miðvikudagur, september 09, 2009

Ég herti einu sinni upp hugann og fór og spjallaði við Helga Hóseasson þar sem hann stóð á Langholtsveginum með spjald. Mér fannst það vera hálfgerð framhleypni að fara og spyrja ókunnugan mann hvort ég mætti taka mynd af honum. Mér fannst þó skömminni til skárra að spjalla við hann dálítið áður. Ég sá ekki eftir því. Það var virkilega gaman að tala við hann. Helgi talaði afar fallegt mál og var með eina þá hljómfegurstu rödd sem ég hef heyrt. Hann hefur án efa getað orðið mikill ræðumaður á sínum yngri árum, alla vega ef hann hefði viljað það. Helgi var hér á árum áður í huga manns ákveðinn kverúlant eða alla vega var það sú mynd sem fjölmiðlar drógu upp af honum. Það álit breyttist algerlega með myndinni sem var gerð um hann fyrir nokkrum árum. Þar kom í ljós heilsteyptur einstaklingur sem hafði ákveðnar skoðanir sem kverúlantar ríkisins höfðu reynt að fótumtroða eftir bestu getu. Helgi hafði mikið til síns máls og er í raun og veru alveg óskiljanlegt að kirkjan og ríkisvaldið skuli ekki hafa getað komið til móts við óskir hans. Þær voru mjög rökréttar. Niðurstaðan úr því stappi öllu segir meir um ríkisvaldið og kirkjuna en Helga. Fróðlegt verður að vita hvernig gengur að framkvæma síðustu óskir hans.

Lars Skytte Cristiansen setti nýtt Norðurlandamet í sex daga hlaupi í Gautaborg á dögunum. Hann hljóp 854 kílómetra á sex dögum og er það besti árangur ársins. Hann bætti norðurlandametið um eina 40 km. Lars er kominn í hóp bestu ultrahlaupara heims með þessu afreki sínu. Hann setti norðurlandamet í 48 tíma hlaupi í fyrra þegar hann hljóp um 360 km á Borgundarhólmi. Hann varð svo í þriðja sæti í Spartathlonhlaupinu í fyrra. Í sex daga hlaupi vinnur sá sem hleypur lengst á sex sólarhringum. Þar skiptir máli að skipuleggja sig vel og hugsa hlaupið sem eina heild. Með því að hlaupa 2 x 55 km á hverjum sólarhring kemst maður 660 km. Það hefði dugað til fjórða sætis í þessu hlaupi sem var mjög sterkt. Aðal hættan í svona hlaupum er að keyra sig út í upphafi og berjast svo áfram með sprungið á öllu síðustu tvo dagana eða svo.

Frjálsíþróttasamband Íslands er orðið meðlimur af IAU eða International Association of Ultrarunners. Ég skrifaði bréf til FRÍ í desember á síðasta ári um þessu mál og þetta er niðurstaðan. Danmörk og Ísland gengu í IAU í ár og þá eru frjálsíþróttasambönd allra norrænu landanna komin í alþjóðasamband ultrahlaupara. Þetta er stórt skref í þá átt að ultrahlaup séu almennt viðurkennd sem íþróttagrein hérlendis á við aðrar. Með því að FRÍ tengist IAU þá byggist upp þekking á því hvað er um að vera á þessu sviði. Það er hreint ekki lítið. Þetta gerir okkur einnig auðveldara að taka þátt í evrópu- og heimsmeistaramótum þegar staður og stund er til þess. Stefnt er að því að setja upp sérstaka nefnd sem heldur utan um þessi mál hjá FRÍ. Við sækjum okkur fyrirmynd í þessum efnum til annarra Norðurlanda.

Engin ummæli: