Það er gaman að heyra að þrátt fyrir skítaveður þá var upplifun þess fólks sem ég hef heyrt í heldur góð af laugardeginum. Jói, Biggi, Stebbi, Börkur, Sigrún og fleiri stóðu vaktina með sóma og höfðu standandi bráðavakt í Jóatjaldi til að lífga hrakta og stirða hlaupara við þegar þeir ultu inn og gátu ekki meir. Heit súpa og kakó gera kraftaverk á slíkum stundum. Það hefði náttúrulega ekki verið hægt að halda hlaupið nema að hafa slíka bækistöð. Flóknara er það nú ekki. Maður var búinn að heyra alls kyns efasemdir um að það væri hollt geðheilsunni að hlaupa svona hring eftir hring en allir sem ég heyrði í sögðu að það væri miklu skemmtilegri upplifun en þeir hefðu búist við. Maður verður bara að vona að veðrið verði betra á næsta ári en það er víst ekki á vísan að róa.
Hlaup af þessari tegund eru mjög góð æfing fyrir þá sem hafa hug á að takast á við alvöru ultrahlaup. Það er töluvert annað að hlaupa í sex tíma heldur en í þrjá tíma. Uppleggið er allt annað, áreynslan önnur. Skipulagið þarf að vera öðruvísi.
Ég fékk einhvern stirðleika tognunarvott aftan í vinstri kálfann á laugardaginn, nokkuð sem ég hef aldrei fengið áður. Þetta lagast vonandi fljótt með hitakremi og nuddi. Nú fer að styttast í Grikkland. Maður sér á langtímaspám að hitinn er farinn að síga niður fyrir 30 oC. Vonandi verður hann ekki mikið yfir 25 - 26oC. Það er nógu mikið. Þetta fer einhvern veginn. Það er ekkert öruggt í þessum málum. Ef allt verður í lagi þá á maður að komast nokkuð áleiðis en þarna eru mörg ljón á veginum.
mánudagur, september 17, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli