Það var vægast sagt einkennileg fréttaskýring í Kastljósi sjónvarpsins í gærkvöldi. Umfjöllunin snerist um stöðu fólks sem er að fara í kynskiptingu. Heilbrigðisráðherra gaf sl. vor út reglugerð þar sem kveðið var á um, eins og ég skildi málið, að viðkomandi hefðu ekki lengur sjálfsafgreiðslu á almannafé heldur þyrftu að sækja um fjárveitingu til að greiða tilheyrandi aðgerðir og meðferð. Ríkið stendur jú frammi fyrir þvi að þurfa að skera niður ríkisútgjöld um tugi milljarða og einhversstaðar kemur það við. Það var sett um mikið drama í kringum þetta í Kastljósinu. Rætt var við landlækni og geðlækni sem lýstu því hvað þeir einstaklingar sem væru staddir í þessum meðferðarprósess væru örvinglaðir og eiginlega allt í uppnámi. Síðan var rætt við heilbrigðisráðherra. Hann kannaðist ekki neitt við neitt. Það þyrfti jú að sækja formlega um fjárveitingar en annars væri allt við það sama. Maður sat eftir og spurði, hvert var málið?
Ef á að fjalla með álíka hætti um allan þann niðurskurð í ríkisfjármálum sem óhjákvæmilegur er hvort sem gjaldeyrisvarasjóðurinn verði styrktur með láni frá AGS eða Norðmönnum, þá er ég hræddur að Kastljósinu endist ekki kvöldið alla daga vikunnar.
Það var athyglisverð frétt í Mogganum nýlega þar sem Ásgeir Jónsson hagfræðingur lýsti viðbrögðunum við´greinargerð sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum. Í henni fór hann yfir líkleg áhrif hinnar miklu þenslu í samfélaginu sem fyrirsjáanleg var. Viðbrögðin voru heiftarlege. Hann var náttúrulega sjálfur hrakinn, hæddur og smáður en þar á ofan hótuðu mörg stórfyrirtæki að hætta viðskiptum við Kaupþing. það væri ekki hægt að skipta við fyrirtæki sem hefði svona bandit í vinnu. Það var ekki tekin fagleg umræða, rök á móti rökum heldur frumskógalögmálið sett í gang á fullu. Sendiboði válegra tíðinda skyldi skotinn umsvifalaust. Þá yrði allt gott og gaman aftur.
Nú vaknaði von hjá hlaupurum um að von sé betri tíma í íþróttaumfjöllun ríkisjónvarpsins. Í íþróttaþætti nýverið var í löngu máli farið yfir íslandsmótið í brennibolta og bandy í máli og myndum. Mjög fínt. Þá er von til að RUV uppgötvi Laugavegshlaupið sem er annað fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Þar öttu kappi sl. sumar á fjórða hundrað manns. Það er jafnvel von á að RUV uppgötvi Reykjavíkurmaraþonið þar sem 11.500 manns hlupu lengri eða skemmri vegalengd í sumar. Batnandi mönnum er best að lifa.
Ég hvíldi í viku eftir London Brighton. Allt er í fína og bara tilhlökkun inn í komandi tíma. Ætli haustmaraþonið sé ekki næst. Járnbræður munu munda spjótin í Barcelona um helgina. Það verður gaman að fylgjast með hvernig gengur.
miðvikudagur, september 30, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli