laugardagur, september 26, 2009

Ég var náttúrulega búinn að gleyma því að það er afmælisdagur í dag. Það var hinsvegar rifjað upp af mér minnugri mönnum hvað gerðist þennan dag fyrir fimm árum. Þá stofnuðum við Ágúst Kvaran, Siggi Gunnsteins og Svanur Bragason félag 100 km hlaupara í heita pottinum í Vesturbæjarlaug. Fimmti stofnfélaginn, Pétur Reimarsson, var löglega forfallaður þar sem hann lá veikur heima. Ágúst var eðlilega kjörinn forseti félagsins þar sem hann lauk 100 km hlaupi fyrstur íslendinga. Markmið félagsins var m.a. að breiða fagnaðarerindið út. Það hefur tekist nokkuð vel því fimm árum síðar eru félagsmenn samtals 28. Þeir hafa hlaupið lengri og skemmri ultrahlaup út um allan heim og tekið þátt í öðrum ultrakeppnum af ýmsu tagi. Þó að félag sem þetta sé ekki með sífellda fundi eða né stöðuga starfsemi þá eykur það samheldni félaganna, stuðlar að miðlun þekkingar og reynslu og verður að síðustu öðrum hvatning til frekari átaka. Upptaka í klúbbinn er stór áfangi eftir að hafa tölt mörg skref í áttina að þessu marki. Þegar stofnun félagsins var lokið og við á leið út frá Vesturbæjarlaug þarna fyrir fimm árum þá hitti Ágúst einn félaga sinn og sagði honum frá því hvaða tímamót hefðu átt sér stað þennan daginn. "Hvað þurfa menn að hafa hlaupið langt til að komast í félagið?" spurði félaginn. "100 km" svaraði Ágúst. "Samtals?" spurði félaginn. "Nei, í einum rykk" svaraði Ágúst. Þá hristi félaginn hausinn yfir þessum ósköpum og gekk burt.

Engin ummæli: