fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Ég hélt satt að segja að aflátsbréf frá kónginum eða páfanum tilheyrðu liðinni tíð. En svo er víst ekki. Þeir sem hafa skrensað á hinum þrönga vegi dyggðanna geta fengið uppreisn æru frá forsetanum. Enda þótt einstaklingurinn hafi tekið út refsingu fyrir unnið afbrot þá er enn blettur á sakavottorðinu. Uppreisn æru þýðir ekki að sá blettur verði formlega strokaður út. Hvað þýðir þetta þá? Til að bæta gráu ofan á svart þá hefur einhver blaðamaðurinn á Fréttablaðinu ekki kunnað íslenskt mál betur en svo að hann talar um Johnsen hafi fengið uppreist æru. Svo hefur hver eftir hinum. Mogginn talar um uppreist æru í morgun. Hvar eru prófarkalesararnir? Í íslensku máli er alltaf talað um að einhver fái uppreisn æru. Það hef ég alltaf heyrt og lesið alla vega. Æran er ekki reist upp heldur rís hún upp að nýju eftir að eitthvað hefur komið fram svo sem nýjar upplýsingar eða sannleikur málsins.

Það var félagsfundur í UMFR36 í gærkvöldi. Fundarefnið var 6 tímahlaupið þann 16. september n.k. Það var vel mætt af þeim sem áttu heimangengt. Það þarf að fara yfir ýmsa hluti sem þurfa að vera klárir áður en lagt er í hann. Mæling brautar, næring, númer, klukka, starfsmenn, tilkynningar og að síðustu verðlaun og annað sem þátttakendur fá. Menn skiptu með sér verkum og það kemur vel í ljós að margar hendur vinna verkin létt. Félagi Jói ætlar að athuga með húfur þar sem hver þátttakandi í hlaupinu verður sjálfkrafa félagi í því ágæta ungmennafélagi UMFR36. Þar sem þetta verður fyrsta hlaup þessarar tegundar hérlendis þá er rétt að hafa smá viðbúnað og gera daginn eftirminnilegann fyrir þá sem taka þátt í hlaupinu. Það verður hlaupið á hringnum í Nauthólsvíkinni þar sem Pétur hélt afmælishlaupið sitt. Fundarmenn höfðu heyrt að einrjum óaði við að hlaupa svona lengi á ekki lengri hring. Það er einmitt lóðið. Löng hlaup krefjast einbeitningar og öðruvísi hugsunar en skemmri hlaup. Tímahlaup eru þeim kostum búið að það ræður hver sínum hraða sjálfur og fer þá vegalengd sem honum hentar á tilteknum tíma. Svona hlaup eru því kjörinn vettvangur til að æfa sig fyrir þá sem hyggja á að takast á við enn lengri hlaup í framtíðinni. Það verður einhver reitingur sem tekur þátt í hlaupinu. Það dregur eitthvað úr þátttökuað margir góðir maraþonhlauparar ætla að taka þátt í Berlínarþoninu smeverður viku síðar. Ég hef ekki miklar áhyggjur af fjöldanum. Aðalatriðið er að brjóta ísinn og þá byggist þetta upp með tímanum eins og annað. Ég sé á norrænum vefsíðum að hlaup af þessum toga njóta sívaxandi vinsælda í nálægum löndum. Nýlega tóku 78 þátt í 6 tíma hlaupi á Eidsvall rétt utan við Osló og var það mikil aukning frá fyrra ári. Svona hlaup var haldið í fyrsta sinn á Borgundarhólmi í maí og í Eistlandi nú í ágúst. Þetta stefnir í ákveðna átt, hærra upp og lengra fram.

Félagi Jörundur bregst ekki frekar en fyrri daginn. Hann mætti með gjöf til húsráðenda, sjálft Draumalandið. Til að fyrirbyggja ófyrirsjáanlega atburði taldi hann öruggara að taka sjálfur plastið utan af bókinni í votta viðurvist. Þetta er vel þegin gjöf og verður lesin af áhuga. Ég hafi ekki komið því í verk að kaupa bókina en hafði hug á því þannig að þetta smellpassaði.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eru menn að hugsa um að hafa eitthvað snakk til að borða við Nauthól eða verður hver að sjá um sig ?