RIG leikarnir voru á helginni. Frjálsíþróttamótið var í gær og gekk mjög vel. Frá því ég fór að fylgjast með frjálsum íþróttum í nýju höllinni þá man ég ekki eftir að krakkarnir hafi komið almennt svona vel inn í fyrsta alvörumót vetrarins. Það var fullt af bætingum, íslandsmet sett í boðhlaupum og yfir höfuð fínn árangur. Nú rekur hvert mótið annað og verður gaman að sjá hvernig þau ganga fyrir sig. Nokkur eru alveg á mörkunum með að komast inn í EM innanhúss sem setur extra kraft á ástundun og elju. Aðrir hafa lengri tíma markmið s.s. ólympíuleikana 2012 í London og þeir sem yngri eru setja markið á ólympíuleikana 2016 (sem verða haldnir í Brasilíu). Það var sýnt beint frá frjálsíþróttamótinu í gær. Það var tveggja tíma útsending. Ég horfði á hana í dag og fannst þetta vera fínt sjónvarpsefni, nóg að gerast, spenna og keppni og undirspilið var lífleg kynning og lýsingar Sigurbjörns Árna. Fyrir þetta þurftu félögin sem stóðu fyrir frjálsíþróttamótinu að borga RUV 300 þúsund kall. Peningar á borðið er eina leiðin til að koma svona keppnum á framfæri í gegnum sjónvarp. Þetta er einnig eina innanhússmótið á árinu sem er með erlendum keppendum. Það verður fróðlegt að sjá umfjöllunina um mótið og þann árangur sem þar náðist í blöðunum á morgun miðað við allt það pláss sem miðlungsgóðir og oft lélegir boltaleikir fá. Þar eru heilu síðurnar teknar undir lýsingar á misgóðum leikjum viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Ef tekst að kynna gott frjálsíþróttfólk fyrir þjóðinni þá eykst áhugi á íþróttinni. Strákana okkar og stelpurnar okkar er nefnileg ekki bara að finna í boltaíþróttum.
Ég hef skoðað staðgöngumóðurumræðuna aðeins á netinu. Eftir því sem ég skoða hana betur því ógeðslegra finnst mér þetta fyrirbæri vera. Það eru til fleiri tugir ef ekki yfir eitt hundrað stofnanir eða klínikkir í Indlandi sem eru í barnaframleiðslu fyrir auðuga útlendinga. Yfirleitt eru stelpurnar sóttar í slömminn og boðið of fjár á þeirra vísu fyrir viðvikið. Þær hafa enga valkosti þannig að niðurstaðan er einföld. Það væri að vísu fróðlegt að sjá hvað mikið endar í þeirra vösum fyrir það sem fólkiðgreiðir. Það hefur farið fram mikil umræða um vændi hérlendis á undanförnum árum. Að því borði komu margir sjálfskipaðir sérfræðingar og allsherjar vitringar. Eitt af fyrstu verkum Alþingis eftir að núverandi flokkar komust til valda var að banna vændi. Í þeirri umræðu var feministafélagið framarlega í flokki. Það er því athyglisvert að það hefur ekki heyrst múkk frá félaginu í sambandi við þessa umræðu það ég hef séð. Mér finnst það síðan undarlegt að fjölmiðlamönnum skuli ekki hafa dottið í hug að googla umræðuna um staðgöngumæðrun á Indlandi (indian baby factory) á netinu. Kannski þeir séu svo uppteknir af snakkinu að þeir hafa ekki áhuga á þessari umræðu að öðru leyti en því að bíða eftir þvi að "Jóel litli" komi "heim". Maður þarf ekki að leita lengi á netinu til að sjá frásagnir af fólki sem hefur lent í nákvæmlega sömu aðstæðum og íslensku hjónin sem eru núna strand úti í Indlandi. Svo er verið að reyna að láta svo líta út að tímafrek afgreiðsla sé vegna persónulegrar eða pólitískrar stífni í stjórnkerfinu hérlendis.
Það virðist vera búið að stofna félag hérlendis þar sem viðkomandi ætla að veita þessa þjónustu í algeru greiðaskyni. Hvernig á að vera hægt að skera úr um það? Umræðan kringum þetta mál sem hefur farið fram hérlendis að undanförnu hefur að mestu leyti verið svo frumstæð að það er með ólíkindum. Ég hef ekki heyrt í nema einni manneskju í fjölmiðlum sem hefur komið inn á siðfræðilega þáttinn. Hinir virðist líta svo á að það sé bara gullna reglan sem gildi. Hún er svona: "Sá sem á gullið setur regluna."
sunnudagur, janúar 16, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli