Þegar maður heyrir í hádegisfréttum að flugvélinni sem átti að fara til Ísafjarðar hafi verið snúið frá vegna veður þá rifjast upp eitt og annað frá því í denn tíð þegar verið va rað komast heim eða að heiman í kringum jólafrí. Það var ekki alltaf fyrirhafnarlaust. Í fyrsta sinn sem ég fór í skóla utan sveitar þá var það í Stykkshólm. Ég komst vandræðalaust heim í jólafrí með ákveðnum selflutningum . Þegar áramótin voru liðin þá þurfti að koma gripnum í vegn fyrir Breiðafjarðarferjuna Baldur á nýjan leik. Það var ekki auðvelt því allar heiðar voru kolófærar. Þá voru vegir ekki ruddir daglega heldur einu sinni til tvisvar í viku eftir því hvernig verkast vildi. Því fór pabbi með mig fótgangandi inn yfir Sandsheiði inn á Barðaströnd. Mig minnir að það hafi verið á þrettándanum. Ég mældi leiðina í fyrrasumar og hún er akkúrat 15 km inn að Holti með um 500 metra hækkun. Ég hafði ekki farið Sandsheiði síðan þarna í janúar 1967. Ferðin gekk í sjálfu sér vel, veðrið var ágætt og göngufæri líka. Við gistum svo inn á Barðaströnd og pabbi fót fótgangandi til baka daginn eftir.
Öðru skipti man ég eftir þegar hafði verið ófært að sunnan nokkra daga og að lokum gaf að fljúga daginn fyrir Þorláksmessu. Þá var ollu tjaldað sem til var og þrjár flugvélar flugu vestur á Patreksfjörð þennan morgun. Veðrið va rsvo sem ekkert sérstakt því þær þurftu að hringsóla yfir Patreksfirðinum í ein þrjú kortér áður en möguleiki var á að lenda. Þá flugu þær út með firðinum að norðanverðu því þar var bjartara. Síðan þegar komið var til móts við flugvöllinn þá var þverbeygt inn í sortann og svo skelltu þær sér niður á völlinn. Þeir sem biðu farþeganna sáu ekkert til vélanna fyrr en þær runnu fram hjá flugvallarskýlinu eftir að hafa lent.
Eitt skipti kom Inga systir vestur daginn fyrir gamlársdag og ætlaði að vera heima yfir áramótin. Hún þurfti að bíða í þrjár vikur eftir því að flugfært yrði suður með tilheyrandi vandræðum.
Varðskipin voru þrautalendingin þegar gaf ekki fyrir flug. Það kom nokkuð oft fyrir að skólafólk og aðrir sem þurftu að komast á milli fóru vestur með varðskipi fyrir jólin eða þau smöluðu firðina eftir hátíðarnar þegar illa leit út með flug. Það voru ekki alltaf skemmtilegar ferðir að veltast með varðskipi eina tólf tíma drullusjóveikur og ræfilslegur. Eitt skipti komst ég vestur á Þorláksmessukvöld eftir varðskipsferð að sunnan og annað skipti þurfti ég að bíða í viku á Patró eftir næsta varðskipi þar sem ég missti af þvi fyrra.
Tvisvar sinnum man ég eftir að rafmagnið fór yfir jólin. Í annað skiptið bilaði ljósavélin og það var búið við kertaljós og gaseldavél fram yfir nýár. Í hitt skiptið fór rafmagnið á aðfangadag 1974 þegar nýbúið var að leggja raflínuna um sveitirnar. Línurnar slitnuðu í vitlausu veðri og rafmagn kom ekki aftur á fyrr en á gamlársdag. Þetta hafðist en mest va rum vert að geta haldi hlýju á bænum. Þá kom gamla olíufýringin í góðar þarfir.
Svona var þetta og þótti sjálfsagt. Þetta var eðlilegur partur af tilverunni að geta lent í ströggli við að komast frá eða til í jólafrí. Aldrei datt manni þó í hug á þessum árum að vera annarsstaðar yfir jólin en fyrir vestan.
Óska öllum þeim sem eiga leið um síðuna gleðilegra jóla.
fimmtudagur, desember 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli