Maður á ekki að hafa heilsu fólks í flimtingum. Það er aldrei að vita hvenær eldingin slær mann sjálfan. Það kom á daginn að það var ekki einfalt sykurfall sem hrjáði félagsmálaráðherra síðustu viku þegar hann þurfti að hverfa úr ræðustóli á Alþingi eða snöggur svimi vegna texta frumvarpsins, heldur eitthvað sem þarfnaðist frekari skoðunar. Ég óska Magnúsi góðs bata og vona að hann gangi til verka fullur starfsorku hér eftir sem hingað til.
Aðeins meira um jafnréttismálin. Heyrði athyglisverðan þátt í morgunútvarpi Rúv í gærorgun þar sem var verið að fara yfir reynslu enskra af viðlíka máli. Það kom nefnilega á daginn að það var rétt sem menn hafa leitt líkur að að laun lækkuðu þegar jafna skyldi laun. Það voru ekki bara laun karlanna heldur einnig þeirra kvenna sem höfðu náð jafnstöðu við karlmenn. Er þetta það sem við viljum? Jafnstaða er gott markmið en það skiptir máli hvar á skalanum hún er.
Það var lítil frétt í blöðunum fyrir helgi þess efnis að unglingar gætu farið í framhaldsskóla eftir 9. bekk grunnskóla. Gott mál hélt maður og að þetta væri bara eðlilegur hlutur. Viti menn. Í Mogganum um helgina birtist löng grein eftir skólastjóra sem fann þessu allt til foráttu. Lögin segðu að hans mati að börn og unglingar skyldu vera 10 ár í grunnskólanum hvort sem þau þyrftu á því að halda eða ekki. Síðan heyrði ég viðtak við konu í eftirmiðdagsútvarpinu í gær sem var vægast sagt afar mikið á móti þessu út frá sjónarhóli kennara. I grunnskólalögum segir að börn eigi að fá kennslu við hæfi. Hingað til hefur þesu ákvæði fyrst og fremst verið beint að börnum sem standa heldur höllum fæti. Hin sem betur eru á vegi stödd hafa frekar séð um sig sjálf. Mörgum hefur þótt að bráðgerum börnum sé ekki sinnt sem skyldi og þau fái ekki næg tækifæri til að takast á við verkefni við hæfi innan grunnskólans. Í tengslum við þetta var m.a. verkefnið „Bráðger börn“ stofnað sem átti að hlú að þessum krökkum. Ef eitthvað er sjálfsagt þá er það að börn sem eru til þess fær, bæði andlega og þekkingarlega, eiga að fá tækifæri til að takast á við námsefni framhaldsskólans enda þótt þau hafi ekki setið 10 ár í grunnskóla. Kunningi minn sem býr í Brussel á sextán ára strák sem er í alþjóðlegum skóla þar í borg. Hann reiknar með að koma heim haustið 2008. Þá getur sonur hans tekið eitt ár í Hamrahlíð og verið þannig búinn að ljúka stúdentsprófi 18 ára gamall og hefur möguleika á háskólanámi víða um heim. Skyldi hann hafa borið skaða af því að hafa ekki setið 10 ár á grunnskólabekk?
Það er eitt atvik sem ég þarf að naga mig í handarbökin alla æfi yfir að hafa ekki brugðist rétt við. Rétt að það komi hér fram í tengslum við þetta. Ég flutti frá Raufarhöfn árið 1999 og fjölskyldan kom suður um áramótin 1999 - 2000. Yngri strákurinn var þá á 11 ári. Hann hafði verið í samkennslu fyrir norðan með sér ári eldri krökkum sem voru duglegir og ágætir námsmenn. Hann lærði allt sem hinir voru að læra og hafði gaman af og var námfús. Haustið 2000 var fundur í skólanum. Þá segir einn kennarinn að það hafi komið upp vandamál í skólanum á síðasta vetri og það tengist Jóhanni Reyni Gunnlaugssyni. Maður vissi svo sem ekki hvað hafði gerst en vonaði að það væri ekki mjög alvarlegt. Jú, vandamálið var það að hann var kominn svo langt á undan jafnöldrum sínum. Þarna var augnablikið sem ég þagði en átti að bregðast við. Skólinn skilgreindi það sem sagt sem vandamál að strákurinn var kominn á undan jafnöldrum sínum en ekki sem jákvætt verkefni og auðlind. Síðan sá maður þennan vetur að þann var settur í þvinguna og látinn hjakka þar til hin voru búin að ná honum. Þar kom um síðir að við óskuðum eftir því að hann fengi að takast á við verkefni sem hæfðu honum og það tókst um síðir. Hins vegar var með þessum aðferðum slegið verulega á gleðina af því að vera sífellt að takast á við krefjandi verkefni og leysa þau og fá þá önnur ný og enn meira krefjandi. Maður veit það ef maður er í fjallg0öngu að það verður fljótt leiðigjarnt að ganga sífellt upp og niður sama hjallann. Maður fær þá aldrei að sjá hvað er fyrir ofan þann sem liggur enn hærra.
Þessi reynsla fær mig til að taka slíkum viðbrögðum sem maður heyrði við litlu fréttinni um að krakkar úr 9. bekk geti farið í framhaldssskóla með afar miklum fyrirvara.
Fór í Laugar í gær. Tók 8 km með Yasso aðferðinni. Ég hækka mig um 0,2 í hvert sinn sem ég fer í ræktina og er nú kominn á þokkalegan hraða. Þó má betur gera. Það getur verið að það fari eitthvað að hæjgja á en ég skal ekki hætta fyrr en ég er búinn að ná Ívari en hann var um daginn á 15.3.
Fékk bréf frá Kim Rasmussen í morgun vegna 24 tíma hlaupsins á Borgundarhólmi í aí byrjun. Kim er afar góður hlaupari og var m.a. í WSER í hitteðfyrra. Hann hljóp Spartathlon sama ár á 30 klst og stefnir nú á Marathon du Sable í Líbíu (fimm daga eyðimerkurhlaup). Hann fékk ekki vegabréfsáritun þangað í fyrra vegna múhameðsteikninganna.
miðvikudagur, mars 14, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli