Jólin líða hjá á hefðbundinn hátt. Yfirleitt er hvíld og afslöppun nokkuð höfð í fyrirrúmi. Það tilheyrir og þykir ágætt. Fjölskyldan hittist og tekur sólarhæðina á ýmsum málum. Lestur góðra bóka er órjúfanlegur hluti jólanna. Ég fékk m.a. Útkall eftir Óttar Sveinsson í einum pakkanum á aðfangadagskvöld. Í henni er sagt frá björgunarafrekinu við Látrabjarg sem bændur í Rauðasandshreppi unnu um miðjan desember árið 1947. Ég hef áður minnst á þetta afrek sem er einstætt í björgunarsögu þjóðarinnar og þótt víðar væri leitað. Þarna voru unnin ómöguleg afrek af vanbúnu og fátæku bændafólki í vestasta hreppi Evrópu. En vegna þess að þarna var fólk sem hafði alist upp í nánum tengslum við náttúruna og þekkti aðstæður þarna út og inn þá var þessi þraut leyst á svo ótrúlegan hátt að manni er orða vant. Aðstæður voru eins erfiðar og hægt var að hugsa sér. Hársbreidd munaði að fjöldi björgunarmanna færist. Um þetta afrek var aldrei talað sem neinu nam í sveitinni. Þegar þessu verkefni var lokið þá var því lokið.
Það er náttúrulega til vansa hvað seinni tíma einstaklingar hafa sýnt þessu takmarkaðan sóma. Ekkert aðgengilegt efni er til staðar fyrir ferðafólk að átta sig á aðstæðum eða því sem gerðist þarna. Myndin um björgunarafrekið við Látrabjarg er að vísu sýnd í safninu á Hnjóti og ýmsir munur eru þar einnig til minja um þennan atburð og er það vel. Engu að síður er hægt að gera miklu betur. Úti á Bjargtöngum er ekkert sem minnir á þennan atburð. Á bílastæðinu á vegarenda inni á Bjargi er smá skilti sem var sett upp fyrir örfáum árum. Þar er lauslega farið yfir þennan atburð en svo ótal margt er látið liggja milli hluta að það er erfitt að hugsa um það. Fólkið sem vann þetta afrek á það svo sannarlega skilið að fólk nútímans sem á allt til alls en myndi aldrei geta fetað í fótspor þess haldi því afreki á lofti sem unnið var við Látrabjarg um miðjan desember árið 1947.
Aðeins til að gefa áhugasömum innsýn í hvað þarna gerðist þá verður hér stiklað á stóru:
1. Föstudaginn 12. desember snemma morguns strandar togarinn Dhoon undir Látrabjargi.
Skipstjórinn virðist hafa keyrt skipinu beint upp í bjargið. Skipið strandar undir 180 metra háu standbergi. Það er óþverraveður og mikið brim. Á skipinu er 15 manna áhöfn. Neiðarkall er sent út.
2. Upplýsingar berast vestur um strandið. Farið er að leita. Síðdegis á föstudag sjá Látrabændur hvar skipið er strandað undir bjarginu. Það er hvasst og skítaveður en frostlaust. Látramenn ráða ráðum sínum og skipuleggja björgunaraðgerðir morguninn eftir. Menn leggja gangandi af stað til Látra víðs vegar að úr hreppnum.
3. Björgunarmenn leggja af stað eldsnemma á laugardagsmorgni frá Látrum. Ákveðið er að freista þess að bjarga strandmönnum með því að síga í fjöru af Flaugarnefi. Um 100 metra leið er af brún bjargsins niður á Flaugarnef og er það snarbrött klettahlíð. Af nefinu er svo 80 metra standberg í fjöru.
4. Tólf menn fara niður á Flaugarnef. Þeir eru allt frá nítján ára unglingum upp í fullorðna menn. Flaugarnefið er 40 metra breitt og 60 metra langt. Einungis er fært fyrir vana menn niður á það að sumarlagi, hvað þá um hávetur í klaka og myrkri. Þeir eru komnir niður á nefið um kl. 10:00. Fyrir tilviljun hafði einn mannanna tekið með sér öxi. Með henni var hægt að höggva spor í grassvörðinn svo þeir sem á nefninu sátu hefðu viðspyrnu.
5. Fjórir (Þórður á Látrum, Drési Karls, Hafliði í Neðri Tungu og Bjarni í Hænuvík) síga niður í fjöru af Flaugarnefinu og tóku þeir mest allann björgunarbúnaðinn með sér á bakinu.
6. Línu er skotið út í skipið. Greiðlega gengur að bjarga Bretunum í land. Um kl. 13:00 eru allir skipbrotsmenn sem voru á lífi (tólf talsins) komnir upp í fjöru.
7. Um kl. 14:00 er farið að draga skipbrotsmenn upp á Flaugarnefið. Kl. 16:00 er búið að draga sjö skipbrotsmenn upp á Flaugarnefið og Þórð á Látrum einnig. Þá er orðið dimmt og farið að flæða að. Ómögulegt er að draga fleiri upp þennan dag.
8. Steinn kemur fljúgandi niður Flaugarnefið. Hann strýkst með vanganum á Árna Helgasyni og særir Guðmund í Breiðuvík á öxlinni. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef hann hefði lent á þeim.
9. Þeir sem eru í fjörunni (þrír björgunarmenn og fimm Bretar) freista þess að finna stað undir bjarginu þar sem brimið nær ekki til þeirra til að geta lifað af nóttina. Í sautján klukkustundir eru þeir að hörfa undan briminu í fjörunni í náttmyrkri við ólýsanlegar aðstæður. Björgunarmenn á Flaugarnefi og Bretarnir sjö verða að dvelja þar um nóttina því ómögulegt er að fara upp 100 metra snarbratta og hættulega klettahlíð í náttmyrkrinu. Þrír menn fikra sig þó upp á brún eftir vað til að láta vita af sér og sækja mat og klæðnað.
10. Hafliði fær stein utan í höfuðið undir bjarginu og höfuðkúpubrotnar. Búið er um sárið en annars er ekkert hægt að gera. Bátsmaðurinn á Dhoon fær einnig stein í höfuðið en særist minna.
11. Þegar búið er að sækja mat og föt að Látrum er bagginn (um 50 kíló) bundinn á bakið á Halldóri Ólafssyni, fimmtán ára dreng. Hann er léttastur og því auðveldast að láta hann síga niður í náttmyrkrinu. Hann er látinn síga niður um 60 metra leið. Bagginn er svo þungur að það reynist honum ofraun að halda um kaðalinn á leiðinni niður. Hann missir tökin á vaðnum og snýst við. Honum er þannig slakað niður einhverja tugi metra í náttmyrkrinu með höfuðið á undan og fimmtíu kílóa bagga hangandi á sér þar til hann lendir á syllu og stöðvast. Hann kallar á hjálp og menn á Flaugarnefinu heyra í honum og komast til hans. Hann verður fyrir svo miklu áfalli að um tveir sólarhringar eru þurrkaðir út úr minni hans æ síðan.
12. Menn úr nærliggjandi sveitarhlutum safnast til Látra á aðfaranótt sunnudags til að aðstoða við björgunina. Það gengur á með hvassviðri og rigningu.
13. Undir hádegi á sunnudegi er farið að birta það mikið að hægt er að fara að draga þá sem eftir voru í fjörunni upp á nefið. Þeir lifðu allir af nóttina. Þegar þeir eru að klöngrast að vaðnum fær Andrés Karlsson stein af svo miklu afli í kassa sem hann bar á bakinu að hann flaug flatur.
14. Það tekst að ná öllum mönnunum úr fjörunni upp á Flaugarnefið. Síðan er farið að koma þeim upp á brún á bjarginu. Um kl. 18:00 á sunnudagskvöld er síðasti maður kominn upp á brún. Ekki var fært að koma þeim skipbrotsmönnum sem höfðu gist í fjörunni heim að Látrum um kvöldið eða nóttina því ekki var til nægur mannskapur svo tryggt væri að allir kæmust til bæja. Um 15 km leið er heim að Látrum frá bjargbrúninni. Þeir urðu því að gista í tjaldi á bjargbrúninni ásamt tveimur íslendingum. Ekki mátti sofna því þá var ekki víst að menn vöknuðu aftur.
15. Síðustu skipbrotsmenn og björgunarmenn koma heim að Látrum á mánudagsmorgni. Þeir sem lengst höfðu vakað vöktu í um þrjá til fjóra sólarhringa.
Þetta er stutt ágrip af atburðarásinni vestur við Látrabjarg þessa sólarhringa sem vafalaust enginn gleymdi nokkurntíma sem upplifði þá. Margt fólk kemur vestur á Látrabjarg á hverju sumri. Fæstir þeirra leiða hugann að þessu mikla afreki þegar þeir standa á brun bjargsins á góðviðrisdegi og enn færri geta gert sér í hugarlund við hvaða aðstæður þetta mikla afrek var unnið.
laugardagur, desember 26, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ótrúlegt afrek. Væri gaman að sjá mynd - um það eins og Goðafoss-myndina sem er verið að sýna nú um jólin.
Jóhanna Eiríksd.
Skrifa ummæli