þriðjudagur, maí 08, 2007

24 tíma hlaup á Borgundarhólmi, maí 2007.

Ég gerði ekki ráð fyrir sérstökum árangri í 24 tima hlaupinu á Borgundarholmi þegar ég lagði af stað. Markmiðið með að taka þátt í því var fyrst og upplifa hið andlega álag að rúlla lítinn hring aftur og aftur í 24 tíma samfleytt og sjá hvernig maður stæðist það. Síðan er gaman að taka þátt í nýrri tegund af hlaupi. WSER 100 M eða önnur álíka langhlaup eru allt öðruvísi. Þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá sem dreifir athyglinni, maður er með meðhlaupara seinni hluta hlaupsins þegar erfiðið fer að aukast og landslagið er síbreytilegt og oftast mjög erfitt. Ég hafði ekki æft vel í vetur. Samtals hafði ég hlaupið tæpa 1000 km frá áramótum sem er ekki mikið. Flensan tók sinn toll í febrúar og maður gaf sér ekki tíma til að forgangsraða hlaupunum eins og fyrir WS þar sem meira var undir. Ein vika fór yfir 100 km, nokkrar voru á bilinu 60 til 70 km. Annars var þetta svona dingl. Þó var tvennt sem ég hafði gert þokkalega. Ég tók maraþonvegalengd fjórar helgar í röð og eins hafði ég tekið Yasso spretti nokkuð samviskulega í Laugum. Undir það síðasta var ég farinn að hlaupa á hraða sem ég hafði ekki gert lengi. Eins hafði ég tekið nokkuð af styrktaræfingum en ekki mikið.

Ég hafði sett mér eftirfarandi markmið:

1. Klára að hlaupa stanslaust í 24 tíma.

2. Ná amk. 100 mílum eða 161 km. Allt umfram það var bónus.

Veðurspáin var góð. Sól, um 16 – 17 stiga hiti og logn. Um nóttina var gert ráð fyrir að hitinn færi niður í 4 – 6 oC. Þetta var allt í lagi.

Ég kom til Borgundarholms á föstudagskvöldið með rútunni frá Kaupmannahöfn og ferjunni frá Ystad. Hlaupið byrjaði svona 200 metra frá staðnum þar sem ég gisti svo það gat ekki verið betra. Hlaupið var á hring sem er um 1.6 km langur. Annar hlutinn er malbikaður og hinn hlutinn er skógarstígur. Það eru um 20 m vegalengd á milli hvors leggs þannig að maður sá hlauparana á hinum leggnum af og til. Ég hitti Kim Rasmussen, skipuleggjanda hlaupsins, um morguninn. Kim er mikill hlaupari. Hann var í WS sama ár eins og ég en þá gekk honum ekki vel þar sem hann vantaði fjöllin til að æfa sig í. Hann hefur m.a. farið Spartathlon á um 30 klst sem er mjög gott og á yfir 230 km í 24 tíma hlaupi.

Hlaupið hófst kl. 12.00. Þarna voru miklir kappar samankomnir að sjá, merktir aftan og framan svo sem með Danmark ultrarunners team, Finland ultrarunners og Sveriges ultrarunners. Ég sá ekki annað en að ég væri elsti keppandinn, nema þá kannski að ein gráhærð dönsk kona væri eldri en ég! Ég hitti þarna kunningja frá því að ég hljóp á Borgundarhólmi fyrir þremur árum, bæði Gurli Hansen sem nú var í sínu fjórða 24 tíma hlaupi og Birgi Larssen ljósmyndara, sem ætlar að taka þátt í Kaupmannahafnarmaraþoni en var þarna að taka myndir af hlaupinu.

Þegar skotið reið af tóku allir á sprett nema undirritaður. Kannski voru það áhrif af sjónvarpinu sem var á staðnum, hvað veit ég. Ég var seinastur fyrstu hringina. Ég þekkti það frá fyrri tíð að það er ekki innistæða hjá öllum fyrir svona hraða, enda kom það á daginn. Ég renndi blint í sjóinn með hvernig staðan var hjá mér sjálfum en alla vega ætlaði ég ekki að sprengja mig strax í upphafi. Það getur margt gerst á langri leið. Ég ætlaði að taka sólarhæðina eftir maraþon vegalengd, eftir sex tíma og eftir 100 km. Ég ákvað að leggja út á vel yfir 6 mín á km. Það gekk ekki nógu vel því trén trufluðu GPS inn svolítið þannig að ég gat ekki stillt mig nógu vel af. Þegar um 30 km voru búnir var ég rétt yfir 3 klst. Þá tók ég þá skynsamlegu ákvörðun að hægja markvisst á mér. Ég vissi að ég myndi ekki halda þessum hraða til lengdar og því var betra að hægja strax á sér heldur en að verða að hægja á sér síðar vegna þreytu. Ég fór því að ganga um 200 m leið frá marknu og hljóp síðan það sem eftir var af hringnum. Þessu uppleggi hélt ég út allt hlaupið nema kannski síðasta klukkutímann. Þá gekk ég aðeins lengra. Með þessu fyrirkomulegi vinnst tvennt. Maður brýtur upp hlaupið með göngu en maður hefur líka aga á göngunni og lætur ekki freistast til að ganga í tíma og ótíma. Þannig rúllaði ég áfram. Maraþonið kláraði ég á 4.28. Það var alveg eftir bókinni. Ég ákvað að taka sólarhæðina næst eftir 6 tíma. Þegar sá tími var liðinn hafði ég hlaupið 55 km og allt var í fínu lagi. Þegar þarna var komið fór ég að átta mig á að það væri allt í lagi með skrokkinn ef ég passaði að yfirkeyra mig ekki. Þegar ég hljóp mitt fyrsta 100 km hlaup var það nýlunda að klára maraþon án þess að finna fyrir því. Nú stefndi ég á að klára 100 km og vera mjúkur og fínn ef kostur væri. Tíminn leið og maður rúllaði áfram. Ég borðaði og drakk jafnt og þétt. Upp úr km 70 fór ég að finna aðeins fyrir þyngslum í maganum. Þá borðaði ég ekkert í einn til tvo tíma og þá varð allt eins og það átti að sér að vera og maður borðaði pulsurnar af bestu lyst þegar þær voru bornar fram.

Um kl. 22.00 var orðið dimmt og þá settu heimamenn upp ljóskastara á leiðina þannig að það var ekki þörf á ennisljósum. Ég kláraði 100 km á rúmlega 11.30 klst og var á um 102 km á 12 klst. Inn í þeim tíma voru fataskipti fyrir nóttina, þurr föt og hlý. Þarna fór ég líka í stærri skó eða hálfu númeri stærra en ég nota vanalega. Fæturnir stækka nefnilega þegar líður á svona hlaup. Annars var allt var í himnalagi og maður fann hvergi fyrir því að 100 km vegalengd væri að baki. Engin þreyta, hvergi stirðleiki, einungis tóm ánægja. Þarna fór að læðast að manni sú tilfinning að það væri kannski raunhæft að stefna á lengri vegalengd en 100 mílur. 180 km fóru að skjóta upp kollinum. Þó gat margt gerst á þeim tíma sem eftir var svo það var best að slá engu föstu. Á þessum tíma var ég aftan við miðju og var í sjálfu sér sáttur við það. Röðin skipti ekki öllu máli heldur vegalengdin sem maður myndi leggja að baki. Ég hafði ekki gert mér vonir um neinn frama í hlaupinu umfram það að komast sem lengst. Á tveggja tíma fresti var hengt upp blað með vegalengdinni sem hlauparar höfðu lagt að baki og þar gat maður séð röðina. Á klst 14 sé ég mér til undrunar að það var eitthvað að gerast. Ég var ekki lengur vel fyrir aftan miðjan hóp heldur var ég kominn í 5. – 6. sæti. Flestir þeirra sem höfðu verið að hringa mig voru löngu hættir því og ég farinn að fara fram úr sumum. Greinilegt var að margir voru farnir að þreytast því það fækkaði á brautinni. Ýmsir voru einnig farnir að ganga meir en áður og nokkrir lágu í markinu með fætur uppi á stól, vafðir í teppi. Ég fór í síðar buxur og bjó mig betur strax þegar fór að kólna en það var langt í frá að allir gerðu það, heldur hlupu áfram berleggjaðir lengi eftir að það var orðið aldimmt og orðið svalara. Það fannst mér ekki skynsamlegt. Ég fann vel hvað manni hlýnaði öllum og einhvernvegin léttist við að fara í hlýrri föt. Nóttin leið og maður rúllaði áfram. Gekk 200 m og hljóp 1.4 km. Hraðinn alltaf sá sami. Á klst 16 sá ég að ég hafði færst enn framar og var nú kominn í 3.-4 sæti. Þetta hleypti nýrri sýn á hlaupið. Voru aðrir að detta niður? Ég passaði mig hinsvegar á að láta þetta ekki æsa mig upp því ég gæti stirnað upp alveg eins og aðrir ef ég færi of hratt. Þarna var ég hinsvegar farinn að sjá að 180 km voru vel raunhæfur kostir ef ekkert gerðist. Það þarf hins vegar ekki annað en að maginn fari á hvolf eða sinadráttur rjúki í lappirnar til að setja allar áætlanir á hliðina. Ég sá engan fá sinadrátt en nokkrir ældu svona af og til. Á klst 18 var ég kominn í 3ja sæti og sá að hér eftir var þetta bara undir mér komið að halda sætinu. Ég kláraði 100 mílur á rúmum 19 klst og var bara ánægður með það. Það var orðið albjart um kl. 5.00 um morguninn. Sex tíma hlaupararnir byrjuðu kl. 6.00. Á þessum tíma byrjar andlega streðið fyrir alvöru. Maður er búinn að hlaupa í 18 klst og það eru sex eftir. Yfirleitt þykir það nógu langt að hlaupa í 6 klst enda þótt það liggi ekki 18 að baki. Um miðnættið hafði ég farið að skipuleggja hlaupið á tvennan hátt. Annars vegar í 40 km hluta og síðan skipti ég þeim niður í 10 km hluta. Maður setti upp áætlun um á hvaða tíma maður myndi hlaupa hverja 10 km og síðan setti maður upp aðra áætlun fyrir 40 km. Þannig gat maður fylgst með hvernig miðaði og hvort maður héldi sama róli. Þetta er líka ákveðin hugarleikfimi til að hafa eitthvað til að festa hugann við. Markmiðið var nú að fara vel yfir 180 km. Eftir því sem tíminn leið setti maður upp nýjar áætlanir út frá nýjum forsendum. Þegar kom fram á morguninn fór að örla á 190 km sem raunhæfu markmiði.

Maður fékk upplýsingar um stöðuna á tveggja tíma fresti. Ég gekk út frá að hún væri reiknuð úr nákvæmlega miðað við hringjafjöldann þegar klukkan fór yfir á heilan tíma hverju sinni. Þó fannst mér stundum ekki eitthvað stemma og hélt helst að það hefði gleymst að skrifa niður hringi þegar mér fannst hafa miðað hægar en ég það sem ég mældi sjálfur. Timexinn er reyndar ekki nógu góður í svona löng hlaup því hann klárar batteríin á ca 10 klst. Þá hefur maður kannski hlaupið um stund án þess að taka eftir því að hann sé hættur að mæla. Svo tekur nokkurn tíma fyrir hann að ná sambandi aftur. Því var ég ekki með vegalengdina alveg á hreinu. Ég skipulagði það sem framundan var eftir stöðunni sem var birt á tveggja tíma fresti. Mér brá því nokkuð kl. 10.00 þegar tveir tímar voru eftir þegar mér taldist til miðað við þá vegalengd sem ég var búinn að klára og birt var á töflunni að ég væri á nippunni með að smeygja mér yfir 190 km eins og ég hélt að hefði verið orðið raunhæft. Ég taldi því niður það sem eftir var með það fyrir augum að tryggja það markmið örugglega. Síðasta einn og hálfan tímann var ég farinn að þreytast aðeins og því var efiðara en áður að halda fyrri hraða. Ég lauk þó uppsettri áætlun og gekk síðan síðasta hringinn. Það voru svona smá verðlaun eftir að hafa horft á aðra vera að rölta þetta í rólegheitum á meðan maður þrælaðist sjálfur áfram. Mér brá því nokkuð í brún þegar lokatölur birtust og ég hafði farið vel yfir 197 km. Þá hafði það greinilega ekki verið svo nauið að taka hringjafjöldann akkúrat á heila tímanum heldur hafði það alveg eins verið gert nokkru fyrr. Ég átti því inni slatta af kílómetrum sem ég vissi ekki um þegar yfir lauk. Ef ég hefði vitað þetta nokkru fyrr hefði það verið ákveðinn möguleiki að þrælast hraðar síðustu tvo eða þrjá tímana og ná þannig yfir 200 km markið en það er annað mál. Ég var mjög ánægður með uppskeruna sem var miklu betri en ég hafði getað ímyndað mér fyrirfram.

Það er á hreinu að ég fór langt fram úr sjálfum mér í þessu hlaupi og tók út innistæðu sem ég vissi ekki að væri til staðar. Ég féll aldrei niður orkulega séð heldur rúllaði áfram á jöfnum hraða allt hlaupið áreynslulaust. Engir erfiðleikar létu sjá sig sem eru aldrei langt undan í svona löngu hlaupi. Fyrstu 12 klst fór ég 102 km en eftir seinni 12 klst lágu 95 km. Ég hef velt dálítið fyrir mér hvaðan þessi orka kom. Ekki er um að ræða mikið æfingamagn og né markvissar æfingar. Þá er annað eftir, mataræðið og annað því tengt. Ég hætti í öllu ruslfæði fyrir tæpu ári síðan og hef einungis borðað kjöt, fisk, grænmeti og ávexti síðan þá samkvæmt kenningum Ásgeirs. Kökur, sælgæti, kex eða annað kolvetnarusl hef ég ekki smakkað í um 10 mánuði. Við þetta batnaði orkubúskapurinn verulega og ég léttist einnig nokkuð. Ég hef einnig borðað steinefni og vítamín skipulegar en áður. Ég nýtti mér kenningar Löbarlarssons í undirbúninginn fyrir hlaupið. Á föstudaginn fór ég inn í veitingahús í Köben þar sem var „Ta det selv“ bord. Þar gat maður borðað eins og mann lysti. Ég tróð mig út eins og frekast var unnt af kjöti og fiski. Svo bætti ég um betur á ferjunni um kvöldið. Um morguninn fyrir hlaupið keypti ég mér frikadellur, gróft brauð, ost og ostaköku og tróð enn í mig eins og hægt var. Ég var því pakksaddur af staðgóðum og kjarnmiklum mat þegar lagt var upp. Ég notaði mér kenningar Gordys og hrúgaði í mig C vítamíni, seleni, magnesíum og steinefnasöltum á meðan á hlaupinu stóð. Ég hafði með mér appelsínudjús í fernum og kláraði nokkra lítra af honum. Annars drakk ég mest vatn og Sprite, því orkudrykkurinn var heldur slepjulegur. Ég svitnaði svakalega eins og vanalega og var allur saltstorkinn að utan. Þrátt fyrir það fékk ég aldrei aðkenningu af steinaefnaskorti svo sem sinadrátt. Ég var því allt hlaupið með orkubúskapinn í jafnvægi og hafði nægan forða af öllu. Árangurinn varð því þegar upp var staðið miklu betri en hægt var að ætlast til miðað við það æfingamagn sem lá að baki undirbúningnum. Það væri rangt að segja að ég fyndi ekki fyrir hlaupinu í fótunum daginn eftir en ég hef oft verið miklu stirðari eftir styttri hlaup. Injiji sokkarnir stóðu sig með prýði, einungis ein smá blaðra lét sjá sig.

Öll framkvæmd hlaupsins var til mikillar fyrirmyndar undir styrkri forystu Kims. Hann er margreyndur hlaupari sem veit hvað til þarf. Hann er þegar búinn að senda út email þar sem hann biður þátttakendur að senda sér ábendingar um það sem betur má fara. Fjöldi fólks vann við hlaupið alla nóttina, m.a. voru aldrei færri en þrír í að skrá niður hringina, liklega til að koma í veg fyrir mistök!! Matur og drykkur var rausnarlegur og fjölbreyttur. Allt til alls. Það er því óhætt að mæla með Borgundarhólmurum við framkvæmd svona hlaupa. Maður getur ekki annað en rifjað upp minninguna frá Laugavegshlaupinu árið 2005 um brúsamennina sem komu hlaupandi niður að skálanum við Hrafntinnusker þegar ég var að koma þangað svona 30. maður eða svo!!!

Síðar um daginn þegar hlaupinu var lokið hitti ég Finna sem hafði hlaupið 195 km í 24 tíma hlaupi í fyrra. Nú gekk það hins vegar ekki nógu vel. Hann hljóp Spartathlon í fyrra og sagði mér margt áhugavert frá hlaupinu. Seinni dagurinn sagði hann að væri „just like Hell“ en engu að síður er hann að hugsa um að fara aftur!!

Hér eru hlekkir frá hlaupinu og eins myndir:

http://ultramarathon.dk/php-files/24t.htm

Myndir hér, tveir linkar http://www.sportsfotobornholm.dk

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtilega frásögn. Gaman væri að taka þátt að ári!

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að deila upplifuninni með konu út í bæ eins og mér. Ég kíki af og til á síðun þína til að fá innspírasjón. Guðrún

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með aldeilis frábæran árangur og fróðlega og skemmtilega frásögn.
Kveðja
Félagi Höskuldur

Nafnlaus sagði...

Já ég sé að GPS-ið hefur slegið út hjá þér eins og það gerir á ákveðnum stöðum hér í borginni í tækinu mínu. Fletti upp nokkrum af hlaupurunum á netinu meðan á keppni stóð og voru sumir mjög öflugir og reyndir og bjóst maður við að sjá þá á yfir 200 km, en þú varst greinilega með betra plan og betur undirbúinn því þeir enduðu fyrir aftan þig.