þriðjudagur, janúar 25, 2011

Mér varð nú fyrst að orði í dag þegar ég fletti mbl.is upp hvort það væri 1. apríl. Kosningin til stjórnlagaþingsins var dæmd ógild. Ekki á einu atriði heldur ekki færri en fimm atriðum sem voru bæði ámælisverð og mjög ámælisverð. Að mínu mati er þessi atburður ein af stærri stjórnsýslulegri uppákomu í lýðveldissögunni. Það er ekki verið að kjósa um hvort eigi að kaupa skítadreifara í einhverju fámennu búnaðarfélagi. Það er verið að kjósa til stjórnlagaþings sem á að vinna stjórnarskrá fyrir þjóðríkið. Kosningin fer fram eftir forskrift Alþingis. Kosningin er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Öllu stærra getur það ekki orðið. Maður getur ekki annað en fyllst depurð yfir svona löguðu. Það er búið að eyða hundruðum milljóna í þetta mál og það er ekki hægt að framkvæma það skammlaust. Menn hefðu átt að vera kátari yfir því að erlendir fjölmiðlar fluttu fréttir af kosningunni. Það verður gaman að sjá fréttaflutninginn af þessari hlið málsins á næstu dögum. Ekki má heldur gleyma aðdragandanum. Alltof rúmar reglur voru um hverjir gátu gefið kost á sér í framboð. Kynning á frambjóðendunum fór hálfpartinn út um þúfur. Áhugi almennings var í lágmarki. Konsingaþátttakan var sú langslakasta í kosningum af þessum kalíber frá stofnun lýðveldisins. Þannig hefur hvað rekið annað í þessu sambandi.
Þegar eitthvað er mótdrægt þá virðist vera leitað að frösum til að bjarga sér út úr málunum. Ef einhver þarf að hundast úr vinnu eða sagt af sér vegna þess að hann þótti ekki hæfur í starfi eða naut ekki nauðsynlegs trausts þá er stöðugt klifað á því að hann sé maður að meiri. Þegar ég var út í búð seinni partinn þá heyrði ég útundan mér í útvarpinu að í umræðu um dóm Hæstaréttar virtist það skipta viðmælenda miklu máli að það hefði ekki verið brotið á neinum. Það virtist vera frasinn. Hann var svo margendurtekinn í sjónvarpinu í kvöld. Það var eins og það ætti að gera ástæðu ógildingarinnar eitthvað léttvægari. Í mínum huga skiptir það eitt máli að kosningin var gerð ógild vegna þess að ekki var hægt að tryggja ótvírætt að kosningin hefði verið leynileg og að fyllsta hlutleysis hafi veri gætt.

Ég hef einu sinni borið nokkra ábyrgð á framkvæmd kosninga. Það er ákveðið vandaverk út af fyrir sig en þar sem ég var í framboði sjálfur var allt enn viðkvæmara. Þetta var norður á Raufarhöfn fyrir rúmum áratug. Þegar við fengum kjörseðlana frá prentsmiðjunni kom í ljós að einhvera hluta vegna hafði pappírinn rifnað að hluta til utan af pakkanum. Ekki þó þannig að hann hefði opnast. Pakkinn hafði verið innsiglaður og vandlega um búinn en þarna hafði eitthvað gerst. Ég lét formann kjörstjórnar vita og sagði það ótvírætt að við yrðum að fá kjörseðlana prentaða aftur og þá þannig umbúna að enginn vafi væri á að allur frágangur væri ásættanlegur og tryggt væri að reglum um kosningar væri framfylgt til hins ítrasta. Það var gert og hinum pakkanum var eytt. Ef þetta hefði ekki verið gert þá hefðu verið fullar forsendur til að kæra kosninguna og ógilda úrslitin. Ekki hefði verið hægt að útiloka að það hefði verið reynt að eiga við kjörgögnin. Enda þótt ekki hefði verið brotið á neinum þá hefði ekki verið hægt að sanna það ótvírætt að allt hefði farið fram eftir því sem ítrasta regluverk sagði til um. Þannig gengur þetta nú bara í löndum sem kenna sig við lýðræði.

Í Kastljósi í kvöld var rætt um ráðherraábyrgð það ég sá og heyrði og sýndist sitt hverjum. Í því sambandi má minna á að í öðrum norrænum ríkjum þykir hefur þótt eðlilegt að ráðherra segi af sér ef hann kaupir Toblerone á reikning ríkisins til eigin afnota. Það þarf ekki meira til.

Engin ummæli: