Kom vestan frá Grundarfirði í gærkvöldi. Við fórum þangað þrjú á laugardagsmorgun með stelpurnar í 4. flokki Víkings sem hafa verið að keppa í 7 manna fótbolta í sumar. Á Grundarfirði fór fram úrslitakeppni bestu liða landsins í þessum aldurflokki. Víkingur, Grundarfjörður, Sindri, Tindastóll og KS/Leiftur spiluðu þarna til úrslita. Þetta var fín helgi, fyrri daginn var veður eins og best gat verið en aðeins fór að vinda á sunnudaginn. Aðstæður voru fínar hjá Grundfirðingum, góður völlur og allar leiðir stuttar. Í höfninni lá skemmtiferðaskip þegar við komum sem lét úr höfn skömmu síðar. Gott að slík skip komi annarsstaðar en í stærstu hafnir landsins.
Víkingsstelpurnar stóðu sig vel, utan vallar sem innan. Þær enduði í öðru sæti, unnu þrjá leiki örugglega en töpuðu gegn Sindra í jöfnum og spennandi leik. Sindri endaði því sem íslandsmeistari. Cardaclia hefur byggt upp vel agað og skipulagt lið á Hornafirði sem nær verðskulduðum árangri. Það er gaman að fara með þessum krökkum þegar allt gengur vel og þau eru til fyrirmyndar í alla staði.
Það er orðið breytt sem áður var þegar engu foreldri datt í hug að fara með í svona ferðir. Nú er það víðast hvar alger forsenda fyrir svona ferðum að foreldrar fari með þjálfaranum til aðstoðar. Þó er það ekki algilt. Hjá einu liðinu fyrir vestan var ungur strákur skilinn eftir einn með liðið seinni daginn en hann var ca tveimur árum eldri en stelpurnar sem hann var með. Strákurinn stóð sig vel en honum var bara fengið verkefni sem erfitt er að láta ungling standa undir. Síðan gerist það að það meiðist ein stelpan úr hópnum hans í leik og endaði með að hún var flutt á sjúkrahúsið á Akranesi. Það er ekki hægt að legga það á ungling að standa einn þegar slíkt kemur upp á. Því ætti það að vera meginregal í svona ferðum að foreldrar séu með þjálfara til halds og trausts, ekki síst þegar þjálfarinn er ungur að árum.
Hitti gamla vinkonu að vestan á Grundarfirði. Hún var nýflutt til bæjarins frá Bíldudal. Ástæðan fyrir flutningnum var að yngsti sonur hennar er að klára grunnskóla og sökum fámennis á Bíldudal treysti hún sér ekki til að hafa strákinn þar í skólanum ýmissa lhuta vegna. Þegar eru einungis um 20 börn eftir í skólanum eða eitt til þrjú í árgangi þá er staðan orðin erfið. Félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur en sá námslegi.
mánudagur, ágúst 28, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli