Það er frekar merkilegt með mann að á veturna í kulda og leiðindum heldur maður uppi stífasta aga í æfingum en á sumrin þegar allt leikur í lindi hvað veðrið varðar er letin oft yfirþyrmandi. Ég fór þó út í kvöld í hinu blíðasta veðri og tók góða æfingu. Finn mun á mér hvað hraðaálagið undanfarnar vikur hefur gert mér gott. Ég var spurður að því um daginn hvað ætti að gera til að bæta tímann í 10 km og hálfu maraþoni. Nú er ég svo sem ekki sá hraðasti í þessum hlaupum en eitthvað get ég sagt. Nú veit ég ekki hvaða tíma spyrjandi á í þessum hlaupum eða hve vanur fyrirspyrjandi er að hlaupa en það gildir það sama með þessi hlaup eins og í öðrum að þeim mun meir sem lagt er inn þeim meir er hægt að taka út. Undirbúningur undir þessi hlaup er nokkuð mismunandi. Hraðaæfingar eru nauðsynlegar fyrir 10 km hlaup og þær koma vitaskuld að miklu gagni fyrir hálfmaraþon sömuleiðis. Pýramídaæfingar einu sinni í viku eru mjög gagnlegar (200 m á hraða - 90 sek skokk - 400 m á hraða - 90 sek skokk - 600 m á hraða - 90 sek skokk - 800 m á hraða - 90 sek skokk - 1000 m á hraða - 90 sek skokk - 800 m á hraða - 90 sek skokk - 600 m á hraða - 90 sek skokk - 400 m á hraða - 90 sek skokk - 200 m á hraða). Einnig er mjög gott að taka ca 1 km hraða æfingar x 3 með stuttri hvíld á milli. Fyrir hálfmaraþon eru álíka hraðaæfingar mjög gagnlegar en einnig þarf að hlaupa 15 - 20 km nokkrum sinnum til að venja sig við að hlaupa vegalengdina. Það eru til ýmis prógröm á netinu sem eru gerðar fyrir mismunandi hröð markmið og væri hægt að benda fyrirspyrjanda á þau ef áhugi er fyrir hendi. Ekki má gleyma kílóunum en eftir því sem þeim fækkar upp að vissu marki þá verður léttara að hlaupa og hraðinn eykst. Þannig haldast í hendur alúð við æfingar, ástand líkamans og árangur í hlaupum.
Fréttamenn láta ekki að sér hæða. Í síðustu viku var mikil umræða um óeiningu innan stjórnar Öryrkjabandalagsins. Nú veit ég ekkert um þau mál eða innri málefni sambandsins en í stjórninni sitja menn sem sögðust ætla að kæra formanninn. Hvaða frétt er það þegar einhver segist ætla að kæra einhvern? Ég sé ekkert fréttnæmt í því. Það lyktar af frétt ef kæra er lögð fram en fyrst og fremst er það frétt ef kemur í ljós að kæran sé á rökum reist og leiðir til áminningar eða annarar niðurstöðu. Fjölmiðlar kokgleyptu þetta og það var fimbulfambað fram og til baka um hina væntanlegu kæru. Í Fréttablaðinu stóð í fyrirsögn "Formaður Öryrkjabandalagsins kærður" en í fréttinni stóð að til stæði að kæra formanninn. Ósamræmi á milli fyrirsagnar og fréttar stakk í augun. Ég lenti einu sinni í þvi þegar ég var fyrir norðan að bændurnir á Hóli og Höfða við Raufarhöfn sögðust ætla að kæra mig og fleiri fyrir hvalþjófnað. Fréttamenn sumra fjölmiðla veltu sér upp úr þessu en kæran var aldrei lögð fram því það var ekkert til að kæra. Tilgangur þess að segjast ætla að kæra var eingöngu aðferð til mannorðsmeiðingar. Fjölmiðlamenn ættu að hugsa aðeins um þetta áður en hlaupið er upp til handa og fóta út af svona aðdróttunum og bíða eftir að handfastar aðgerðir liggja fyrir og helst að úrskurður hafi fallið.
Hjörtur Skagamaður var í dag dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að hafa að sögn hreytt í Guðmund Mete Keflvíking "Tyrkjadjöfull, drullaðu þér heim" en Guðmundur Mete var dæmdur í eins leiks bann fyrir að hafa að sögn hótað að beinbrjóta og drepa Hjört og kallað mömmu hans hóru. Þá veit maður hvað er alvarlegra af þessu tvennu. Hvað ætli hefði verið gert ef einhver leikmaður hefði verið kallaður Danadj....., Færeyingsdj....., Svíadj..... eða Íslendingsdj.....? Ætli hefði verið deplað auga. Keflvíkingar kærðu Hjört fyrir kynþáttafordóma vegna ummæla hans. Að mínu viti eru Tyrkir ekki kynþáttur frekar en Færeyingar eða Íslendingar.
Athyglisverð grein sem Kristófer Kristinsson leiðsögumaður skrifaði í Moggann í morgun. Hann leggur til að það fari fram umhverfismat á afleiðingum þess ef kæmu ein milljón ferðamenn til Íslands og vill í framhaldi af þessu setja hámark á þann fjölda ferðamanna sem fái að koma til landsins á ári hverju. Mér finnst þetta allrar athygli vert. Í Danmörku svo dæmi sé tekið fara ferðamenn fyrst og fremst í skemmtigarðana, Zoologisk have, á Strikið og á Löngulínu að skoða litlu hafmeyna. Á Íslandi skoða menn fyrst og fremst náttúruna. Á þessu er grundvallar munur. Ég veit um lönd sem liggja nálægt Nepal þar sem aðgangur að landinu er takmarkaður og ferðamenn þurfa að greiða aðgangseyri að landinu. Það er nauðsynlegt að ræða um hlutina og menn eiga að vera óhræddir við umræðuna.
miðvikudagur, ágúst 02, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli