Úrslitin í London Brighton lágu fyrir í dag. Alls náðu 157 hlauparar til Brighton innan tilskilinna tímamarka af þeim 224 sem hófu hlaupið á grænum grundum Lundúnaborgar. Ég varð 76 af þeim 157 sem luku hlaupinu eða rétt fyrir framan miðju. Ef ég hefði ekki hlaupið 8 km extra hefði ég verið á ca 10:40 klst og nálægt 35 sæti. Vafalaust hafa margir bretanna einnig farið aukaleggi svo þetta er allt afstætt. Ég sé að Jan Söderquist, eini norðurlandabúinn fyrir utan mig sem ég sé, varð í sætinu fyrir framan mig á rétt um einni mínútu betri tíma. Hann hljóp hlaupið í fyrra en náði ekki í mark innan tilskilins tíma. Hann kom í mark í Brighton á 13:05 ásamt Kjell Ove Skoglund, þeim mikla hlaupara. Nú náði Jan hins vegar að ljóka hlaupinu með sóma. Neil varð í 19 sæti. Hann var lengi í fjórða sæti en missti af leiðinni og það kostaði hann töluvert hrap niður. Slóðin er www.extremerunning.org
Skelfing er dapurlegt að vera smár. Að undanförnu hefur maður lesið miklar langlokur um vistaskipti landsliðsfyrirliðans frá Barcelona til miðlungsliðs í Frakklandi sem hefur það eitt sérstakt til að bera að umfram önnur miðlungs lið frönsk að launin eru skattfrjáls. Það eru í sjálfu sér ágæt býti. Maður hefur séð að upphrópanir í hérlendum "stórblöðum" um að "Hann sé fullkominn leikmaður", "Hann eigi eftir að bjarga Monacó" og þar fram eftir götunum. Hvaða innistæða er fyrir þessu orðagjálfri? Teitur Þórðarson og Karl Þórðarson léku með ágætum liðum í Frakklandi hér fyrr á árum án þess að menn færu úr hjörunum af því. Það er þó sjálfsagt langt í að nokkur slái Albert Guðmundssyni við sem enn er þekktur í Frakklandi fyrir snilli sína, mörgum áratugum eftir að hann spilaði fótbolta þar. Verðið á landsliðsfyrirliðanum og skrefið niður á við fótboltalega séð sýnir ósköp einfaldlega að virði hans hefur minnkað verulega. Hann er seldur á miklu lægri upphæð frá Barcelona en félagið keypti hann á og til miklu lakara liðs. Réttilega var hann kallaður latur leikmaður í einhverjum erlendum fjölmiðli um daginn. Af hverju þurfa menn alltaf að byggja upp einhverja sýndarveröld í stað þess að tala um hlutina eins og þeir eru. Á hinn bóginn hefði ég einnig farið til Mónakó í hans sporum. Skattarnir skipta máli og það er rétt af honum að byggja fjárhagslega undir sig og sína eins og fært er meðan möguleiki er á. Það má óska honum til hamingju með þá hlið mála.
Raggi Bjarna var 75 ára í gær. Kallinn er magnaður. Hann hefur ekki átt önnur eins ítök hjá þjóðinni í áratugi eins og um þessar mundir. Hann er meðfæddur entertainer. Tala um comeback.
Hvað eru Hagsmunasamtök heimilanna? Hverjir mynda þessi samtök? Fyrir hverja tala þau? Tala þau fyrir öll heimilin í landinu eða kannksi bara fyrir sum heimilin í landinu? Það þarf ekki stóran hóp til að troðfylla Iðnó. Kannski svona um 150 manns? Á góðan kvótafund fyrir vestan koma svona 600 manns. Það er hefðbundin fundarsókn um þessi mál í 4500 manna plássi. Ég sé nýlega í blöðum að Capacent gerði skoðanakönnun um ýmis atriði fyrir samtökin. Svörunin var 52%. Niðurstöðurnar blásnar upp eins og þær væri að fullu marktækar fyrir heildina. Það veit hver maður sem eitthvað hefur kynnt sér úrtaksfræði að niðurstöður skoðanakönnunar þar sem svörunin er 52% segir ekki neitt um afstöðu heildarinnar. Hún segir það eitt að helmingurinn hafi þessa eða hina skoðunina. Maður veit ekkert um hinn helminginn. Það væri hvergi í nálægum löndum litið svo á að hinn helmingurinn hefði sömu skoðun og sá sem svaraði. Svona aðferðafræði er eins og að telja spil í spilastokki og telja upp í 30 spil. Þá væri stokknum hent frá sér og sagt: "Fyrst að það er rétt sem búið er, þá hlýtur það að vera rétt sem efir er."
fimmtudagur, september 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli