Hef ekkert hlaupið síðan á hinni helginni. Ætla að taka tvær vikur í hvíld. Fer að hreyfa mig á helginni, hjóla og hlaupa. Mér fannst skynsamlegt að hvíla fæturnar vel til að það séu engir draugar í lestinni. Það er ekki aftur tekið ef eitthvað fer úrskeiðis. Nú er D dagur hjá berki á morgun. Trúi að hann sé kominn með smá fiðrildi í magann. Sé að það spáir þokkalega í Odense á morgun, 17 stiga hita og vindkalda. Það rignir í dag þannig að þetta lítur betur út á morgun.
Fór yfir í Samskipti í Kópavogi seinnipartinn að sækja myndir sem ég hafði beðið þá um að prenta út og setja upp á frauð. Mæti niður í ráðhús kl. 8.00 í fyrramálið því framan af morgninum er verið að setja upp myndir fyrir myndasýninguna "Mannlíf í Fókus" sem verður opnuð kl. 14.00 á morgun. Það er Fókus, félag áhugaljósmyndara, sem stendur að sýningunni. Gaman að taka þátt í svona uppákomum.
Það veltur á ýmsu eftir kosningar. Skil vel að mönnum hafi þótt ríkisstjórn sem styðst einungis við eins þingmanns meirihluta vera ótraust. Það er varla gerandi að leggja af stað með slika stjórn. Þeir sem muna lengra aftur eða ca til ársins 1982 muna t.d. eftir þegar Guðrún Helgadóttir hrópaði á Lækjartorgi á útifundi að stjórnin væri fallin ef Gervasoni fengi ekki landvistarleyfi. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hlustuðu á þetta inn um gluggann á stjórnarráðinu. Gervasoni var einhver frakki sem flæktist hingað og var að reyna að koma sér undan herþjónustu. Þá var ríkisstjórnin með afar nauman meirihluta og hver og einn stjórnarþingmaður hafði í raun vald til að setja henni úrslitakosti. Óþolandi staða.
Skrítin fyrirsögn í Mogganum í morgun á íþróttasíðu. Þóra Helgadóttir varði fjögur (eða fimm) víti var fyrirsögnin. Maður vissi ekki hvað var að gerast. Skýringin var sú að England vann Ísland 4 - 0 í landsleik í fótbolta. Þegar leikurinn var búinn fóru leikmenn að skemmta sér við að skjóta á mark hver hjá öðrum. Þóra varði nokkur skot. Það var síðan orðið aðalfyrirsögnin en úrslitin falin einhversstaðar inni í texta. Hálf kjánalegt.
föstudagur, maí 18, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Sem gamall markmaður verð ég leggja orð í belg. Auðvitað er það nokkuð sérstakt að í framhaldi af landsleik sé stungið upp á vítaspyrnukeppni, en svo var raunin, en það gerir ekki afrek Þóru minna að verja 4 vítaspyrnur af 9 (2 fóru framhjá). Staðreyndin er einfaldlega að Þóra er með betri markvörðum í heiminum.
Kveðja Halli
Common Halli. Það var landsleikur og í honum voru ákveðin úrslit. Það er fréttin. Hvað gerðist í einhverri vítóchillkeppni eftir leikinn skiptir ekki máli, ekki frekar en að þær hefðu farið í kappát á pulsum. Ég er ekki að draga í efa að Þóra er góður markmaður, ég var hins vegar að velta fyrir mér sérkennilegri fréttamennsku Mbl.
Skrifa ummæli