sunnudagur, mars 11, 2007

Fór út um kl. 7 í gærmorgun áður en ég hitti Jóa í Fossvoginum. Við snerum við og héldum út á brú. Halldór var hvergi sjáanlegur en Pétur var mættur og sagði sínar farir heldur hægar. hann hafði gleymt að láta innlegg í skó fyrir nokkru og bólgnað illa á hásin. Nú er hann að vinna úr þeim ósköpum og fer sínar eigin leiðir á sínum hraða. Þegar við vorum að leggja af stað sáum við hilla undir mann og hinkruðum við. Þar var félagi Jörundur kominn og hóf formálalaust að kynna fyrir okkur ferðaáætlanir um næstu verslunarmannahelgi. Í því var innifalið Barðsneshlaup svo og og landkönnunarferðir um hálendið inn af Fljótdalshéraði. Hann sagði að það væri engin undank0milei fyrir okkur nema að við værum afar löglega afsakaðir. Jói hafði enga fjarvistarástæðu en ég er búinn að negla verslunarmannahelgina niður á Hornafirði þar sem er unglingalandsmót UMFÍ. Jörundur tók þá afsökun gilda. Við heldum fyrir Kársnesið og inn í Kópavoginn. Þar skildu leiðir Jörundur fór til baka en við Jói yfir hálsinn við Fífuna og héldum svo norður af í hliðum efri byggða. Kom heim eftir rúma 30 km og fínan morgun.

Mig undrar ekki að það hafi næstum því liðið yfir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra þegar hann hóf að kynna væntanlegt frumvarp til jafnréttislaga sem hann ætlar að vísu ekki að leggja fram. Líklega hefur hann ekki verið búinn að lesa það áður en síðan þyrmt yfir hann í ræðustól Alþingis þegar hann hóf lesturinn og sá hvað stóð í frumvarpinu. Það stendur til að gera jafnréttisstofu að nokkurs konar Stasi stofu sem getur krafið fyrir tæki um gögn, beitt þau dagssektum og fellt óáfrýjanlega dóma. Á hvaða leið eru menn. Umræðan byggir á einhverjum frösum og fjasi. Launamunur kynjanna er sagður vera hitt og þetta. án þess að hönd sé festandi á umræðunni. Er ekki einnig munur á launum karla innbyrðis og launum kvenna innbyrðis? Virtaskuld. Einstaklingarnir eru misjafnir og skila mismunandi verðmætum störfum þótt þeir vinni hlið við hlið. Sumir vinna vel, aðrir miður. Suma einstaklinga vilja fyrirtækin alls ekki missa en aðrir mega svo sem fara. Á að taka alla möguleika fyrirtækjanna til að gera vel við gott fólk? Það þýðir bara eitt, launalækkun, því ekki geta fyrirtækin hækkað laun þeirra sem eru slakari upp í laun þeirra allra bestu. Ef þetta frumvarp fer í gegn munu verktakasamningar smám saman verða ráðandi form á vinnumarkaði til að fyrirtækin hafi einhverja möguleika á að hífa og slaka. Það er ekkert kynbundið heldur bundið við einstaklinga.

Mér finnst óskiljanlegt að stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega skuli gleypa svona samsetning ótugginn og halda að þetta sé þjóðfélaginu til framdráttar. Ef haldið er nógu lengi áfram á verða fullyrðingarnar að staðreyndum það er gömul saga og ný.

Það hefur farið mjög hljótt að 365 töpuðu 7 milljörðum á sl. ári. Ég ehf ekki séð önnur blöð en Viðskiptablaðið fjalla um þetta af einhverju marki. Nú er 365 ekki einhver sjoppa úti í bæ heldur fyrirtæki skráð á verðbréfaþing, almenningshlutafélag. Þau falla t.d. undir mjög stífar reglur um upplýsingaskyldu. Sjö milljarðar eru engin smá upphæð, reyndar alveg feiknaleg upphæð á okkar mælikvarða og það segir enginn neitt. Mér kemur það svo sem ekki á óvart því það lærist að styggja ekki þann sem þú getur þurft að eiga samskipti við þótt síðar verði. Ég þekki þetta frá þeim tíma sem ég var að vesenast í málefnum blaðbera Fréttablaðsins.

Engin ummæli: