Nokkuð vel hlaupið á helginni.þar sem allt útlit var um að sunnudagurinn væri frátekinn fór ég út á föstudagskvöldið og tók Poweratehringinn með viðbótum. Á laugardagsmorguninn fór ég út um 7 leitið og fór Poweratehringinn réttann og hitti svo Jóa í Fossvoginum. Á brúnni hittum við Pétur og fórum undan vindi vestur í bæ. Pétur fór síðan til síns heima en við tókum hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg og svo til baka sme leið liggur að norðanverðu. Gerði alls um 30 km. Veðrið hékk þokkalegt en það var greinilega ágangsveður. Seinna um daginn var komið skítaveður.
Sunnudagurinn var tekinn snemma, því mikið stóð til. Fermingarbarnið þurfti að vakna í greiðslu því allt þurfti að vera klárt fyrir messu sem hófst kl. 10.30. Allt fór vel fram þar og ritningargreinarnar voru á sínum stað þegar eftir var leitað. Pálmi hélt utan um ferminguna af ljúfmennsku og gerði þetta að ágætri stund. Ég hef verið í fermingum sem eru heldur leiðinlegar, bæði hefur ræðan ekki verið innihaldsmikil og sálmarnir þungir. Það er óþarfi að það þyrmi yfir mann á svona dögum. Eftir að athöfninni var lokið var farið í myndatöku og síðan hófst mikil veisla þar sem ættingjar og vinir söfnuðust saman og samfögnuðu fermingarbarninu. Þetta var hin besta dagsstund og gestirnir undu sér vel við spjall, myndasýningu og bingó. Haukur bróðir kom á óvart og las upp 41 árs gamalt bréf sem ég hafði skrifað honum norður að Núpi í Dýrafirði að aflokinni fermingu vorið 1966. Það fór ég yfir ferminguna og annað sem var efst á baugi á þeim tíma.
Eftir að við vorum búin að ganga frá skruppum við til vinafólks okkar sem einnig voru að ferma þennan sama dag.
Fermingarbarnið var ánægt með daginn þegar hann var á enda runninn og það er nú fyrir mestu.
mánudagur, mars 26, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli