föstudagur, desember 18, 2009

Við mættum nokkur niður í Sportís í Garðabæ seinni partinn í dag. Það voru þau ágætu hjón Þórólfur og Eva, Sibba, Margrét Elíasdóttir, Birgir Sævarsson, Birkir Marteinsson, Sigurður Hansen og undirritaður. Tilefnið var að taka á móti fyrstu posion af hlaupafatnaði frá Asics umboðinu. Það valdi nokkra hlaupara sem það ætlar að styrkja með vetrarhlaupafatnaði, sumarhlaupafatnaði og hlaupaskóm í þeirri von að hópurinn verði umboðinu og hinu ágæta Asics nafni til sóma og framdráttar. Það er heiður að því að vera valinn í svona hóp því þarna er samankomið harðsnúið lið og mjög myndarlega gert af umboðinu. Við myndum lið á hlaup.com og einnig mun hópurinn mynda lið í hlaupum þar sem boðið er upp á það undir merkjum Asics. Þegar var verið að spjalla saman töldu þeir Asics menn öll tormerki á því að þeir gætu neitt hlaupið sem heitið gæti. Upp úr því fóru menn að bera saman sinn fyrsta tíma í 10 km. Þar komu tölur fram sem hefðu ekki bent til þess að viðkomandi ætti eftir að standa uppi sem afreksmaður í götuhlaupum nokkrum árum síðar. Það sannast á þessu að maðurinn er sín mesta hindrun. Ef maður telur sér trú um að eitt eða annað sé ómögulegt þá tekst það alveg örugglega ekki. Ef látið er reyna á hvort eitthvað sé hægt þá er þó alla vega möguleiki á að það takist.

Ég er búinn að fá glærurnar frá ráðstefnunni í Frankfurt í síðustu viku. Það er fróðlegt að fara yfir þær og rifja erindin upp. Það eru ótrúlegir hlutir sem hafa verið að gerast í almenningshlaupum í Evrópu á síðustu árum. Þetta hefur sprottið upp úr grasrótinni án stuðning eða atbeina frjálsíþróttasambandanna og sumstaðar án aðkomu fjölmiðla. Okkar land er að mestu leyti dæmi um hið síðarnefnda. Í ár þá sóttu 125 þúsund manns um að komast í London maraþon í þessu 25 þúsund pláss sem voru laus. Þetta gerðist á einum sólarhring. Þetta er náttúrulega makalaust. Fyrir 20 árum tóku um 5.000 manns árlega þátt í Boston maraþoni. Nú eru þeir um 25.000. Reiknað er með að það séu á bilinu 450.000 og 500.000 manns sem hleypur maraþon í evrópu á hverju ári. Fyrir 15 árum síðan voru þeir rúmlega 100.000. Í kringum 1980 voru þeir kannski um 10.000 talsins. Á 10 árum hefur fjöldi skokkara í Hollandi vaxið úr því að vera um 8% þjóðarinanr í um 18%. Í Belgíu hefur fjöldi skokkara vaxið úr því að vera 3% þjóðarinnar á 10 árum í ca 10%. Af einstökum viðburðum sem eru skipulagðir undir sama hatti þá er DHL boðhlaupið í Danmörku fjölmennasti hlaupaviðburðurinn í Evrópu en um 100.000 manns taka þátt í honum. Það er margt fleira athyglisvert í þessum glærum sem verður kannski farið yfir síðar.

Ég sé á hlaup.is að kona í Vestmannaeyjum ætlar að leggja í a hlaupa 100 km á bretti á morgun. Það er flott að hlauparar eru tilbúnir í að kasta sér út í djúpu laugina. Vonandi gengur þetta allt upp hjá henni. Fréttir í Vestmannaeyjum hefðu hins vegar aðeins lagst í rannsóknavinnu því tvær íslenskar konur hafa hlaupið 100 km utandyra. Það eru þær Elín Reed og Bryndís Baldursdóttir (Bibba). Engin íslensk kona hefur hins vegar hlaupið 100 km á bretti svo kannski verður brotið blað í hlaupasögunni á morgun.

Ég árita bókina í Hagkaup í Smáralindinni í dag milli 16:00 og 18:00 og svo er það Mál og Menning á Laugaveginum á morgun milli kl. 14:00 og 16:00. Þá verðum við Edda Heiðrún saman að árita. Það verður ánægjulegt.

Engin ummæli: