miðvikudagur, september 02, 2009

Stóri bróðir er víðar en maður heldur. Ég lenti í því óhappi fyrir skömmu að tína bensínlykli sem ég hafði fengið fyrr í sumar vegna einhverra afsláttarkjara. Þar sem ég hafði aldrei notað lykilinn þá athugaði ég ekki að láta vita um að hann hafði týnst. Þegar ég fékk Visa reikninginn fyrir mánaaðmótin sá ég fljótlega að einhver hafði fundið lykilinn og talið sig hafa fundið fé þarna. Alla vega hafði hann verið dálítið fríkostugur á að nota lykilinn. Ég hafði sambandi við Valitor og síðan olíufyrirtækið. Þeir voru fljótir að slá því upp hvar og hvenær lykillinn hafði verið notaður. Ég spurði að því hvort ekki væri hægt að sjá í öryggismyndavélum af herjum kortið hefði verið notað. Þeir bjuggust við því og sögðust hafa samband síðar. Eftir rúman hálftíma var hringt og mér sagt að það væri búið að greina ýmsar þær upplýsingar í myndavélunum sem að gagni myndu koma og mér vísað á að kæra málið til lögreglunnar. Það væri rétti farvegurinn.

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvernig RÚV mismunar íþróttagreinum herfilega. Í vetur sat ég í smá vinnuhóp sem undirbjó alþjóðlegt frjálsíþróttamót í frjálsíþróttahöllinni. Mjög var lagt að RÚV að hafa beina útsendingu frá mótinu eins og árið áður þar sem það gerir mun auðveldara að safna auglýsendum á mótið. Þrátt fyrir miklar tilraunir þá kom allt fyrir ekki. Sökum sparnaðaraðgerða þá yrði ekki sýnt beint frá mótinu. Það væru ekki til peningar. Við beygðum okkur fyrir þeirri röksemd en þótti þetta súrt. Þetta mót er eina mótið á árinu þar sem koma erlendir frjálsíþróttamenn til að keppa við okkar besta fólk á heimavelli svo okkur þótti nokkuð til vinnandi að koma því á framfæri við sem flesta. Þegar maður horfir síðan upp á endalausar beinar útsendingar frá fótboltaleikjum þá fer maður að hugsa um hvar allur sparnaðurinn sé. Það gengur allt undan fótboltanum, fréttir, veður og aðrir fastir dagskrárliðir verða að víkja ef hann er á ferðinni. Nú spila íslendingar landsleik við Norðmenn á næstunni. Íslendingar hafa ekki náð neinum árangri í riðlinum og hafa því að engu að keppa nema að lappa upp á heiður sinn og sæmd. Engu að síður verður sýnt beint frá leiknum. Heimsmeistaramót í frjálsum íþróttum var í sumar. Sýnt var nokkuð frá mótinu enda frábært íþróttafólk þar á ferðinni. Síðan er Gullmótaserían til að bæta um betur á þeim vettvangi. Það var sýnt frá gullmóti á laugardaginn. Útsendingin byrjaði kl. 1:15 um nóttina eftir að búið var að renna einhverjum leiðinlegum bíómyndum í gegn hjá RÚV. Mér er sem ég sæi fótboltann fá þessa meðferð. Nú hef ég gaman að horfa á fótbolta en það hafa margir einnig gaman að horfa á aðrar íþróttagreinar og þar á meðal ég. Þessi fótboltadýrkun fjölmiðla er bara fullmikið af því góða því hún hefur veruleg áhrif á mótun á viðhorfum barna og unglinga. Á það má minna að íslendingar hafa eignast allnokkra Evrópumeistara í frjálsum íþróttum. Hvenær skyldum við leika til úrslita um Evrópumeistaratitil í fótbolta? Það var allt á öðrum endanum hjá fjölmiðlum í kringum íslenska liðið í fótbolta áður en haldið var til Finnlands. Uppskeran varð hins vegar eins og raunsæir menn vissu, það var fínt að komast til Finnlands en riðillinn var of stór biti í háls. Síðan kóa allri með í söngnum um hvað liðið hafi verið frábært. Það átti sína góðu leiki en líka sinn slæma leik á móti Frökkum. Síðan má ekki gleyma því að okkar besta manneskja eftir því sem sagt var sást ekki allt mótið. Að vísu brá henni fyrir í tvö skipti. hið fyrra var þegar hún klúðraði vítaspyrnunni og hitt skiptið var þegar hún skaut til tunglsins úr dauðafæri á móti Þjóðverjum. Þetta kemur svo sem ekki á óvart þar sem hún er bara búin að spila þrjá heila leiki í sumar og er því ekki í neinni leikæfingu.

Engin ummæli: