sunnudagur, desember 06, 2009

Það var fínn dagur í gær. Vitaskuld er ákveðið stress á ferðinni þegar tekist er á við hluti sem maður hefur ekki reynt áður. Ég hafði mestar áhyggjur af því að fá í bakið eða eitthvað álíka. það er allt annað álag á líkamann þegar hlaupið er í sömu stellingu í klukkutímann saman heldur en þegar hlaupið er utan dyra. Ef maður fær svona álagsmeiðsli þá fer maður að hlaupa skakkur og þá er stutt í ákveðinn vítahring. Ég hafði lengst hlaupið 30 km á bretti þar til nú þannig að þetta var að hluta til ferð inn í óvissuna. En það er nú bara þannig að það er ekki allt fyrirséð. Það er partur af þessu.
Ég var mættur niður í Laugar með nesti og gamla skó upp úr kl. 8:00. Það þurfti að græja eitt og annað en ég hafði gert ráð fyrir að leggja af stað kl. 9:00. Það stóðst allt og ég var kominn af stað á tilsettum tíma. Ég lagði út með hraðann 11 sem er rétt undir 5:30 á km. Það er vandinn í svona hlaupum að finna þetta jafnvægi sem verður að vera fyrir hendi, ekki of hratt og ekki of hægt. Reyndar var þetta ekki kapphlaup heldur félagshlaup. Því var ég ekkert naumur á að stoppa stund og spjalla ef svo bar undir.
Það kemur vel í ljós í svona hlaupi hvað allt er afstætt. Mér hafði fram að þessu fundist langt að hlaupa 30 km á bretti. Nú var það einungis 1/3 af heildarvegalengdinni svo það var bara stutt og tók fljótt af. Ég lagði hlaupið upp eins og 100 km hlaupið í Óðinsvéum sem við Halldór hlupum á sínum tíma. Þar voru tvær drykkjarstöðvar á 5 og 10 km. Ég setti hlaupið upp á sama hátt. Stoppaði smástund á 5 km og fékk mér vel að drekka. Sama á 10 km. Þetta brýtur hlaupið upp og gerir áfangana viðráðanlegri. Ég hafði þrjú box af Herbalife próteini með og drakk skammtinn á 3ja tíma fresti. Ég var með nóg af öðru nesti en borðaði ekkert af því því próteindrykkurinn dugði eins og ég vissi að hann myndi gera.
Trausti Valdimarsson og Guðjón sonur hans komu upp úr hádegi og hlupu með mér seinni part dagsins. Guðjón hljóp 25 km en Trausti skrefaði 50 km. Það var fínt að hafa þá við hliðina á aér og braut daginn vel upp. Edda Heiðrún kom í heimsókn eftir hádegið og færði mér flotta blómaskreytingu. Allmargir hlauparar komu og heilsuðu upp á mig yfir daginn. Það var bara gaman að því og stytti daginn.
Ég hljóp á hraðanum 11 upp í 50 km. Þá jók ég hraðann aðeins og hélt því upp í 70 km. Þá fór sinadráttur að gera vart við sig í kálfunum og hamraði hann þar stöðugt sem eftir var. Þrátt fyrir að ég dældi í mig steinefnatöflum þá bara dugði það ekki til að berja hann niður. Aðstæður fyrir langhlaup eru ekki beint góðar inni í svona æfingasal. Það er örugglega 22-24°C og algert logn. Aldrei svali eða gola. Svitinn streymir stöðugt út og því þarf maður að drekka gríðarlega. Ég var með allan vökva með á flöskum svo ég veit alveg hvað ég drakk. Ég drakk yfir 10 lítra af vökva á meðan á þessu stóð. Það skiptist á eftirfarandi hátt: 4 lítrar af vatni, 3 lítrar af Coke, 1 líter af Sprite, 2 lítrar af djús í Próteindrykknum og 1/2 liter af Malti. Það segir sig sjálft að það er gríðarlegt álag á líkamann að renna þessu vökvamagni í gegnum sig eða sem svarar 1 líter á klukkutíma. Útskolun á steinefnum er eftir því. Eftir hlaupið var ég heldur léttari en þegar ég lagði af stað. Ég fékk aðeins aðkenningu í magann á milli 60 og 70 km en svo lagaðist það. Eftir 70 km þá hægði ég aðeins á mér til að bregðast við krampanum í kálfunum. Ég vildi ekki eiga á hættu að læsast fastur svo ég valdi hraða þar sem ég rúllaði létt áfram. Það er alltaf fínt í hlaupi eins og þessu þegar maður sér til enda þess. Því var tilfinningin góð þegar farið var ínn í síðustu 10 km. Þá hleyp ég í huganum frá Eiðistorgi austur hefðbundna leið í gengum miðbæinn, inn að Laugum og svo gegnum húsdýragarðinn, framhjá Glæsibæ og svo heim.
Ég var fínn þegar hlaupinu var lokið. Hvergi skafsár eða blaðra, hvergi eymsli eða stirðleiki. Zinkpastað er töfraefni í þessu samhengi. Krampinn hvarf um leið og hlaupið var búið svo það voru engin vandræði af honum. Það hefði ekki verið neitt mál að halda áfram ef það hefði verið í spilunum. Hlaupinu lauk ég á um 10 klst og 20 mín.
Það var ekki til setunnar boðið þegar hlaupinu var lokið. Ég skrapp heim og fékk mér smá bita en svo ók ég suður í Kópavog. Það var Vestfirska forlagið með bókakynningu. Ég las smá kafla upp úr bókinni "Að sigra sjálfan sig". Þarna var upplestur út fleiri bókum sem kom út hjá því vestfirska í haust en einnig steig Ólafur Helgi sýslumaður á Selfossi á svið og söng Rolling Stones lög með hljómsveitinni Granít frá Vík í Mýrdal.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju Gunnlaugur, frábært framtak!

Kv. Eva og co.

Nafnlaus sagði...

Hamingjuóskir frá okkur Úlfari: ef þeta er ekki að sigra sjálfan sig, vitum við ekki hvað það er!

Nafnlaus sagði...

Þetta var eins og þér einum er lagið, ekkért mál.
Til hamingju.
kv Jón Kr.Har.

Johann G. Sigurdsson sagði...

Sæll Gunnlaugur til hamingju frábært framlag. Ein spurning verður þú einhverstaðar með áritanir á bókinni þinni?

Kv.

Jóhann

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með 100 km á bretti. Afrek þín eru aðdáunarverð og ekki slæmt að eiga kost á að lesa um þau í bók. Ætla að næla mér í eintak. Kv. Linda

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir godar kvedjur. Laet vita med aritanir.
Mbk
Gunnl.

Nafnlaus sagði...

Innilegar til hamingju með þetta frábæra framtak Gunnlaugur, bæði með hlaupið og svo bókina. Varðandi drykki, ekki það ég þykist vita mikið, en er H3O pro frá Herbalife ekki líka eitthvað sem er kjörið til að fá sér í svona verkefnum og vökvatapi.
Bestu kveðjur
Þorkell Logi

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þennann frábæra árangur. Og ekki síður er málefnið frábært. Skilaðu kveðju Frænka

Nafnlaus sagði...

Ég notaði bæði H3O frá Herbalife og Leppin út í vatnið. Mér fannst Herbalife drykkurinn mun betri. Hann er miklu frískari á bragðið heldur en Leppin á svona löngum vegalengdum og einnig held ég að hann sé með meira steinefnainnihald.

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt hjá þér Gunnlaugur! Við Örn hefðum hlaupið þér til samlætis ef við hefðum ekki verið upptekin í fjallgöngu eins og vanalega... meiriháttar flott afrek... fyrir mér væru 30 km á bretti þrekraun lífs míns (með 3 x 10 km köflum eins og þú)... þetta gefur mér innblástur að prófa það einn daginn :-) Kv Bára Ketils