Indriði bóndi á Skjaldfönn skrifar góðan pistil í Moggann í dag þar sem hann beinir nokkrum orðum til umhverfisráðherra vegna þeirrar ákvörðunar ráðherrans að ríkið hætti að leggja fjármuni í refaförgun. Indriði er bæði gjörkunnugur viðfangsefninu og einnig er hann orðhagur svo pistillinn er góður eins og við var að búast. Þegar ríkið hættir að leggja fjármuni í þetta verkefni gerist annað tveggja, kostnaðinum er ýtt yfir á sveitarfélögin eða refurinn verður látinn í friði. Nú er það svo að margir þeirra sem fara sjaldan austur fyrir Elliðaárnar sjá ekkert athugavert við að litlir sakleysislegir hundar eins og refurinn vappi um holt og móa. Það getur varla skipt svo miklu máli. Þeim sem leggja leið sína um Hornstrandir finnst yndisauki að sjá refina skottast við fætur sér og sníkja harðfisk og súkkulaði. En þetta er ekki svona einfalt. Það eru rétt 30 ár síðan ég fór fyrst um Hornstrandir. Ég fór síðast um Hornstrandir fyrir um 10 árum síðan. Þá hafði friðun refa staðið yfir í 10 ár. Samanburðurinn er þannig að fyrir þrjátíu árum var jafn sjaldgæft að sjá ref á Hornströndum eins og það var sjaldgæft að sjá mófugl fyrir tíu árum síðan. Mófuglinn er horfinn af Hornströndum. Vitskuld. Refurinn þarf að éta eins og önnur dýr. Kunnugir segja að hann sé búinn að eyða bjargfugli úr stórum flákum í björgunum eða á þeim svæðum sem hann getur farið auðveldlega um. Þegar fuglinn er farinn sprettur grasið fljótt og þar verpir svartfugl ekki aftur. Lengi stóðu þrætur milli heimamanna og svokallaðra sérfræðinga um hvort refurinn væri staðbundinn eða hvort hann færi út af Hornströndum. Sérfræðingarnir fullyrtu að refurinn væri mjög staðbundinn og færi ekki neitt. Bændur og veiðimenn fullyrtu hið gagnstæða. Loks þegar samkomulag náðist um að setja senda á refi á Hornströndum kom í ljós að hann fjandaðist um allar jarðir. Það er bara heilbrigð skynsemi. Þegar ætið er orðið of lítið á Hornströndum þá leitar hann vitaskuld að fæðu annarsstaðar. Það segir sig sjálft.
Ég er alinn upp við hliðina á refnum og þekki hann því svona þokkalega. Nokkur dýr slysaði ég enda þótt þau væru ekki mörg. Svo hátt komst ég í þjóðfélagsstiganum þar vestra að ég lá á greni á sínum tíma. Refurinn er mér því ekki ókunnur. Einu sinni var refur ekki unninn í sveitinni í tvö vor, einhverra hluta vegna. Það merktist strax hve honum fjölgaði gríðarlega einungis fyrir það að gren voru ekki unnin í hreppnum þessi vor.
Skaði af refum er tvennskonar. Annars vegar drepur hann sauðfé. Skaði af þeim völdum hefur vafalaust minnkað þegar farið var að taka fé fyrr á hús og sleppa því síðar á vorin en dýrbítar munu alltaf finnast. Það er ófögur sjón að koma á greni sem er þakið lambaræflum. Hins vegar drepur refurinn mikið af fuglum. Hann ryksugar upp unga um varptímann. Ef refnum fjölgar mikið er þetta stóri skaðinn að mínu mati. Fjölgun hans mun hafa veruleg áhrif á fuglalíf í landinu. Ef sveitarfélög reyna að hamla á móti þessum skaðvaldi þá lendir kostnaðurinn á íbúum fámennra sveitarfélaga á landsbyggðinni en 70-80% íbúanna láta sér þetta í léttu rúmi liggja en vilja engu að síður njóta fuglalífsins. Hvaða réttlæti er í því t.d. að íbúar Skútustaðahrepps, sem eru um 400 talsins, skuli einir bera kostnaðinn af því að halda niðri vargi við Mývatn þegar vatnið og umhverfi þess er á heimsminjaskrá? Skútustaðahreppur er mjög landmikill svo það er enn erfiðara. Það er náttúrulega svo galið að það nær engri átt.
Ég reiknaði út að gamni mínu hvað eitt tófupar gæfi af sér marga afkomendur á 10 árum ef engin afföll yrðu og allar tófurnar myndu eignast afkomendur árlega. Auðvitað er niðurstaðan ofmat en það gefur engu að síður til kynna hve ofboðsleg fjölgun verður á refnum ef hann er látinn óáreittur. Tófur eignast yrðlinga ársgamlar svo viðkoman er mikil. Ef tófupar eignast fjóra yrðlinga að vori, tvo steggi og tvær læður þá eru þrjú pör klár vorið eftir. Hvert þessara para eignast fjóra yrðlinga. Þá eru tófurnar orðnar 18 o.s.frv. Eftir 10 ár væru tófurnar með þessu áframhaldi orðnar rúmlega 118 þúsund sem væru komnar útaf þessu eina pari ef engin afföll yrðu og allar hefðu parað sig. Vitaskuld er þetta ofmat en gefur þó til kynna hve tófunni fjölgar gríðarlega hratt ef hún er látin í friði. Eitthvað þarf svo þessi sægur að éta.
Ég verð nú að segja að þetta er skrítin umhverfisvernd að mínu mati.
Hún er klár íslenska stelpan sem býr í Búlgaríu. Á Íslandi segist hún vera ofboðslega fræg og þekkt í Búlgaríu og í Búlgaríu segist hún vera heimsfræg á Íslandi. Búlgaría var eitt af alverstu kommúnistaríkjunum í austurblokkinni á sínum tíma. Einungis í Albaníu var fólkið blokkerað meir frá umheiminum. Vafalaust finnst því enn það vera töluvert merkilegt sem gerist í útlandinu, jafnvel þótt það sé bara uppi á litla Íslandi. Íslendingar hafa alltaf verið ofboðslega svag fyrir öllu sem kemur að utan. Það þykir veruleg íþróttafrétt ef íslendingur situr á bekknum hjá liði í annarri eða þriðjudeild, bara ef það gerist í útlandinu. Ég tala nú ekki um ef hann kemur inn á. Því þykir það mjög merkilegt á Íslandi að komast ber eða hálfber í myndablað í útlandinu, jafnvel þótt það sé bara í Búlgaríu. Stelpan spilar á þetta á víxl og nær bara furðugóðum árangri. Þetta er kallað að þekkja sitt heimafólk.
Hitti Jóa og Gauta við brúna í morgun og við tókum góðan 20 km hring. Flott veður.
laugardagur, desember 12, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli