Við Jói, Gauti og Helgi Gíslason myndhöggvari lögðum land undr fót á föstudaginn og héldum norður í Skagafjörð. Nánar tiltekið enduðum við á Merkigili í Austurdal þar sem Monika Helgadóttir bjó hér áður sem dætrum sínum sjö og einum syni. Síðasti ábúandinn á jörðinni, Helgi að nafni, hrapaði til bana í Merkigili í byrjun janúar 1997. Guðmundur Hagalín rithöfundur gerði Moniku ódauðlega í bókinni "Konan í dalnum og dæturnar sjö" þar sem hann gerir lífsbaráttu þeirra góð skil. Jökulsá í Austurdal er engum fær. Sögur eru til af því að ofurhugi einn hafi reynt að synda yfir ána en fórst við þá fífldirfsutilraun.
Utan við bæinn Merkigil er samnefnt gil sem eina leiðin heim að bænum lá yfir eða þar til Jökulsá var brúuð árið 1960. Það avr ekki heiglum hent að annast aðdrætti að jörðinni. Vafalaust hefur það verið nógu erfitt á meðan einungis var um eðlilega aðdrætti til búsins en þegar farið var í framkvæmdir vandaðist málið. Allstórt íbúðarhús á tveimur hæðum og 93 m2 að gólffleti var reist á jörðinni árið 1950. Allt efni í húsið s.s sement, steypustyrktarjárn, þakjárn, timbur og annað sem þarf í eitt hús var flutt á hestum frá vegarenda út við Gilsbakka og yfir gilið. Eldavél, baðkari og steyputunnu var komið yfir gilið. Þessa flutninga önnuðust dæturnar á bænum en þær elstu voru sitt hvoru megin við tvítugt á þessum árum. Þegar traktor var keyptur á heimilið var hann skrúfaður í sundur fyrir utan gil, borinn yfir gilið og settur svo saman á gilbarminum að sunnanverðu. Margir hafa vafalaust gengið upp á Illakamb leið frá frá Múlaskála í Lónsöræfum. Það má segja að leiðin upp úr gilinu báðum megin við sé mjög áþekk þeirri leið. Ekki vildi ég bera traktor þarna yfir þótt í nokkrum pörtum sé eða koma járnbentri steyputunnu þarna niður og svo upp aftur. Breytingin við að fá Jökulsána brúaða árið 1960 hlýtur að hafa verið ólýsanleg. Það er magnað að saga þessa fólks skuli hafa verið skráð svo fólk nútímans geti fengið örlitla innsýn í hvernig lífsbaráttan var á mörgum stöðum hér áður.
Við vorum í Austurdalnum í blíðskaparveðri, haustveðri eins og best getur verið. Við gengum yfir gljúfrið. Maður getur ekki gert sér í hugarleeund allt það erfiði sem hefur falist í aðdráttum til bæjarins nema að upplifa staðinn. Þekkt frásögn er af því þegar héraðslæknirinn var sóttur að veiku barni inn að Merkigili að vetrarlagi. Vegurinn var slæmur og svellbólstrarnir ultu niður hlíðina víðar en tölu var á komið. Jeppi Hjörleifs á Gilsbakka átti fullerfitt með að fara þá leið sem kallaðist vegur og var hann þó tvíkeðjaður á hverju hjóli. Afganginn var farið á hestum og gangandi. Hægt er að lesa þessa frásögn á vefnum með því að googla hana. Síðan gengum við út að Gilsbakka. Sá bær fór í eyði fyrir nokkrum árum. Þar hefur verið ræktaður vöxtuglegur skógarlundur niðri á gilbarminum. Síðan fórum við inn að Ábæjarkirkju seinnipartinn. Þar er messað einu sinni á ári og eru þá yfirleitt vel á annað hundrað manns við messu í þessari litlu en vel við höldnu kirkju.
Við áttum svo góða stund í bænum í gærkvöldi við grillið og horfðum á landsleikinn milli Íslands og Noregs yfir veislumat. Þetta var skemmtileg helgi í góðum félagsskap á merkilegum söguslóðum í fínu haustveðri. Betra getur það varla verið.
Ferðin var meðal annars farin sem myndaferð og mátti segja að hún gekk fullkomlega upp sem slík. Bærin á Merkigili er leigður út fyrir gesti eins og okkur meðal annars. Það gefur örlítið upp í viðhald á bænum sem er með miklum sóma.
Haukar og FH léku til úrslita í 1. deild kvenna í dag. Haukar unnu 1-0 og eru því sigurvegarar deildarinnar. Þeir hafa sóma af því. Mér finnst hins vegar að KSÍ þurfi að svara hlutaðeigandi hvers vegna leikurinn var látinn fara fram á Haukavellinum. Það má vel vera að það hafui verið ákveðið áður en ljóst var hvaða lið léku til úrslita í deildinni. En það er einkennileg tilviljun að þegar HK/Víkingur léku til úrslita í deildinni við Aftureldingu fyrir tveimur árum þá var leikið á velli Aftureldingar. Ofan í kaupið er Haukavöllurinn gerfigrasvöllur sem gefur því liði sem er vant að æfa á gerfigrasi verulegt forskot. Í þriðja lagi er leitun að eins illa búnum aðalvelli á Suðvesturhorninu eins og Haukavöllurinn er. Áhorfendaaðstaða er t.d. engin. Það er ekki mikill metnaður í knattspyrnuyfirvöldum að velja slíkan völl fyrir úrslitaleik sem þennan. Stelpurnar eiga betra skilið.
Sveinn er 24 ára í dag. Það er gaman að láta hugann reika aftur í tímann við slík tímamót og láta ánægjulegar minningar renna í gegnum hugann.
sunnudagur, september 06, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli