Norski hlaupavefurinn birti í dag yfirlit um besta árangur ársins á Norðurlöndum í 100 km hlaupi hjá konum og körlum. Sigurjón Sigurbjörnsson er þar í 18 sæti eftir sitt góða hlaup í júní en rétt um 30 karlar á Norðurlöndum hlaupa 100 km á undir níu klst, en það er lágmarksárangur sem þarf að ná til að komast inn á þennan lista. Það sýnir okkur að hann er í fremstu röð á Norðurlöndum í þessari grein ultrahlaupa. Engin íslensk kona hljóp 100 km á árinu en árangur Elínar Reed í fyrra hefði fleytt henni í 10. sæti eða svo. Það gefur okkur bara hugmynd um hvað hún er sterk. Það er vonandi að fleiri taki á sig rögg, hoppi út í djúpu laugina og fari að takast á við ultrahlaup af þessum toga.
Nýlega voru knattspyrnumaður og knattspyrnukona Íslands á árinu 2009 valin. Mér finnst valið á Eið Smára sem knattspyrnumaður ársins vera vægast sagt diskútabelt. Þótt hann hafi verið á mála hjá besta liði Evrópu fyrri helming ársins þá er það ekki það sama og að hann hafi spilað stóra rullu í liðinu. Fréttaflutningur hér heima var reyndar eins og að hann hefði allt að því unnið meistaradeildina fyrir Barcelona upp á eigin spýtur. Allir sem fylgdust eitthvað með vissu að staðreyndin var önnur. Síðan átti hann að verða hreinn bjargvættur fyrir Monaco þegar hann skipti um lið. Nú kemst hann ekki einu sinni í liðið. Að skjóta þrisvar sinnum á mark í átta leikjum er ekki gott fyrir mann sem á að skora mörk. Vælið um að franska knattspyrnan sé eitthvað öðruvísi en annar fótbolti er náttúrulega út í hött. Maður sér íslenska stráka koma frá Belgíu og spila í Englandi frá fyrsta leik eins og þeir hafi aldrei gert annað. Það er greinilegt að það er eitthvað mikið að hjá honum. Að taka á móti verðlaunum sem besti knattspyrnumaður ársins í þessari stöðu hlýtur að vera meir en lítið vandræðalegt ef menn bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér.
Ég fletti bókinni Útkall í dag. Hún fjallar einvörðungu um björgunarafrekin við Látrabjarg og Hafnarmúla í Rauðasandshreppi. Fólkið sem þarna kom við sögu á það sannarlega skilið að þessi saga sé sögð í greiðargóðu máli eins og Óttari er von og vísa. Um þessa atburði var afar lítið talað heima, sérstaklega þó um björgunina við Hafnarmúlann. Þar dó rúmur tugur Breta og hefur það vitaskuld legið þungt á þeim sem að málinu komu. Annað kemur einnig fram sem ég vissi ekki en það var hve þessir atburðir hvíldu þungt á mörgum og sumir jöfnuðu sig aldrei. Sumir gátu aldrei horft á myndina um Björgunarafrekið við Látrabjarg því það rifjaði upp svo erfiðar minningar. Hafliði í Neðri Tungu höfuðkúpubrotnaði þegar hann fékk klakann í höfuðið undir bjarginu. Það var nokkur dæld í höfuðið á honum allar götur upp frá því eftir því sem segir í bókinni. Það var bara látið gróa því annað var ekki í stöðunni en hann bar þessa aldrei bætur eins og gefur að skilja. Það er óhætt að mæla með þessari bók sem fróðlegri lesningu um mikil afrek sem fólkið í Rauðasandshreppi vann fyrir rúmum 60 árum.
Ég ætlaði að skreppa austur að Selfossi í kvöld og lesa upp úr bókinni minni í bókakaffinu hjá Bjarna Harðarsyni. Því miður þurfti ég að aflýsa því en það var nauðsynlegt að fara á íbúafund út á Álftanes þar sem fjárhagsstaða sveitarfélagsins var rædd.
Það hafa ýmsir spurt mig að því hvort ég muni árita bókina einhversstaðar. Nú er það ákveðið að ég geri það í bókabúð Máls og Menningar á Laugaveginum milli 14:00 og 16:00 á sunnudaginn kemur. Ég á eftir að ná í Eddu Heiðrúnu en hún var búin að hafa góð orð um að leggja mér lið ef út í þetta væri farið.
fimmtudagur, desember 17, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli