þriðjudagur, mars 20, 2007

Fór út í gærkvöldi og tók 16 km, Poweratehringinn og Hattinn. Það er góð tilfinning að skokka svona á kvöldin, svolítið kalt og færðin gæti verið betri en annars tóm ánægja.

Þegar maður hleypur yfir í Elliðaárdalinn fer maður í gegnum undirgöng. Fram til í fyrra voru þau yfirleitt útkrössuð en nú sést greinilega að borgin er farin að gera eitthvað í þessu vandamáli. Í hvert skipti sem maður sér krass er greinilega mætt á staðinn og það þvegið burt. Þetta er langtímaverkefni seme r ekki eifalt en mikilvægast af öllu er að láta börnin sem eru að alast upp ekki hafa þennan ófögnuð fyrir augunum þannig að þau fái það á tilfinninguna að það sé sjálfsagður hlutur að ganga á annarra manna eigur og krassa á þær.

Fékk tvær bækur á dögunum. Önnur heitir "40% frí" og fjallar hún um sænska kerfið eða hið svokallaða sænska velferðarmódel eins og það lítur út í dag. Nafn bókarinnar er dregið af þeim hluta launanna sem einstaklingar halda eftir af launum sínum. Ríkið hirðir 60% á einn eða annan hátt. Það er til dæmis skemmtileg uppsetning á því hvert peningarnir enda ef fólk vill fá iðnaðarmann til að mála hjá sér húsið.

Það lítur í grófum dráttum útá þessa leið:
Bróttólaun 28.550
Launatengd gjöld - 7.035
Tekjuskattur -11.515
Það sem launamaður heldur eftir 10.000

Reikningur iðaðarmannsins 10.000
Virðisaukask. - 2.000
Launatengd gjöld - 1.888
Tekjuskattur - 3.271
Óbeinir skattar - 645
Laun málarans 2.196 krónur eða 8% af þeim launum sem launþeginn þurfti að vinna fyrir til að geta borgað iðnaðarmanninum reikninginn. það eru ýmsir sem sjá þetta fyrir sér sem draumalandið. Fyrst og fremst eru það þó þeir sem telja að þeir geti náð í hluta af þeim sköttum sem ríkið tekur en varla aðrir.

Síðan fékk ég Þjóðmál sem er besta þjóðfélagstímarit á markaði hérlendis sem stendur. Í því eru ætíð athyglisverðar greinar um hina ýmsu fleti samfélagsumræðunnar. Í þessu tímariti er meðal annars athyglisverð grein sem heitir "Er kynjunum raunverulega mismunað ávinnumarkaði?" Í greininni er farið gagnrýnum augum yfir þá umræðu sem m.a. feministar hafa haldið ákaft á lofti á undanförnum árum og fjallar um um meintan launamun kynjanna sem hefur verið afar fyrirferðarmikill hérlendis undanfarið. greinarhöfundur veltir í lok greinarinnar því fyrir sér hvort feministar hafi í raun unnið konum skaða með málflutningi sínum m.a. með því að láta að því liggja að konur séu á einhvern hátt veikari en karlmenn með því að biðja um hækjur frá ríkinu konum til handa. Það er eitt með mörgu athyglisvert við þessa grein að greinarhöfundur er kona.

Engin ummæli: