lengur hægt að horfa þegjandi á Hafró leggja til minni og minni sjósókn í nafni vísinda. Þeir verða að rökstyðja betur þær jöfnur sem þær nota en þeir hafa gert hingað til því einhversstaðar eru í þeim skekkjur. Það er eins gott að þær finnist áður en þeir reikna sjávarútveginn til andskotans.

Engin ummæli: