Það hefur verið mikið rætt og ritað um handtöku dópsmyglaranna sem voru teknir á Fáskrúðsfirði í vikunni. Það er vissulega fagnaðarefni að lögregla skuli ná slíkum áfangasigri í þessu stríði sem því miður er líklegt að verði aldrei leitt til lykta. Það virðist hafa komið mönnum í opna skjöldu að þessi leið skyldi farin sem vissulega er afar einföld. Strandlengjan er löng og mjög erfitt að fylgjast með henni af einhevrju viti. Má vera að radarbúnaður geri það mögulegt. Innflutningur eiturlyfja er raunveruleg ógn við þjóðfélagið og því þarf að beita tiltækum ráðum til að gera smyglurum eins erfitt fyrir og mögulegt er.
Í þessu sambandi er rétt að minna enn og aftur á átakið Ísland án eiturlyfja árið 2000. Það er í raun og veru undarlegt í fyrsta lagi að nokkurri manneskju með einhverja tengingu við ranveruleikann skuli hafa dottið í hug að hrinda verkefni af stað undir slíku heiti og í öðru lagi að opinberum aðilum skuli hafa dottið í hug að leggja fjármagn í slíka Bjarmalandsför.
Talandi um tollverði og smygl. Eins og manni finnst ánægjulegt að lögregla nái árangri í baráttunni við alvöru glæpamenn sem stofna framtíð og lífi fjölda ungmenna í voða, þá getur maður ekki orðið annað en pirraður á vinnulagi tollvarða í Leifsstöð sem virðast hafa farið á baunatalningarkúrsinn í tollvarðaskólanum en sleppt því sem máli skiptir. Að vissu leyti má virða þeim til vorkunnar að þær vinnureglur sem þeir starfa eftir eru náttúrulega út í hött. Í Morgunblaðinu í vikunni var minnst á reglur þær sem gilda um verðmæti hluta sem eru í farangri fólks. Þar var sagt frá því að farþegi frá útlöndum hafði orðið fyrir því að myndavél hans hafði verið gerð upptæk því hann hafði ekki handbærar kvittanir fyrir henni með sér í ferðalagið. Mig minnir að þarna hafi verið um að ræða Canon 350 sem er einföld og algeng fjölskylduvél. Fyrir skömmu heyrði ég sagt frá því að einn keppenda á öldungamóti á norðurlöndunum fyrir nokkru hefði lent í samskonar ströggli vegna þess að hann hafði tekið með sér litla vídeóvél á mótið og var náttúrulega ekki með kvittunna með sér. Þvílík heimska að setja slíkar reglur.
Verðmæti hvers einstaks hlutar sem maður má vera með í farangri frá útlöndum án tollskyldu má mest vera að upphæð 23.000 kr og um 45.000 kr samtals að því mig minnir. Hvergi nokkurs staðar þar sem maður fer um flugvelli sér maður tollverði vera að leika sér í svona baunatalningu nema í Keflavík. Að láta sér detta í hug þá fásinnu að þurfa að taka með sér kvittanir fyrir venjulegum hlutum sem maður hefur með sér í ferðalag s.s. myndavél, tölvu, síma, Ipod eða einhverju álíka. Ef þær eru ekki tiltækar þá getur maður átt á hættu að þetta sé gert upptækt við komuna til landsins. Hvað með fataleppana sem maður er í? Því skyldi maður ekki þurfa að sýna fram á með kvittunum að dýr jakkaföt séu keypt hérlendis við komuna til landsins. Mig minnir að Guðný Halldórsdóttir hafi lent á skóm sem kostuðu 145.000 kr þegar hún var að skoða skófatnað fyrir frumsýninguna á Veðramótum. Hlutverk tollvarða á vitaskuld að snúast um að koma í veg fyrir innflutning á því sem máli skiptir. Sem dæmi um þá hluti má nefna dóp, brennivín, tóbak, vopn, dýr, vörur sem eru á bannlista, hrátt kjöt og stórinnflutning á ýmsum hlutum sem kosta minna í útlandinu en hér heima. En að vera að bösta venjulegt fólk sem hefur tekið með sér myndavél í sumarfrí og gera hana upptæka af því kvittunin kom ekki með er náttúrulega fyrir neðan allar hellur. Í stað þess að hafa einhverja verðmiða á því sem er eðlilegt að sé í farangri fólks á ferðalögum ætti að tiltaka fjölda þeirra hluta sem er eðlilegt að fólk sé með á ferðalögum en hætta að velta sér upp úr verðmætinu. Það er ekki það sem máli skiptir við tollgæslu á landamærum Íslands við umheiminn hvort ein og ein myndavél sleppi til landsins án þess að af henni sé greiddur virðisaukaskattur heldur eru það stóru málin sem tollverðir ættu að einbeita sér að og varða líf og heilsu fjölda fólks.
Kvikmyndin "Touching the Void" er ein af þeim albestu kvikmyndum sem ég hef séð. Hún segir frá ótrúlegum atburðum sem áttu sér stað þegarfélagarnir Jo Simpson og Simon Bates voru á leið niður af fjallstindi í Perú. Nafn myndarinnar gefur henni sérstakan sjarma því hað hljómar einstaklega vel við atburðina sem lýst er í myndinni. Hún verður sýnd á Stöð 2 í kvöld. Þar er hún kynnt undir nafninu "Hættulegt klifur". Því að vera að þýða titla á myndum þegar svona klám kemur út úr því.
laugardagur, september 22, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli