sunnudagur, september 09, 2007

55 ára í gær. Þetta potast áfram. Aldur er hins vegar afstæður. Ég held að ég sé ekki í mikið lakara ásigkomulagi en þegar ég var þrítugur og reynslan vegur upp það sem á hefur hallast á öðrum sviðum. Maður er í forréttindahópi. Fjölskyldan kom saman í gærkvöldi. Það var fínt að taka smá tíma í spjall og yfirferð á gömlum minningum.

Maður sér að til þess bær yfirvöld eru farin að gegna skyldum sínum í miðbænum. Loksins er farið að örla á því að það sé farið að mæta þeim skrílslátum og hálfvitagangi sem hafa viðgengist þar átölulítið alltof lengi með aðferðum sem duga. Sektir eru ágætar. Fólk sér á eftir peningum. Eins og flestir landsmenn hefur maður verið á þvælingi hér og þar á ymsum tímum sólarhringsins. Maður hefur hvergi nokkursstaðar séð nokkuð í áttina við það ástand sem hér hefur fengið að viðgangast í svokallaðri miðborg Reykjavíkur. Barcelona var til dæmis þekkt fyrir vasaþjófagengi á Römblunni. Þarlend yfirvöld tóku á þeim vanda með því að fjölga lögreglum í miðbænum. Það er ekki látið líðast að óaldarlýður fái að leika lausum hala.

En það er eins og við manninn mælt að þegar loks er farið að gera eitthvað af viti við óásættanlegu ástandi þá hlaupa ýmsir strax til og fordæma þessar aðferðir s.s. á bloggi Moggans í morgun. Auðvitað á að gera eitthvað en bara ekki þetta eða svona. Lögreglustjórinn er uppnefndur "sá stutti" og þarfram eftir götunum. Nú eru þetta ekki einhverjir bæjarruddar sem skrifa svona heldur fólk sem sumt hvert vill gefa sig út fyrir að vera í pólitík. Maður bíður bara eftir að fréttastofa sjónvarpsins taki málið upp og fordæmi það að lögreglan hafi afskipti af þeim sem eru að míga utan í hús og brjóta glös á götunni. Það væri svo sem eftir öðru.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með gærdaginn gamli minn......sem og alla aðra daga. Tíminn hefur bara farið vel með þig eins og sjá má og ef eitthvað er þá hefur þú snúið á þær kenningar að krafturinn minnki í fólki eftir því sem árunum fjölgar. Eigðu sprellfjöruga framtíð og megi gæfan fylgja þér í þeim verkefnum sem framundan eru. Bestu kveðjur til ykkar, frá frænku þinni, henni Sólveigu Ara

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góða kveðju Sólveig og hafið þið að gott fyrir austan fjall.
G

Nafnlaus sagði...

Til hamingju "gamli" minn :)
Þú berð aldurinn vel
Bibba

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með afmælið.
Algerlega sammála með að aldur sé afstæður. Með blessaða formið og aldur, hefðir þú getað spriklað í gegnum Spartathlonið þrítugur eða fertugur eins og þú ert að fara að gera eftir nokkra daga?
Takk annars fyrir góða pistla og ljósmyndir, mjög gaman að skoða þetta hjá þér :)
Bestu kveðjur
Þorkell Logi

Nafnlaus sagði...

Sæl Þorkell og takk fyrir kveðjuna.
Þegar ég var þrítugur eða fertugur datt mér ekki einu sinni í hug að ég gæti hlaupið neitt sem einhverju nam, hvað þá maraþon. Að maður tali ekki um ósköpin. Svona er allt afstætt.
Bestu kveðjur í bæinn.

Mbk
Gulli