Það var flott söfnunin hjá Eddu Heiðrúnu Backmann og Grensássamtökunum í gærkvöldi. Því miður sá ég dagskrána ekki nema að litlu leyti. Undirtektirnar voru frábærar enda vel að öllu staðið og málefnið komst vel til skila. Það var gaman að geta lagt þessu verkefni örlítið lið sl. sumar. Móttökurnar við Þelamerkurskóla eru stund sem mun seint líða manni úr minni.
Ég fór í gærmorgun austur á land og sat hluta af aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sem haldinn var á Seyðisfirði. Síðan keyrðum við Karl Björnsson framkvæmdastjóri til Mývatns en þar var haldinn aðalfundur Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Það var ánægjulegt að koma á þessa fundir og hitta sveitarstjórnarmenn þessara tveggja landshluta á sínum heimavelli. Haustlitirnir voru fallegir á Mývatni í dag þegar við renndum hringinn en því miður skildi ég myndavélina eftir heima. Við renndum aðeins upp að Dinnuborgum. Þar er nýbyggt þjónustuhús sem sannarlega var byggt vonum síðar. Gróflega reiknað er talið að milli 250 og 300 þúsund manns hafi komið í Dimmuborgir í sumar. Bílastæðið er allt of lítið og ber ekki allan þennan fjölda. Ferðaþjónustan er í mikilli sókn þarna fyrir norðan. Hótelstjórinn í Reynihlíð lét vel af sumrinu.
Spartathlonhlaupið í Grikklandi var haldið í dag. Veðið var svipað og í fyrra, um 27°C og nokkur vindur eða 3 m á sek. Nær 370 hlauparar lögðu af stað en einungis 132 náðu í mark innan tilskilins tíma. Frá Norðurlöndunum mættu 45 hlauparar og náðu 17 þeirra í mark. Það bar helst til tíðinda að Lars Skytte frá Danmörku varð í 2. sæti á 24.31 klst og Jon Harald frá Noregi varð þriðji á 25.09 klst. Þetta er magnað hjá þeim félögum og þeir eru með þessu að festa sig í sessi meðal bestu ultrahlaupara heimsins. Lars var 3ji í fyrra og Jon Harald varð 7. í HM í 24 tíma hlaupi í fyrra. Eiolf Eivindssen lauk sínu 7. hlaupi á rúmum 34 klst. Ýmsir náðu ekki í mark sem ég þekki s.s. Kim Rasmussen frá Danmörku, Geir Fryklund fá Noregi og Kent Sjölund frá Svíþjóð. Synd með Kent því hann lauk hlaupinu ekki heldur í fyrra og var þá dálítið niðurdreginn. Trond Sjövik hóf ekki keppni. Margarethe Lögavlen, þekktasti ultrakvenhlaupari Noregs, þurfti einnig að hætta. Finninn Esa, sem varð þriðji 48 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi í vor, stóð sig vel og lauk hlaupinu á rúmum 32 klst. Einnig stóð Daninn Vagn sig vel en hann varð þriðji í 24 tíma hlaupinu í á Borgundarhólmi í fyrra. Spartathlon er ekkert grín. Það er mesta ultraáskorun í heimi. Það að ljúka hlaupinu er draumur flestra ultrahlaupara sem reynist mörgum torsóttur.
Það hringdi í mig einhver blaðamaður af Mogganum á fimmtudaginn og spurðist fyrir um London Brighton hlaupið. Ég sagði honum frá því eins og ég best kunni. Annað hvort gerir hann svo misheppnaða tilraun til að vera fyndinn eða hann skildi ekki betur það sem ég sagði honum því búturinn sem birtist í Mogganum var dæmi um týpisk aulaskrif. Eftir skrifunum mátti helst ráða að ég hefði verið einn um það að missa af slóðanum í hlaupinu því það var orðið að aðalatriði skrifanna án þess að vera sett í neitt samhengi við eðli hlaupsins eða hvernig gekk hjá öðrum. Kjánalegt.
laugardagur, september 26, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli